Einkalíf í rusli

Ég var umhverfisvæn. Og græn. Hafði skolað fernur og krukkur,  safnað umbúðum  saman í eldhússkápunum og gert mér sérstaka ferð með ruslið á eldurvinnslustöð í tvö ár. Í einni ferðinni reyndist svo einn gámurinn vera fullur og ég sneri mér til starfsmanns og bað um leiðbeiningar. Hann sagði mér að ég gæti bara sett kassann þar sem mér hentaði því þessu væri öllu blandað saman og urðað.

Ég varð ekki kát. Spurði hversvegna í ósköpunum væri þá verið að hvetja íbúa sveitarfélagsins til að flokka sorp og fékk það svar að tilgangurinn væri sá að „venja fólk við sorpflokkun“. Yfirvaldið var semsagt búið að ljúga því að mér árum saman að ég væri að þjóna umhverfinu með því að fylla skápana mína af rusli, þegar tilgangurinn var ekki annar en sá að ala mig upp. Gaman væri að vita á hverju yfirvaldið byggði þá skoðun að það taki almenning mörg ár að læra að setja plast í einn gám en pappa í annan.

Vonandi þjónar sorpflokkun meiri tilgangi í dag en óskaplega finnst mér klént að sveitarstjórnir skuli eyða meira púðri í að reyna að ala fólk upp en að koma einfaldlega upp flokkurnargámum í hverri götu eða jafnvel flokkunartunnum við hvert heimili. Á síðustu árum hef ég búið í Danmörku, smátíma í Noregi og nú í Skotlandi og á öllum þessum stöðum hafa flokkunartunnur verið við útidyrnar. Ég held að það hljóti að vera einfaldari og þægilegri lausn en að koma á sorplöggu sem gramsar í ruslatunnum.

En svo er annar flötur á sorplöggumálinu sem ég  hefði nú haldið að væri nokkuð augljós. Og það er upplýsingagildi sorpsins. Við hendum nefnilega upplýsingum um sjálf okkur. Aðallega umbúðum, matarleifum og dóti sem við viljum losa okkur við. Allir þessir hlutir fela í sér upplýsingar um einkalíf okkar og þótt aðeins einstaka hlutur gefi viðkvæmar upplýsingar þá getur mikið safn ómerkilegra upplýsinga öðlast merkingu.

Kæri ég mig eitthvað um að sorplöggan viti hvað ég borða, hvaða lyf ég tek og hvar ég versla?  Kæri ég mig um að ruslakallinn viti hversu mikill bjór var drukkinn á heimilinu í síðustu viku, uppgötvi að einhver sem reykir tiltekna sígarettutegund hefur verið í heimsókn eða sjái að ég hef keypt nýjan síma? Vil ég að óviðkomandi sjái innheimtubréf, pappír þar sem kreditkortaupplýsingar koma fram, gramsi í gegnum notaða túrtappa, sjái notaðan smokk eða ónýtar nærbuxur?

Sýndu mér sorpið þitt og ég skal segja þér hver þú ert. Þér er kannski sama þótt ég sjái hvaða pastategund þú notar en getur verið að þú hafir einhverntíma hent hlutum sem þú vilt ekki sýna mér? Hefurðu kannski einhverntíma hent gömlum ástarbréfum, uppkasti að ljóði, ljósmyndum sem teknar voru á neyðarlegu augnabliki, minnisbók með netfangi swingklúbbsins, heimilisfangi pókerklúbbsins eða bankaupplýsingum dópmangarans?

Auðvitað getur sorphirðufólk rekist á alla þessa hluti en við reiknum yfirleitt ekki með því að einhver sé að skoða ruslið. Þessvegna hendum við stundum hlutum sem fela í sér upplýsingar sem geta verið viðkvæmar eða bara óþægilegt að hver sem er hafi aðgang að. Og við hendum líka sönnunargögnum um þann hluta einkalífs okkar sem við viljum halda leyndum. Við hendum leyndarmálum.

