Eððú sért ekki með okkars í liði…

Lýðræði, eins og það er ástundað í okkar samfélagi, merkir að fjöldinn felur stjórnmálaflokkum að setja lög. Lögin eru svo mótuð eftir hagsmunum flokkseigenda sem einnig hafa umtalsverð áhrif á það hverjir veljast í valdastöður.  Mikið lifa þeir í litlum og þröngum heimi sem álíta að hver sá sem ekki er hrifinn af þessu fyrirkomulagi vilji endilega koma á marxisma. Ég þekki persónulega einn mann sem hefur áhuga á að koma á samfélagi sem mótað er eftir marxískri fyrirmynd. Einn. Og vinir hans hía á hann.

Það þarf engan marxisma til að vilja koma í veg fyrir söfnun auðs og þar með valda á fáar hendur. Ég þarf ekki að vera marxisti til að vera mótfallin því að fólk í valdastöðum geti stjórnað stjórnmálaflokkum, fjölmiðlum, vísindastofnunum og menningarlífinu, ásamt því að úthluta vinum og vandamönnum embættum og einkarétti á nýtingu auðlinda. Ég þarf ekkert að vera marxisti til þess að sjá eitthvað rangt og hættulegt við stórfelldar persónunjósnir, misneytingu lögregluvalds og ofsóknir gegn minnihlutahópum.

Gagnrýnin á kapítalismann, eða öllu heldur það hvernig markaðsfrjálshyggjan er í framkvæmd, hefur lítið með marxisma að gera. Hún er miklu fremur sprottin af hneykslun á því hvernig kapítalstar hafa svikið hugsjónina um frelsi. Það er ekki í anda markaðsfrjálshyggju að hefta aðgengi þriðjaheimsríkja að mörkuðum og hefta flæði fólks milli heimshluta. Ómerkileg er sú frelsishugsjón sem lætur það viðgangast að fólk sé ráðið í stöður á grundvelli hagsmunatengsla fremur en verðleika og hverskonar frjálsræði ríkir þar sem menn hafa sitt fram með hernaði og fólk er handtekið fyrir að standa uppi í hárinu á stórfyrirtækjum og stjórnvöldum? Kapítalismi eins og hann er praktíseraður á nefnilega jafn lítið skylt við frelsi og stalínismi við jöfnuð og réttlæti. Sumir eru frjálsari en aðrir, klárlega.

Kannski væri reynandi að ræða stjórnmál út frá einhverju öðru sjónarhorni en þessum tveimur pólum, hægri-vinstri.  Hugmyndin um valið á milli markaðsfrjálshyggju og marxisma er nefnilega að hálfu leyti ímyndun og hinn helmingurinn er ekkert annað en hrein og klár lygi.  Og ég sé ekki að við höfum grætt neitt á því hingað til að saka hvern þann sem talar gegn ríkissafskipum um þjónkun við auðvaldið og hvern sem talar gegn einkavæðingu auðlinda um stalínska framtíðarsýn.

Share to Facebook