Dylgjur Páls Magnússonar í garð Álfheiðar Ingadóttur

Katrín Jakobsdóttir, formaður Vinstri grænna, hefur kallað eftir gagnsæi varðandi viðbúnað við hryðjuverkaógn. Þetta finnst Páli Magnússyni, þingmanni Sjálfstæðisflokksins, alveg stórfurðulegt.  Gagnsæi gæti nefnilega gagnast hryðjuverkamönnum.

Páll tekur það auðvitað ekki fram að allar aðgerðir sem ætlað er að tryggja rétt og öryggi almennings gagnvart valdhöfum geta gagnast hryðjuverkamönnum. Trúfrelsi, tjáningarfrelsi, ferðafrelsi, friðhelgi einkalífs, rétturinn til þess að vera ekki sviptur frelsi eða refsað án lagaheimildar, allt gagnast þetta hryðjuverkamönnum. Og valdastofnanir og stjórnmálamenn hafa sannarlega reynt að nýta sér það til þess að skerða frelsi og réttindi almennings.

 

Þegar Páll er inntur eftir því hvað hann eigi við með að þessi sjónarmið hafi komið fram hjá sumum forystumönnum VG, staðfestir hann svo að þessum aðdróttunum sé beint að Álfheiði Ingadóttur en fullyrðing hans er beint upp úr hinni hápólitísku skýrslu Geirs Jóns Þórissonar um Búsáhaldabyltinguna.

 

Lögreglan sem óvinur almennings
Sú hugmynd anarkista og kommúnista að lögreglan sé í eðli sínu óvinur almennings er því miður engin tímaskekkja og það eru engar ýkjur að upprunalegur tilgangur hennar var sá að gæta hagsmuna kapítalista. Hér er aldeilis ágæt grein sem skýrir þau tengsl.

Vitanlega er lögreglunni ætlað það hlutverk að vernda hinn almenna borgara gegn glæpum og koma höndum yfir þá sem brjóta af sér en henni er einnig ætlað að vernda hagsmuni ríkisins og þetta tvennt fer ekki alltaf saman. Í reynd er hlutverk lögreglunnar fyrst og fremst að vernda hagsmuni ríkjandi valdhafa og lögreglan verður sannarlega óvinur almennings þegar ekki er haldið aftur af þessu eðli hennar.

Í hnotskurn eru það þrennskonar aðstæður sem skapa hættu á því að lögreglan verði óvinur fólksins:

  • Þegar lögreglan fær óhóflegar heimildir til valdbeitingar eða inngripa í einkalíf borgaranna
  • Þegar skortur er á eftirliti með störfum hennar
  • Þegar skortur er á gagnsæi og takmarkað aðgengi að upplýsingum um vinnubrögð og ákvarðanir lögreglu

Misbeiting valds þrífst í skjóli leyndar og Ísland er þar engin undanteking. Það er varla til það ríki í veröldinni þar sem lögregluvaldi hefur ekki einhverntíma verið misbeitt með fullri blessun æðstu handhafa framkvæmdarvaldins. Það sem greinir Vesturlönd á okkar dögum frá harðstjórnarríkjum þriðja heimsins og einveldissamfélögum miðalda er ekki það að lögregla, her, útlendingaeftirlit og aðrar valdastofnanir séu annars og geðslegra eðlis, heldur hitt að á Vesturlöndum nú á tímum er almennt betra eftirlit með yfirvöldum og reglur gilda um gagnsæi og aðgengi að upplýsingum, bæði um verklag þeirra almennt og þá atburði sem orðið hafa.

Þar sem yfirvöld geta falið aðgerðir sínar án þess að þeir sem fyrir þeim verða eigi raunhæfa möguleika á að komast að hinu sanna, þar viðgengst valdníðsla. Glöggt dæmi um þetta eru persónunjósir. Skemmst er að minnast uppljóstrana Edwards Snowden um umfangsmikið eftirlit bandarískra og breskra yfirvalda með hverjum þeim sem notar internetþjónustu eða síma, hvort sem hann er grunaður um afbrot eða ekki.

Á Íslandi og í öllum nágrannalöndum okkar hafa ólöglegar persónunjósnir og skrásetning upplýsinga um pólitískar hreyfingar viðgengist í skjóli leyndar.  Á tímum kalda stríðsins fóru fram skipulegar símhleranir á Íslandi. Tilgangurinn var sá að fylgjast með pólitískum andstæðingum sitjandi valdhafa. Enginn hefur þurft að axla ábyrgð vegna símhlerana og annarra brota gegn mannréttindum stjórnmálamanna sem aldrei voru þó sekir um stærri syndir en þær að vera vinstri sinnaðir.

Persónunjósnir á Íslandi tilheyra ekki aðeins fjarlægri fortíð. Aðeins 10 ár eru síðan flugumaðurinn Mark Kennedy var sendur inn í hóp umhverfissinna á Íslandi. Útilokað reyndist að fá fram svör um það hvernig samstarfi lögreglunnar við bresk yfirvöld var háttað í því máli. Ennþá veit enginn nema lögreglan og hugsanlega fleiri yfirvöld hvort Bretar studdu Íslendinga í ólöglegum njósnum með því að senda Mark Kennedy til Íslands eða hvort íslensk yfirvöld útveguðu Bretum njósnaaðstöðu á Íslandi. 

Enginn sem hefur kynnt sér misbeitingu heimilda til persónunjósna á Íslandi þarf að undrast þótt óbreyttir borgarar séu uggandi yfir því að lögreglan mæti vopnuð á mannamót.

 

Dylgjur í garð Álfheiðar

Engin ástæða er til að ætla að yfirvöld sem misbeita valdi sínu til þess að skerða friðhelgi venjulegra borgara sem engum stafar nein ógn af, muni ekki misnota eftirlitsleysi og vanþekkingu almennings á vopnvæðingu og meðferð valdheimilda varðandi varnir gegn hryðjuverkum. Þetta veit Páll Magnússon. Honum finnst það bara allt í lagi.

Hvað varðar aðdróttanir Páls gagnvart Álfheiði Ingadóttur, þá eru þær svo heimskulegar að maður veit ekki hvort maður ætti frekar að hlæja eða gráta.

Ekkert hefur nokkursstaðar komið fram sem rennir stoðum undir þann hugarburð nokkurra lögreglumanna að Álfheiður hafi gefið einum eða neinum slíkar upplýsingar. Af undarlegum ástæðum voru þessir hugarórar viðraðir í skýrslu lögreglunnar um Búsáhaldabyltinguna; skýrslu sem er í besta falli lituð af pólitískum skoðunum og í versta falli kolólögleg.

Það er þingmanninum sjálfum til háborinnar skammar að tyggja þessa þvælu upp á opinberum vettvangi. Skýrsluskrípið sjálft er okkur svo aftur áminning um þann óþægilega sannleika að lögreglan er pólitísk stofnun. Þegar við sjáum sérsveitarmenn rixa um Austurvöll, vopnaða skammbyssum, þá erum við ekki bara horfa á þá sem eiga að vernda okkur gegn hræðilegum útlendingum. Við erum einnig að horfa á fulltrúa ríkisstjórnar og þá fyrst og fremst fulltrúa Sjálfstæðisflokksins, fulltrúa manna eins og Páls Magnússonar, sem finnst alger óþarfi að almenningur viti eitthvað um það hvernig staðið er að vopnvæðingu lögreglu og manndrápum á vegum yfirvalda.

Share to Facebook