Er Æðrimáttarkjaptæðið allsráðandi?

-Þú misskilur þetta, sagði hann. Æðri máttur þarf ekkert að samræmast þeirri guðshugmynd sem við ólumst upp við. Æðri máttur getur verið hvaðeina sem þú trúir að sé sterkara en þú sjálf. Ég er trúlaus sjálfur. Sennilega harðari trúleysingi en þú og í mínum huga er Æðri máttur bara samtökin.
-Jæja, sagði ég skeptísk. Segðu mér þá eitt; myndir þú gefa upp pin númerið á kreditkortinu þínu á AA fundi?
-Nei, auðvitað ekki. Hversvegna ætti ég að gera það?
-Þú ættir einmitt ekki að gera það. Það væri mjög heimskulegt. Ekki samt eins heimskulegt og að treysta afturbatarónum fyrir lífi þínu og vilja eins og er talað um í sporunum.
-Kommon Eva. Að treysta á samtökin merkir ekki að maður treysti einstaklingunum sem sækja fundina fyrir hverju sem er.
-Nú? Eru samtökin þá eitthvað annað en fólkið sem skipar þau? Andleg stofnun kannski? Eða einhverskonar andlegt máttarvald?
-Þú getur kannski orðið máttarvald. Ég trúi allavega ekki á neinn persónulegan Gvuð.
-Þannig að þessi spor sem segja að þú eigir að biðja Æðrimátt auðmjúklegast að fjarlægja skapgerðarbresti þína og að þú eigir að ná betra sambandi við hann gegnum bæn og hugleiðslu, eiga þá líklega ekki við um þig?
-Þú vilt náttúrulega ekkert skilja þetta.

Jújú, ég vil alveg skilja þetta.
Reyndar skil ég þetta alveg prýðilega enda er þetta ekkert flókið.

Þess má geta að Einsi gaf upp afskaplega áhugaverðar netslóðir í gær.
http://www.secularsobriety.org/
http://www.rational.org/

Ennfremur hringdi ég í Lansann og spurði hvort væri í boði einhver meðferð fyrir trúleysingja. Fékk það svar að svo væri, það væru reyndar ótal mörg úrræði. Ég spurði hver væri munurinn á þeirra meðferð og hjá SÁÁ. Sú sem ég talaði við kvaðst ekki geta skýrt það í stuttu máli en sagði að reyndar væri meðferð hjá SÁÁ ekki trúarleg. Ég sagðist nú ekki betur sjá en svo væri því SÁÁ væru í beinu samstarfi við AA samtökin, nýttu 12 spora kerfið og vísuðu fólki á AA fundi að meðferð lokinni. „Það gerum við líka“ sagði hún.

Nú má vel vera að Landspítalinn bjóði raunverulega upp á meðferð þar sem Æðrimáttur, hvíta ljósið, alheimsorkan og þeir kviðmágar allir eru ekki „part af programmet“. Ég þekki þó engan sem hefur fengið vímuefnameðferð sem byggist á sjálfsaga og rökhyggju. Ég þarf ekki á meðferð að halda sjálf svo ég ætla nú ekki að ganga svo langt að fara í greiningarviðtal. Mig langar samt að fá staðfestingu á því að meðferð sem ekki byggir á trúarlegum grunni sé raunverulega í boði á Íslandi og auglýsi því hér með eftir einhverjum sem hefur reynslu af eða þekkir til slíkrar meðferðar.

Share to Facebook