Hanna Birna verður að segja af sér

Síðustu daga hafa fjölmiðlar flutt fréttir af máli hælisleitandans Tony Omos frá Nígeríu. Komið hefur fram að samkvæmt trúnaðargögnum sem starfsmaður Innanríkisráðuneytisins lak í fjölmiðla hafi Útlendingastofnun vísað manninum úr landi þrátt fyrir að hann sé grunaður um aðild að mansali. Mansal er glæpur sem einn og sér varðar 12 ára fangelsi og verður að teljast í hæsta máta undarleg ráðstöfun að senda manninn úr landi áður en lögreglurannsókn er lokið. Einnig kemur fram í sömu gögnum að maðurinn sé ekki lengur grunaður um aðild að mansali og einmitt á þeirri forsendu hafi honum verið vísað úr landi.

Hér stöndum við frammi fyrir mótsögn sem ég vil fá skýringu á.  Annaðhvort hefur Innanríkisráðuneytið lagt blessun sína yfir það að mögulegum þrælasala sé hleypt úr landi, eða þá að heimildamaður fjölmiðla hefur beinan ásetning um að sverta mannorð manns sem ekki hefur verið sakfelldur fyrir neinn glæp og vafasamt er að liggi einu sinni undir grun.

Auk þess að gera Tony tortryggilegan innihalda gögnin viðkvæmar persónuupplýsingar. Í þeim kemur fram að hælisumsókn Evelyn byggist á því að hún sé fórnarlamb mansals. Evelyn var ekki spurð álits á því hvort hún kærði sig um að það yrði gert opinbert. Þar kemur einnig fram að Tony hafi orðið tvísaga um það hvort hann sé faðir barnsins en hvorugt þeirra hefur gefið leyfi fyrir því að efasemdir hans um það eða önnur þeirra persónulegu mál yrðu gerð opinber. Evelyn frétti það svo í fjölmiðlum að Útlendingastofnun teldi Tony vera í tygjum við íslenska konu og enda þótt það sé viðurkennd hegðun í flestum Afríkuríkjum að karlar eigi hjákonur, þá reiknaði Evelyn ekki með að frétta það úr fjölmiðlum, hvað þá að fréttaveitan væri starfandi í Innanríkisráðuneytinu.

Mótsagnirnar eru ekki aðeins í gögnum Innanríkisráðuneytisins, heldur birtast einnig í viðbrögðum Gísla Freys Valdórssonar aðstoðarmanns innanríkisráðherra. Hann þvertekur fyrir að lekinn komi frá Innanríkisráðuneytinu en útilokar þó ekki að óbreyttir starfsmenn ráðuneytisins safni persónuupplýsingum um hælisleitendur og leki þeim til fjölmiðla.

Innanríkisráðuneytið lekur gögnum í fjölmiðla en neitar svo að svara fyrir það á þeirri forsendu að starfsmenn þess geti ekki tjáð sig um einstaka mál. Ef Innanríkisráðuneytið kemst upp með það í þetta sinn getum við átt von á því að fleiri opinberar stofnanir taki þessi vinnubrögð upp. Það er því bráðnauðsynlegt að þingheimur skikki Hönnu Birnu til að segja af sér ef hún hefur ekki þá siðferðisvitund að gera það sjálf.

(Stutt hugleiðing mín um umræðuna um mál Tonys, birtist í Kvennablaðinu í dag.)