Ekki mistök heldur ofbeldi

Ef er miðað beint í augun á fólki, ef gleraugu eru rifin af því svo sé auðveldara að úða beint í augu, ef maður sem stendur upp við vegg og fylgist með aðgerðum er laminn harkalega í fótleggi með kylfu, táragasi er beitt EFTIR að mótmælendur sjálfir eru búnir að ná tökum á áflogahundum, þá heita það ekki mistök, heldur ofbeldi.

Ég ætlaði mér reyndar að hætta að leggja nafn mitt og andlit við ákveðnar aðgerðir en eftir viðbjóðinn sem ég hef orðið vitni að og frétt af síðustu daga, finnst mér nauðsynlegt að grípa til aðgerðar sem einhver verður að taka persónulega ábyrgð á. Því tilkynnist hér með þeim sem hafa orðið fyrir, eða orðið vitni að lögregluofbeldi tengdu mótmælum vikunnar eða verða fyrir slíku á næstu dögum og vikum, og vilja ná fram réttlæti:

Ef þið hafið ekki náð lögreglunúmeri (af einhverjum ástæðum er nokkuð um að lögreglumenn beri ekki númer eða hylji þau og neiti að gefa þau upp) eða sjáið af öðrum ástæðum fram á að kæru verði vísað frá, skrifið þá nákvæma skýrslu um atburðinn, safnið saman vitnisburðum, myndum og öllu öðru sem kynni að styðja mál ykkar. Sendið mér þessi gögn og ég sé um að koma þeim til aðgerðahóps sem vill leggja fram sameiginlega kæru til að knýja fram rannsókn á því hvort lögreglan sem stofnun, fremur en einstaka lögregluþjónar, hafi brugðist.

Ef ekkert kemur út úr því og ekki verður séð fram á að neitt réttlæti náist, mun ég leita samþykkis þeirra sem í hlut eiga, til að fá að leggja málin í hendur dómstóls götunnar. Komi til þess, gæti farið svo að myndir, nöfn og aðrar persónulegar upplýsingar um ofbeldishunda lögreglunnar verði gerðar opinberar. Það yrði þó neyðarrúrræði og ekki gert nema í samráði við þolendur.

mbl.is Afbrotamenn í götubardaga
Share to Facebook

One thought on “Ekki mistök heldur ofbeldi

  1. ——————————————————

    Vona að þér verði stungið inn eins fljótt og auðið er. Það þarf að losna við þig af götunni. Lögreglan hefur staðið sig vel undanfarið. Andmælendur hennar fara allir með rangt mál.

    Þorgeir Ragnarsson (IP-tala skráð) 23.1.2009 kl. 13:53

    ——————————————————

    Æj, come on. Ef lögreglumaður væri að barin til dauða og hann slær priki sínu einu sinni að árásarfólkinu þá myndir þú kenna hann um lögregluofbeldi. Annars styð ég fullkomlega það að fólk sem finnst sér hafa hlotið lögregluofbeldi að sækja sinn rétt, og að sjálfsögðu gildir líka að ef einhver varð vitni af árásarmanni á lögreglu þá ættu sá einstaklingur láta yfirvöld vita.

    MacGyver, 23.1.2009 kl. 13:59

    ——————————————————

    Ég fer ekki gegn lögreglunni sem slíkri heldur gegn ofbeldi og ólögum. Lögreglan á að vernda fólk en ekki að berja það. Ýmislegt er mér heilagt t.d. mannréttindi og lýðræði. Lögreglan er mér ekki heilög og ekki lögin heldur og því fer ég gegn þeim öflum sem halda uppi ranglæti þótt nafn þeirra innihaldi orð á borð við ‘lög’ eða ‘vald’ eða ‘stjórn’.

    Júlíus, ég skrifa yfirleitt frekar knappan stíl en hef fyrir reglu að rökstyðja það sem ég segi. Ef þú nennir ekki að lesa rökstuðning, skaltu bara þrátta við einhverja sem nenna að halda uppi umræðu sem einkennist af órökstuddum fullyrðingum og sleggjudómum.

    Eva Hauksdóttir, 23.1.2009 kl. 14:11

    ——————————————————

    MacGyver, vinsamlegast rökstyddu það sem þú segir. Hvar nákvæmlega hef ég varið tilefnislaust ofbeldi gagnvart lögreglumanni?