Yfirvaldið taldi sig þurfa mörg ár til að kenna mér, sem var þó nógu viljug til að geyma ruslið vikum saman, fylla bílinn af rusli og aka með það milli bæjarhluta, að henda plasti í einn gám en pappa í annan. Hversu mörg ár telur yfirvaldið að þurfi þá til að kenna okkur heimskingjunum að finna aðrar leiðir en sorptunnuna til að losa okkur við dagbækur, viagraumbúðir, minnisblöð frá frímúrarafundum og kassastrimil sem einhver hefur krotað á símanúmer áfengisráðgjafa eða lykilorð að netbankanum? Ætli tvö ár myndu duga?

Share to Facebook

7 thoughts on “Einkalíf í rusli

 1. Þetta er alveg frábær pistill. Nú erum við í Kópavogi komin með viðbótartunnu í . sorpgeymsluna. Hún er blá að lit og í hana skal fara allt sem er úr pappír; eggjabakkar,dagblöð fernur o.fl. ofl. og ef við hendum niðursuðudósum o.þ.h. þá á það ekki að fara í sorppokann í skápnum okkar heldur á að henda því lausu því þá þurfi ekki að opna sorppokana til að flokka það frá öllu draslinu. Kannski eru því betri tímar í vændum og enginn opni leyndarmálapokana okkar. Við rífum bara í tætlur leyndarmálin sem fara í pappírstunnuna.
  Með kærri kveðju.

 2. Ég bjó lengi í Afiríku. Þar grömsuðu innfæddir vinir minir gjarnan í rusli frá mér og lét ég óáreitt í fyrstu, taldi menn leita að verðmætum í rusli mínu til endurvinnslu, en það var ekki síður til að kor.t leggja mig því ég stóð menn jafnvel að því að pusla saman bréfum sem ég hafði rifið í þeim tilgangi að ekki yrði hægt að lesa innihald. Persónulegar upplýsingar um fólk geta verið verðmætari en gull ,háð því til hvers á að nota þær.

 3. Tsk, tsk, tsk… Elsku besta…!

  Ísland er búið að vera lögregluríki í mörg ár… En það versta við það er að almenningur veit ekki af því eða bara hreinlega trúir því ekki…
  Hvernig heldurðu t.d að Geir Jón hafi getað fullyrt þetta með þáttöku Alþingismanna í Búsáhaldabyltingar-mótmælunum kinnroðalaust…? Jú, framkvæmdarvaldið (greiningardeild Ríkislögreglustjóra) var að hlera, ólöglega, síma og öll samskipti (allavega) stjórnarandstöðu þingmanna á sjálfu Alþingi… (Væntanlega að boði þ.v dómsmálaráðherra…) Og hann, Geir Jón, var þátttakandi og bar ábyrgð sem yfirmaður á vettfangi aðgerða…!
  Þetta með sorplöggurnar er bara ein enn aðförin að frelsi einstaklingsins til að „venja/ala upp fólk“ við að fulltrúar yfirvalda gramsi í ruslinu hjá því… Ábyggilega, og örugglega, lagt fram í fyllsta heiðarleika en verður svo notað gegn borgaranum teljist það þörf á því… Hver svo sem ákveður það svo á endanum…
  En á meðan ekkert alvöru „innraeftirlit“ er til með framkvæmdarvaldinu eða fulltrúum þess á Íslandi þá kemst lögregluríkið upp með þetta á endanum… Því að almenningur er svo hrikalega illa upplýstur og steinsofandi á verðinum gagnvart svona brellum gégn frelsi einstaklingsins í samfélaginu…

 4. Góðir punktar. Það er gersamlega ofvaxið mínum skilningi af hverju yfirvöld gjörnýta hvert tækifæri til að gera sorphirðu og -flokkun að vandamáli í Reykjavík.

 5. Ég held að almennt þurfi fólk ekki að hafa áhyggjur af því að gestir og gangandi séu að gramsa í ruslinu, ekki fremur en skúffum og skápum innandyra. En svona ruslaskoðun yrði ekkert ólík húsleit og ég held að fáir kæri sig um að yfirvaldið komi og skoði í skúffurnar reglulega. Þannig að nei, ég er ekki hrædd við sorptunnur frekar en skúffur en ég er hrædd um að það ógni friðhelgi einkalífsins ef fólk á hvenær sem er á hættu að einhver gramsi í þeim.

Lokað er á athugasemdir.