Er búið að banna litlu jólin?

jol

Í umræðunni um trúboð og kristinfræðslu í grunnskólum ber á misskilningi og rangtúlkun. Eftirfarandi staðhæfingar hafa heyrst í nokkrum mismunandi útfærslum. Hér verða þær hraktar í nokkrum liðum.

1  Kristnin á heima í grunnskólum því við erum kristin þjóð samkvæmt stjórnarskránni
Rangt. Hið rétta er að á Íslandi ríkir trúfrelsi samkvæmt stjórnarskrá. Samkvæmt stjórnarskrá ber ríkinu að vernda og styðja ríkiskirkjuna en það gerir þjóðina ekki kristna.

2  Við erum kristin þjóð af því að 90% þjóðarinnar eru kristin
Rangt.  76.2% voru skráð í ríkiskirkjuna um síðustu áramót. Um 10% þjóðarinnar tilheyra öðrum kristnum trúfélögum en sum þeirra kæra sig ekkert um að hafa boðskap kirkjunnar inni í skólum.  Þeir sem ekki eru kristnir tilheyra líka þjóðinni.

3 Þar sem trúfrelsi ríkir ætti ekki að banna börnum að stunda trú sína í skólum
Það er enginn að banna börnum að iðka sína trú. Þau mega fara með borðbæn ef þau vilja og syngja sálma allar frímínúturnar ef þeim sýnist svo. Skólarnir eiga hinsvegar ekki að skipuleggja dagskrá þar sem nemendum er stýrt eða þeir eindregið hvattir til þáttöku í trúarlífi, það eru heimilin sem eiga að sinna þeim hluta uppeldisins.

4  Það er búið að banna kristinfræði í skólum
Rangt. Trúboð var aflagt í skólum, ekki kristinfræði. Munurinn er sá sami og á því að samfélagfræðikennarinn fræði börn um helstu stjórnmálastefnur og að hann segi börnunum að Sjálfstæðisflokkurinn hafi alltaf stjórnað best og því sé rétt að kjósa hann.

5  Kristin trú er hluti af sögu okkar og menningu, þessvegna á að kenna hana í skólum
Hér  er aftur ruglað saman fræðslu og trúboði. Það er rétt að kristindómur hefur haft mikil áhrif á menningu okkar. Við þurfum ekki að láta börn biðja bænir eða segja þeim biblíusögur eins og þær séu sannleikur til þess að kenna þeim Íslandssögu og bókmenntir. Enginn sem hefur áhrif á skólamál hefur stungið upp á því að börnum verði ekkert kennt um kristindóm og áhrif hans.

6 Það er valdníðsla að banna skólum að fara í kirkjuheimsóknir, sem mörg börn hafa mikla ánægju af
Ef það er valdníðsla, þá er líka valdníðsla að banna skólum að fara með börnin í heimsókn í Framsóknarfjósið til að sjá ægilega sniðugan kall kyssa beljur, sem mörgum þeirra þætti eflaust skemmtilegt.

7  Það er valdníðsla að banna Gídeonmönnum að gefa börnum nýja testamentið
Það er rangt að Gídeon hafi verið bannað að gefa börnum nýja testamentið. Það er hinsvegar bannað að gefa það í skólanum og án samráðs við foreldra. Þætti ykkur viðeigandi ef börnin fengju „litlu kratalitabókina“ að gjöf frá Samfylkingunni og hún yrði afhent í skólanum? Gídeonfélaginu er frjálst að senda börnum nýja testamentið að fengnu samþykki foreldra. Eða afhenda það í kirkjunum því þangað mætir hinn kristni hluti þjóðarinnar á sunnudögum.

8  Það er búið að banna litlu jólin í skólunum
Rangt. Rík hefð er fyrir jólahaldi á Íslandi allt frá heiðni (enda jólin upphaflega heiðin hátíð) og að sjálfsögðu halda skólar jólaskemmtanir. Kennarar sem hafa ekki hugmyndaflug til þess að halda hátíðlega stund með börnunum án þess að stunda trúboð í leiðinni ættu að finna sér aðra vinnu.

9  Börn hafa ekkert illt af því að fara með bænir og heyra um Jesúbarnið
Þeir sem tala svona skilja ekki ástæðuna fyrir því að trúboð á ekki heima í skólum. Jafnvel þótt komi í ljós að börn hafi ekki illt af trúboði þá bara snýst málið ekki um það heldur um það hvort er viðeigandi að skólar boði hugmyndafræði. Foreldrar myndu ekki sætta sig við að kennarar færu með börnin í utanríkisráðuneytið til að mótmæla veru okkar í Nató, jafnvel þótt þau hefðu ekkert illt af því.

10  Skólar ættu að kenna börnum kristin gildi
Þeir sem tala um kristin gildi eiga venjulega við kærleika, miskunnsemi og hófsemi. Ekkert af þessu er sérkristilegt heldur almennar hugmyndir sem einkenna kristna menn ekkert frekar en aðra. Það er vel er hægt að starfa í anda umburðarlyndis og fyrirgefningar án þess að nefna trú eða aðra hugmyndafræði einu orði.

Share to Facebook