    Eva Hauksdóttir, 23.1.2009 kl. 14:12

    ——————————————————

    Lögreglan er nú ekki orðin HEILÖG enn, Júlíus, þó þar sé fleira gott fólk en slæmt!

    Hlédís, 23.1.2009 kl. 14:14

    ——————————————————

    Já Sæl ég er nú ekkert sammála öllu sem mótmælendur gera en ég er allveg sammála því að það eigi að kæra það þegar löggur eru með einhverja mikillmensku brjálæði.   það eru svartir sauðir allstaðar á landinu í öllum störfum allþingi, lögguni og fl.   endilega að losna við löggur sem eru ekki starfi sínu hæfar.   En það má ekki vera með leiðindi við þá sem eru bara gera eins og þeim er sakt að gera hvað sem það er nú!!.   kv. að austa

    Sveinbjörn (IP-tala skráð) 23.1.2009 kl. 14:17

    ——————————————————

    „Ég ætlaði mér reyndar að hætta að leggja nafn mitt og andlit við ákveðnar aðgerðir“  segir þú í færslunni hér að ofan.

    Ég get ekki séð að þú birtir andlit þitt á þessari heimasíðu.  Við hvað ertu feimin?

    Kristín Gísladóttir (IP-tala skráð) 23.1.2009 kl. 14:28

    ——————————————————

    Ég hef t.d. skrifað dálítið um mínar hugmyndir um lausnir hér og hér. Annars álít ég það ekki í mínum verkahring að koma með lausnir fyrir þjóðina, enda hef ég engan áhuga á því að viðhalda fáræðinu hér. Þjóðin á bara að finna sínar lausnir með víðtæku samráði.

    Eva Hauksdóttir, 23.1.2009 kl. 14:34

    ——————————————————

    Þarna finnst mér þú ganga of langt Eva.

    Þú ert að hóta því að leggja lögreglumenn og fjölskyldur þeirra í hættu ef „dómstóll götunnar“ kemst að því að þeir séu sekir um eitthvað sem lögleg yfirvöld hafa ekki talið eiga við rök að styðjast.

    Fannst þér t.d. dómstóll götunnar komast að góðri og réttlátri niðurstöðu varðandi hundinn Lúkas á sínum tíma?

    Lögreglan okkar hefur sýnt meiri þolinmæði og skilning en manni hefði nokkurn tímann dottið í hug að væri mögulegt og mér dettur ekki til hugar að reiðast þeim þrátt fyrir að hafa í einstökum tilfellum gengið heldur langt.  Ég veit ekki hvernig ég sjálfur myndi bregðast við ef á mig væri verið að kasta glerflöskum, gangstéttarhellum, þvagi, saur, sprengjum og fl.

    Ekki láta þér detta það til hugar að þetta sé sjálfsagður hluti starfa lögreglumanna.

    Kærið þau atvik þar sem þið teljið ykkur hafa orðið fyrir ólöglegri valdbeitingu lögreglunnar og haldið ykkur réttu megin við lög og reglur í þessu sem öðru.

    Ég ætla að benda þér á að inni á Facebook er nú komin grúbba sem telur um 15 þúsund manns sem styðja lögregluna og mótmæla ofbeldi og skemmdarverkum „aðgerðarsinna“.  Þrátt fyrir að þú teljir þig ekki til þess hóps sem beitir ofbeldi þá tekur þú þó þátt í ofbeldi þeirra með því að hylja andlit þitt og hvetur aðra til hins sama sem gerir lögreglu ómögulegt að ná til þeirra sem það gera í skjóli ykkar.

    Steinþór (IP-tala skráð) 23.1.2009 kl. 14:53

    ——————————————————

    Þú hefur ekki sagt það. „þú myndir“ túlkar framtíð og ákveðið scenario. Af þínum skrifum hef ég ekkert séð nema fullkomið hatur gagnvart lögreglunni og alls konar árásir á þeim sama hvað þeir gera. Mitt komment var ýkja ætlað að sýna hversu ótrulega hlutdræg þú ert gagnvart lögreglunni og sama hvað gerist þá ert þú á móti henni.

    MacGyver, 23.1.2009 kl. 14:56

    ——————————————————

    Ég var ekki búin að taka eftir fyrstu heimskulegu athugasemdinni við þessa færslu. Það vill svo til að til er mikill fjöldi mynda sem sýna svo ekki verður um villst að andmælendur lögreglunnar fara ekki allir með rangt mál.

