Enn einn bullkúrinn

Ég var ekki fyrr búin að pósta síðustu færslu en ég rakst á þetta endemis bull.

Kona sem segist grennast um heilt kg á einni viku með því að vera í megrun þrjá daga vikunnar en borða allan „venjulegan“ mat (hvað sem það nú merkir) hina dagana.

Þetta er ekkert flókið; til að léttast um 1 kg, þarf maður að brenna 7000 7700 hitaeiningum umfram þær sem maður innbyrðir. Manneskjan borðar semsagt á þessum þremur dögum sem hún er í aðhaldi, nógu lítið til þess að hún brenni 2333 2567 he umfram það sem hún lætur ofan í sig. Hvað brennir hún eiginlega miklu? Miðað við líkamsæfingarnar sem hún gefur upp má ætla að 63 kg kona brenni um 300 he þannig að það skýrir aðeins lítinn hluta af þessari miklu megrun.

Það sér hver fáráður að þetta dæmi gengur ekki upp. Það er örugglega alveg hægt að missa kíló á viku með ströngu aðhaldi alla dagana og/eða mikilli hreyfingu en smávaxið fólk og þeir sem eru komnir yfir miðjan aldur þurfa sennilega hvorttveggja. Ef grunnþörfin (sem ræðst aðallega af óviðráðanlegum þáttum svosem kyni, aldri og hæð) er undir 1200 he á dag, getur maður ekki fækkað hitaeiningum um 7700 á viku, nema svelta sig, hvað þá á þremur dögum. Við getum reyndar aukið brennsluna en ég efast um að mörgum veitist beinlínis auðvelt að auka hreyfingu verulega mikið án þess að borða meira. (Hér er hægt að reikna út brennslu við ýmsar athafnir.)

Það er vel hægt að missa 100 grömm á viku án þess að finna fyrir því. Sú aðferð að borða enga fitu eða sykur 3 daga vikunnar getur alveg örugglega létt mann eitthvað og er eflaust heilsusamlegri en margir skyndikúrar. Og jájá, það er mögulegt að missa heilt kíló á viku en það gerist EKKI án fyrirhafnar. Ekki nema maður brenni töluvert meiru en súpermódel á fimmtugsaldri. Hugmyndin er hinsvegar áreiðanlega söluvæn.

Share to Facebook

9 thoughts on “Enn einn bullkúrinn

 1. Hvaðan hefuru þessa tölu; 7000 he?

  Ef við gerum ráð fyrir að þetta eina kg sem brennt er sé allt á formi fitu (sem er nú oftast markmiðið) þá erum við að tala um 9000 he.

  Ertu með einhverjar aðrar forsendur?

 2. Þetta stendur þarna nokkuð skýrt (í þínum fyrsta link):
  ——————————–
  Looking at it another way, 3,500 / 454 = 7.7 calories. Thus a gram of body fat contains only 7.7 calories versus the 9 calories found in pure fat. It’s easy to see that there should be a difference when you consider that body fat contains water, which has no calories.

  Because of the differences in the two types of fat, it is appropriate to use the 3500 calories per pound figure when discussing fat „burned“ by activity, and the 9 calories per gram figure when discussing the nutritional content of food.
  ————————-
  9 caloríur per gramm er sama og 9000 kaloríur per kg. Þaðan hef ég þetta.

  Þetta er s.s. spurning hvort þú horfir á það að léttast sem samdrátt í inntöku orku og notir þá 9000 cal samdrátt til að tákna að þú vegir 1 kg minna en ella Í FITU en ekki heildarvef sem inniheldur einnig aðra hluti en hreina fitu.

  Ég var að tala um fitu einungis en þarna er verið að tala um 1 kg af “fituvef manns“ sem er örlítið annað, sbr munurinn á þessu tvennu sem er s.s. 1284 kaloríur per kg – ekkert stórmál 🙂

  Annars talar textinn sem þú vísar í að 1 kg af líkamsfitu samsvari 7,716 kaloríum þannig að ég veit ekki ennþá alveg hvaðan þessi 7,000 tala kemur.

 3. Semsagt 770 en ekki 700, ég reiknaði með 500 en ekki 454 sem er auðvitað mun nákvæmara og kollvarpar öllum mínum hugmyndum um fitubrennslu enda námundun upprunnin hjá Satni sjálfum.

  Sá sem er að reyna að grennast vill að sjálfsögðu léttast um ákveðinn fjölda kílóa af líkamsfitu (sem inniheldur nokkurt magn af vatni) þ.e.a.s. þá þyngd sem hann sér á vigtinni. Þar fyrir er ekkert raunhæfara að ætla að léttast um heilt kg á mánuði án fyrirhafnar og kannski bara erfiðara ef eitthvað er.

 4. Þetta er í rauninni mög einfalt að mínu mati. Maður verður einfaldlega að draga verulega úr hitaeininganeyslunni. Annars tekst þetta ekki. Allt annað, eins og hreyfing og þess háttar, er bara aukaatriði. Það hjálpar, en það að draga úr átinu skiptir mestu máli og skiptir sköpum. Að reyna þetta án þess að breyta mataræðinu er vonlaust fyrir flest fólk.

  Ég held að þetta sé einfaldlega staðreynd. Það er hægt að breyta mataræðinu, en það kostar töluverðan aga. Ég held líka að alltir megrunarkúrar virki, ef farið er eftir þeim, en það er einmitt vegna þess að meðan fólk er í megrunarkúr og fer eftir honum, þá er fólk agað. Það setur ekki hvað sem er inn um andlitið á sér á meðan það er að fara eftir kúrnum.

  Málið er að temja sér aga.

 5. Það fer alveg ægilega í taugarnar á mér þegar ég sé svona kúra þar sem því er haldið fram að það sé ekkert mál að léttast mjög hratt án þess að hafa fyrir því. Ég held að það ýti undir vonbrigði og brjóti niður sjálfstraust en það er oft óánægja með útlitið sem fær fólk til að fara í megrun og þegar fólk er óánægt með sjálft sig er það sérstaklega viðkvæmt fyrir því að mistakast. Ef þér er lofað kílói á viku en léttist svo aðeins um 300 grömm, þá er hætt við að þú álítir annaðhvort að megrun virki ekki (einmitt mantra „fat acceptance“ fólksins) eða þá að það séu örlög þín að vera feitur. Megrun virkar, en oftast miklu hægar en fólk vill og þegar vandamálið er átfíkn, þá þarf að gera meira en að fara á nokkurra vikna kúr.

 6. Takk Anna, þetta er áhugavert. Ég var að pósta þáttum sem heita The Skinny on Obesity, held að þér gætu þótt þeir athyglisverðir.

Lokað er á athugasemdir.