Ég hef heyrt þá skoðun að áfengi sé undirrót alls ills.
Venjulega er það fólk sem hefur misst stjórn á lífi sínu vegna ofdrykkju sem lýsir þessu viðhorfi, eða fólk sem bregst við áfengisáhrifum með hegðun sem það er verulega ósátt við eftir á og hefur komist að þeirri niðurstöðu að best sé að sleppa því bara að drekka. Einnig fólk sem hefur orðið fyrir barðinu á því tillitsleysi sem einkennir virka alkóhólista eða jafnvel misst ástvini sína í geðveikina eða dauðann.
Áfengi er vandmeðfarið í höndum óvita og þeirra sem eiga erfitt með að stjórna neyslu sinni. Ef út í það er farið eru flest voðaverk í okkar samfélagi framin undir áhrifum áfengis og það er nú ein ástæða þess að við teljum það ekki á færi barna að taka ákvörðun um að neyta þess og bjóðum ekki upp á það með tíukaffinu á vinnustöðum.
Hitt er svo annað mál að voðaverk eru einnig framin án þess að það komi áfengi nokkuð við. Hermenn eru ekki fullir í vinnunni. Breivik var ekki fullur. Hryðjuverkastarfsemi er ekki óþekkt í löndum múslima, þar sem áfengisneysla er illa séð og aðgengi að áfengi slæmt. Það er ekki að sjá að kerfisbundin mannréttindabrot og umburðarlyndi gagnvart glæpum standi í neinu sambandi við áfengisneyslu.
Svo hér stöndum við frammi fyrir þversögn.
-Við vitum að drykkjuskapur leiðir til geðveiki, ofbeldis og dauða.
-Samt er reynsla okkar sú að þar sem aðgengi að áfengi er best er mannhelgin mest.
En auðvitað er þetta ekki raunveruleg þversögn. Flest okkar vita nefnilega alveg að þótt áfengi hafi þau áhrif á örfáar manneskjur að þær grípa til ofbeldis sem þær myndu ekki fremja algáðar, er fráleitt að halda því fram að áfengi valdi beinlínis ofbeldisverkum. Flestir þeirra sem neyta áfengis eru ekkert geðveikir og lemja engan og fólk drekkur sjaldnast áfengi til að koma sér í ofbeldisham. Markaður fyrir áfengi þrífst vegna þess að mörgum þykja áfengisáhrif eftirsóknarverð og eru tilbúnir til að borga fyrir þau. Fólk sem ekki er haldið þeim mun alvarlegri áfengisfíkn, þróar með sér smekk og vill frekar drekka vatn en verulega vont vín. Áfengi er í sumum tilvikum hluti af menningu okkar án þess að snúast fyrst og fremst um áhrifin, það þykir viðeigandi að skála við ákveðin tækifæri og fólk þarf ekki að vera á leiðinni á fyllirí til þess að taka þátt í því.
Til eru menn sem enn í dag vilja láta banna áfengi á þeirri forsendu að það leiði til voðaverka. Ég get skilið þá afstöðu fólks sem á um sárt að binda vegna ofdrykkju sinnar eða annarra en forsendan er nú samt sem áður röng.
Sjálfsagt eru þeir líka til sem eru nógu djúpt sokknir í rétttrúnað til að halda því fram að sjálft markmiðið með framleiðslu, markaðssetningu og neyslu áfengis, sé það að grafa undan grunnstoðum samfélagsins, stuðla að ofbeldi og mannfyrirlitningu og kúga fólk til hlýðni. Þar brestur skilning minn og mig langar að vita hvort er til fræðiorð yfir þá tegund af heimsku.
Algerlega fullkomlega sammála. Hvað er betra en bjór eftir erfiðan vinnudag eða þegar sólin steikir heiminn, gott vín með góðum mat eða dreytill af viskíi á kvöldin? Áfengi er yndislegt og fordómarnir gagnvart því þreytandi.
Skynsamleg skrif.
Ég á við áfengisvanda að stríða, sem lýsir sér þannig að ef ég drekk áfengi þá rennur ekki af mér fyrr en ég er orðinn auralaus. Áfengið er samt ekki vandamálið, vandamálið mitt er að ég tek fyrsta sopann.
Er þetta ekki bara klassískt dæmi um „skotbyrgishugarfarið“ sem Davíð Þór er nýbúinn að skrifa um? Þ.e.a.s. þessi þörf hinna „réttsýnu“ til að ráða fyrir alla hina? (Hvort sem um er að ræða femínisma, virkjanir, nýjatestamentisgjafir til skólabarna eða annað.): Þessi sterka þörf þeirra sem „hafa séð ljósið“ til að hafa örugglega vit fyrir öllum hinum.
Það eru bráðum 23 ár síðan ég hætti að nota áfengi sjálf en mér er svoleiðis nákvæmlega sama hvort aðrir drekka áfengi eða ekki. Vissulega veldur áfengi gífurlegum skaða hjá alkóhólistum og öllum í kringum þá en ef ætti að banna áfengi á þeim forsendum er rétt að banna einnig bíla alfarið, því fólk getur lent í hroðalegum bílslysum, banna sum lyf því sumir geta misnotað þau, banna útvarpsmessur því einhverjir gætu kristnast á að heyra þær óvart, banna hálku, því fólk getur dottið og meitt sig o.s.fr.
Ef ég má vill ég aðeins fá að víkka umræðuna.
Ef orðinu áfengi er skipt út fyrir t.d. hass í þessari grein, stendur eitthvað eftir annað en hefðarrökin fyrir áfenginu?
Ef svo er, á það sama ekki líka við um harðari efni? Nákvæmlega þær ástæður sem þú nefnir hér eru reglulega notaðarar af fólki sem vill lögleiða harðari fíkniefni.
Hvers vegna ætti fólk ekki að flokka áfengi í sama flokk og t.d. hass, kókaín og ecstacy ef við gerum ráð fyrir því að hefðarrökin fái aðeins pásu. Ég er s.s. að tala um jarðbundnar og efnislegar ástæður. S.s. efnisleg rök séu færð fyrir því að áfengi sé ekki í eðli sínu þannig að rétt sé að flokka það með t.d. hassi, kóki og E?
Ég vil helst hafa sem allra minnst höft og ég hef bent á það, bæði í bloggskrifum og í umsögn um þingsályktunartillögu um njósnafrumvarpið, að lögleiðing vímuefna gæti grafið undan starfsemi vítisengla og annarra gengja sem eru þekkt fyrir ofbeldi. Ég sé ekki að sé neitt vit í einkavæðingu einhverra glæpona á þessum markaði. Hinsvegar skiptir máli hvernig staðið yrði að lögleiðingu. Ég er ekki að mæla með því að Ísland, eitt ríkja leyfi óheftan innflutning á kókaíni fyrir 10 kaffi á morgun.
http://mbl.is/frettir/innlent/2012/02/07/afengi_haettulegasta_eiturlyfid/