    Eva Hauksdóttir, 23.1.2009 kl. 15:00

    ——————————————————

    Kristín Gísladóttir. Ég held að fá orð lýsi mér verr en feimni. Það er til nóg af myndum af mér sem hafa birst opinberlega svo ef þig langar að sjá á mér smettið þá er mjög auðvelt að finna það með t.d. google.

    Eva Hauksdóttir, 23.1.2009 kl. 15:03

    ——————————————————

    Steinþór. Þessi samlíking við Lúkasarmálið er nú að verða dálítið þreytt. Ef þú hefur lesið færsluna þá veistu að ég er ekki að tala um að efna til tilefnislausrar múgæsingar.

    Það eina sem þessi facebook grúppa segir mér er það sem ég vissi fyrir, að flest fólk tekur þeirri hugmynd sem sjálfsagðri og eðlilegri að hluti landsmanna eigi að hafa löglegan rétt til að beita restina valdi og vopnum ef það þjónar hagsmunum stjórnvalda, hversu illa sem þau hafa farið að ráði sínu. Reynsla síðustu daga sýnir að það er greinileg þörf á andófi gegn þeirri ranghugmynd.

    Stefán Eiríksson hefur reyndar gefið það út að meintir ofbeldisseggir séu flestir þekktir glæpamenn sem þekkist af myndum, svo menn ættu nú kannski bara að stilla geðbólgu sinni vegna grímuklæddra í hóf. Það var nú t.d. grímuklætt fólk sem gekk um í gærkvöld og afvopnaði drukkna unglinga sem voru að ráðgera að ráðast að lögreglu með brotnum flöskum. Mér finnst ágætt að umræddir strákbjánar þekki þau ekki á götu.

    Eva Hauksdóttir, 23.1.2009 kl. 15:11

    ——————————————————

    Það eru fasístasvín í lögreglunni hér sem annars staðar, og þó að maður geti haft samúð með einstaklingum sem eru bara að sinna vinnu sinni, nota sumir aðstöðu sína og fela sig bakvið búningana og BJbj. Það er ekki profesjonal eins og Stefán Eiríksson vildi halda fram um alla sína menn, og margt annað sem hann hefur sagt stenst ekki skoðun, svosem að piparúði eigi ekki að spreyja beint í augu eða andlit, við vitum öll betur, og myndir eru til af því að það er gert ítrekað og núna hvern einasta dag.

    Hermann Bjarnason, 23.1.2009 kl. 15:13

    ——————————————————

    Mótmælum fylgir ábyrgð. Við megum ALDREI hvetja aðra til athafna sem kunna að leiða til ofbeldis eðaannarra lögbrota. Það er engum til sóma.

    Mosi

    Guðjón Sigþór Jensson, 23.1.2009 kl. 16:01

    ——————————————————

    Ég hef aldrei hvatt til ofbeldis en ég hvet eindregið til skipulegra lögbrota þegar þau þjóna andófi gegn valdníðslu. Það er t.d. lögbrot að trufla starfsfrið Alþingis með hljóðmengun á borð við þá sem haldið var uppi á þingfundi í gær og reyndar í 15 klukkutíma samfellt.

    Fyrir nokkrum mánuðum hefði borgaraleg óhlýðni af þessu tagi verið túlkuð sem hin mestu skrílslæti og vandlætingin yfir því að saklaust starfsfólk fyrirtækja og íbúar í miðbænum hefðu orðið fyrir truflun, hefði tröllriðið bloggheimum. Nú eru aðgerðasinnar búnir að færa normið svo rækilega að fjöldalögbrot af þessu tagi þykja sjálfsögð og friðsamleg mótmæli í dag.

    Eva Hauksdóttir, 23.1.2009 kl. 16:25

    ——————————————————

    Reyndar er það þannig að þegar lítilsverð brot eru framin, þá metur lögreglan stöðuna. Hefðu þeir handtakið alla sem voru með hávaða fyrir utan Alþingi þá myndi án efa verða ofbeldi þarna. Þess má geta að ég labbaði yfir á rauðu beint fyrir framan lögreglumanni sem var staddur þarna, ég er ekki alveg viss hvort það hafi verið ólöglegt en ef það væri það þá myndi ekki þykja heppilegt að handtaka mig þar sem sumir gætu túlkað þessu sem tilraun til þess að koma í veg fyrir mótmæli (ég var að labba í átt að mótmælunum) og þannig ögrað fólki.

