Ég læknaði bílinn minn með DNA heilun

bill

Einu sinni endur fyrir löngu var ég stödd inni í Hallormsstaðarskógi þegar svo óheppilega vildi til að Gráni litli veiktist. Hann var búinn að vera eitthvað slappur í kveikjunni og ég hafði vanrækt að koma honum á verkstæði.

Þetta voru frekar óþægilegar aðstæður. Ég segi ekki að ég hafi beinlínis átt bágt, ég var t.d. ekki með neitt krabbamein og ekki fátæk eða stríðshrjáð heldur en þetta var vissulega ergilegt. Það var kalt og dimmt, engin umferð, þetta var áður en ég eignaðist gemsa og í þokkabót var ég með hundinn með mér. Nei, það var ekki huggun, hann var búinn að synda í Lagarfljótinu og velta sér í drulluflagi. Hann var rennblautur og skítugur og ég hefði ekki boðið nokkrum manni upp á að taka hann upp í bílinn sinn, varla að ég byði Grána litla upp á það þótt ég væri búin að fóðra aftursætið með teppum.

Þarna stóð ég í vandræðum mínum og gat sjálfri mér um kennt en sá svosem ekki fram á að það þjónaði tilgangi að halda því áfram fram á nótt. Ég gerði það eina sem mér datt í hug; ég ræddi málin við Grána. Útskýrði fyrir honum að ég væri í vandræðum, bað hann afsökunar á vanrækslunni og lofaði að koma honum í hendur bifvélavirkja hið snarasta ef hann kæmi mér heim í þetta eina sinn. Hann fór í gang og ég ók honum beina leið á verkstæði.

Nú býst ég við að einhverjir glöggir lesendur álykti sem svo að bifvélavirki að handan hafi heyrt kveinstafi mína, snarað sér á staðinn og sett glænýja andakveikju í bílinn minn. Ég hef samt ekki mikla trú á því, allavega sagði bifvélavirkinn að kveikjan væri ónýt. Einhverjir reikna sjálfsagt með því að Guð Almáttugur hafi þarna gripið í taumana með kraftaverki einu knáu. Ég trúi því ekki heldur. Get ekki betur séð en að guðdómurinn hafi í nógu að snúast heima hjá sér og rúmlega það. Tel það fremur lélega forgangsröð hjá elsku kallinum að rjúka austur í Hallormsstað (eða líklega vestur í Hallormsstað frá hans heimalandi?) til að mylja undir dekurrófu sem vanrækir bílinn sinn á sama tíma og saklaust fólk í Palestínu veltir því fyrir sér hvort það muni eiga heimili og fjölskyldu þegar það vaknar að morgni.

Nei. Það sem gerðist í þetta sinn var galdur. Galdurinn kallaði annars vegar fram heppilega tilviljun sem gaf mér tækifæri til að komast heim án teljandi vandræða og hinsvegar staðfesti hann ásetning minn um að beita raunhæfum ráðum til að koma í veg fyrir að slíkt atvik endurtæki sig.

Ég er blessunarlega heilsuhraust en ég er ekki frá því að ef ég veiktist myndi ég nota svipaða aðferð. Ég myndi líklega reyna að sannfæra líkama minn um nauðsyn þess að halda mér gangandi þar til ég kæmist til læknis, gegn loforði um betri meðferð í framtíðinni. Ég gæti sjálfsagt alveg eins rætt þetta við „stofnfrumuna mína“, það skiptir áreiðanlega engu máli hvort maður ræðir við hnéð á sér eða stofnfrumur. Nú eða Gvuð. Ég er m.a.s. nokkuð viss um að slíkar samræður myndu hafa áhrif.

Samtal mitt við sjálfa mig, líkama minn, heilabúið eða stofnfrumuna, gæti vel haft þau áhrif að mér liði betur en ella þann daginn. Aukinheldur myndi samtalið (eða eintalið ef menn vilja líta svo á) hvetja mig til að drífa mig til læknis, endurskoða lifnaðarhætti mína, ganga úr skugga um að ég tæki rétt lyf í réttum skömmtum o.s.frv. Kannski myndi einlæg ósk um bata ýta af stað einhverju ferli sem gerði lækningar árangursríkari.

Já. Ég trúi því að samræður manna við stofnfrumur sínar hafi áhrif á heilsufar og líðan. Ég trúi á slíkar samræður eins og aðra galdra. EN, við endurröðum ekki erfðamengi mannsins með hugarorkunni. Ekki fremur en við notum hugarorkuna til að gera við bilaða bíla. Ég er ekkert að útiloka hugsanleika þess að þetta sé hægt en það er tilgangslaust því við höfum nú þegar aðferðir sem skila biluðum bilum og sjúklingum miklu betri, öruggari og varanlegri árangri en nokkur galdur. Þessar aðferðir eru kallaðar tækni og vísindi.

Galdur virkar. Ég veit ekki hvernig, en ég er sannfærð um (þótt það sé ekki augljóst út frá lögmáli orsakar og afleiðingar) að einlægar óskir geti haft áhrif á velgengni okkar og líðan, jafnvel fært okkur óvænta heppni og undarlegar tilviljanir. Galdur er þannig fínn fyrir sinn hatt; fyrirtaks viðbót við þekkingu, vinnusemi, skynsemi og allar aðrar aðferðir sem gera lífið auðveldara. En galdur kemur ekki í stað upplýstrar þekkingar og vísindalegra aðferða, hvort sem við köllum hann rúnaristu, orkustein, DNA-heilun eða bæn.

Share to Facebook