Engar kleinur handa Ögmundi

Helgi Seljan er besti fréttamaður sem Íslendingar eiga (takið eftir hlutgervingunni þegar ég tala um Helga sem fyrirbæri í almannaeigu.)

Það sem gerir Helga að einstökum fréttamanni er einkum tvennt; hann undirbýr sig almennilega áður en hann tekur erfið mál fyrir og hann lætur fólk ekki komast upp með að skjóta sér undan því að svara. Þeir sem þráast samt við, lenda í þeirri pínlegu stöðu að öllum sem á horfa verður ljóst, að málflutningur þeirra er ekkert nema undanbrögð.

Kastljóssviðtal Helga við Ögmund Jónasson 7. febrúar var beinlíns dásamlegt. Þessi tungulipri ráðherra, sem hefur einstakan hæfileika til að slökkva á fólki, var skikkaður til þess að gyrða niður um sig sjálfur. Að vísu ber hann jú ábyrgð á öllum sínum orðum og gjörðum en hann ber samt ekki ábyrgð á afleiðingunum. Heldur maðurinn virkilega að fólk sjái ekki í gegnum hann? Stjórnarmaður lífeyrissjóðs bar semsagt enga ábyrgð á braskinu af því að braskið var innbyggt í kerfið. Hvað mun hann bjóða okkur upp á næst? Kannski að hann sem ráðherra beri ekki ábyrgð á valdníðslu lögreglunnar af því að starf hennar byggi á valdníðslu? Eða að hann beri ekki ábyrgð á mannréttindabrotum Útlendingastofnunar af því að mannréttindabrot séu grundvöllur stofnunarinnar?

Helgi stóð sig fjandi vel, lét viðmælandann ekki komast upp með að leiða umræðuna að öðru þrátt fyrir örvæntingarfull undanbrögð. Eina ráðið sem dugði honum til að komast í gegnum viðtalið án þess að játa beinlínis á sig meiriháttar afglöp, var hið klassíska þrautaráð, að gefa fegraða mynd af mikilvægum atburðum, mynd sem síðar kemur á daginn að stenst ekki skoðun.

En það er nú ekki það sem var merkilegast við þetta viðtal enda ekkert nýtt að pólitíkusar reyni að bulla sig út úr vandræðum. Það sem mér fannst athyglisverðast var hvernig Ögmundur afhjúpaði ömurlegan sannleika sem ótrúlega margir virðast ekki hafa áttað sig á fyrr. Þá staðreynd að íslenskir ráðamenn eru svo óvanir því að lenda í fjölmiðlamönnum sem kunna til verka, að þeir skilja ekki stöðu sína þegar þeir mæta í viðtöl. Halda í alvöru að þeir séu mættir í kurteisisboð til þess að spjalla við blaðamanninn á jafnréttisgrundvelli.

Og það er kannski ekkert undarlegt. Oftar en ekki fær maður á tilfinninguna að blaðamaðurinn sé einmitt að fara að skokka fram í eldhús til að sækja kaffi og kleinur handa gestinum.

Share to Facebook

5 thoughts on “Engar kleinur handa Ögmundi

  1. Frammistaða Helga Seljan kom ekki á óvart, en að fólki finnist þetta vera dæmi um góða blaðamennsku tel ég vera grátbroslegt. Hann hafði greinilega þann ásetning að „negla“ Ögmund og hafði gefið sér hverjar syndir hans voru – og gott betur- fyrirfram. Spurningarnar báru þessu glöggt merki. „Þarftu ekki að biðjast afsökunar…“ Talaði um „málsvörn“ Ögmundar – rétt eins og hann væri á sakamannabekk – með Geir Haarde! Og hafði greinilega engan áhuga á að hlusta á viðmælandann. Hörð blaðamennska? Góð blaðamennska? Ekki að mínu mati. Því miður.
    Bendi annars á vel skrifaða grein Einars Ólafssonar; „Upplýsing og greining – eða slagsmál og sprell“ á Smugunni. http://blogg.smugan.is/einarol/2012/02/09/upplysing-og-greining-eda-slagsmal-og-sprell/

  2. Helgi Hneyksli góður fréttamaður. – Uhh….! Flest þykir þér nú gott.
    – Hann er vissulega okkar allra besti ekkifréttamaður síðan Haukur Hauksson var og hét en fréttamaður verður hann seint.
    – Ertu ekki bara að meina að Ömmi sé ömurlegur? Hann er það nú svosem oft en mér fannst hann bara nokkuð góður þarna, reif niður hverja ekkifréttina á fætur annarri.

  3. Hafði gefið sér hverjar synir hans voru fyrirfram? Hann var búinn að kynna sér málið og draga ályktanir. Venjulega eru stjórnmálamenn bara spurðir um sitt eigið sjónarmið og lofað að bulla almenning í kaf.

  4. Ég sá Ögmund ekki rífa neitt niður, heldur bara reyna að beita kjaftavaðli til að skjóta sér undan. Hann svaraði akkúrat engu. Ögmundur er ekki í uppáhaldi hjá mér þessa dagana en hvort sem mér finnst fólk standa sig vel eða illa, ætlast ég til þess að það svari spurningum. Hann skýrir ekki hversvegna hann þáði háar fjárhæðir en mætti samt ekki á neina fundi, og hann neitar þvi að hafa farið í boðsferðir þótt hann hafi sannarlega gert það. Þetta heitir ekki niðurrif heldur undanbrögð.

Lokað er á athugasemdir.