    Lögreglan verður að vega og meta. Hefði einn geðklofa maður verið að hamast þarna úti með flugeldar eða eitthvað þá hefði lögreglan örugglega tekið hann inn.

    MacGyver, 23.1.2009 kl. 18:19

    ——————————————————

    Ég hef reynt, af veikum mætti, að vekja athygli á lögregluofbeldi gegnum árin – en fengið bara skít og skömm fyrir. Svo ég segi ekki meira…

    Skorrdal (IP-tala skráð) 23.1.2009 kl. 18:27

    ——————————————————

    Sæl Eva

    Þú segist vera „ofbeldi og ólögum“ og munir stuðla að því að opinbera persónulgar upplýsingar um einstaka lögreglumenn  og láta í hendurnar á „dómstöl götunnar“ .

    Getum við þá kanski einnig gera ráð fyrir að þú munir stuðla að því að þú beitir þér fyrir því að opinbera upplýsngar um mótmælendur sem köstuðu hlandi, saur og gangstéttahellum í lögreglumenn í síðustu viku. ??

    Hér er myndbrot sem þú ættir ef til vill að skoða.

    http://www.visir.is/article/20090122/FRETTIR01/264547796/-1

    Ég veit ekki til þess að ég hafi heyrt neitt hegðun lögreglu í líkingu við það sem þarna má sjá af hálfu „aðgerðasinna“.  Þessa nótt var einn lögreglumaður hættulega særður og margir aðrir lítilsháttar.  Enginn var handtekinn.

    sigga (IP-tala skráð) 24.1.2009 kl. 22:10

    ——————————————————

    Nei ég mun ekki gera það. Ég hef ekki áhyggjur af því að lögreglan muni vanrækja að koma upp um þá eða halda yfir þeim hlífiskildi.

    Ég sé enga aðgerðasinna hegða sér ósæmileg á þessu myndbandi. Ég sé hinsvegar þekktan aðgerðasinna taka í snarvitlausan ungling sem er að ögra valdníðsluhundunum og draga hann burt. Ég sé ekki þegar valdníðsluhundarnir veitast að skyndihjálparsveit aðgerðasinna og úða yfir hana eitri, en það má heyra mann hrópa; ‘við erum hérna að hjálpa fólki’.

    Stefán Eiríksson greindi frá því í fjölmiðlum í fyrradag að þeir sem hefðu kastað saur og grjóti væru þekktir glæpamenn en ekki mótmælendur.

    Ég hef aldrei réttlætt grjótkast í lögreglu enda á maður að vera góður við dýrin en það er merkilegt hvað það virðist þykja miklu alvarlegra ef fyllibytta kastar steini í lögreglumann en þegar opinber starfsmaður gengur í skrokk á fólki og jafnvel slasar það. Ég varð sjálf fyrir því á þriðjudeginum að stór svoli með hjálm og kylfu, kom aftan að mér og henti mér í götuna. Ég er mjög smávaxin og var ekki að sýna ögrandi framkomu á nokkurn hátt, heldur bara að hlaupa frá Alþingishúsinu að Iðnó. Ef hann hefur haldið að ógn stafaði af mér er hann veruleikafirrtur en sennilega er hann bara ósköp venjulegur löggufantur sem langaði að lemja unglinga.

    Eva Hauksdóttir, 24.1.2009 kl. 23:07

    ——————————————————

    Já og Sigga, ef þú hefur ekki heyrt neitt af fantalegri framgöngu lögreglu, þá skaltu bara renna aftur yfir fréttatíma þessara daga og hafa augu og eyru opin í þetta sinn. Það dylst engum sem sjá vill hverskonar fantaskap einstaka lögga hefur sýnt. Það er hinsvegar nánast vonlaust að ætla að ná fram réttlæti með því að kæra ofbeldið.

    Eva Hauksdóttir, 24.1.2009 kl. 23:12

    ——————————————————

    Hvað áttu við með að ég tali of mikið? Segi ég eitthvað sem ætti að fara leynt eða er ég of langorð?

    Eva Hauksdóttir, 26.1.2009 kl. 01:23

    ——————————————————

    Fyrir alla muni, Eva, skrifaðun eins mikið og getur vegna annarra verka! Ekki veitir af !

    Hlédís, 26.1.2009 kl. 08:27

Lokað er á athugasemdir.