Biskupinn er brandari Gvuðs

PreachingÉg hef lengi haft ákveðnar efasemdir um dómgreind séra Karls Sigurbjörnssonar (titilinn „herra“ nota ég aðeins um þá sem ég ber virðingu fyrir) og undrast að maður sem svo greinilega vantar nokkrar blaðsíður í, skuli hafa valist til að gegna svo háu embætti.

Stærsta kjaftshöggið fékk landinn um síðustu páska, þegar biskupinn kom upp um vanhæfni sína til að gera greinarmun á því sem er gleðilegt og hinu hlægilega. Ég hélt í hrekkleysi mínu að það rugl kynni að skýrast af því að Karlinn væri tregkímnigáfaður en taldi ekki útilokað að hann slagaði hátt í meðalgreind á flestum öðrum sviðum.

Það bar þó til um þessar mundir að biskupinn, missti enn og aftur í buxurnar. Í þetta sinn opinberar hann þekkingarskort sinn og/eða fullkomið skilningsleysi á listasögunni (sem ég hélt þó að hlyti að vera þokkalega sinnt hjá guðfræðideild Háskóla Íslands) þegar hann gerir jólasögu Baggalúts að umræðuefni í jólapredikun sinni.

Við höfum þess vegna gott af því að leyfa okkur að hrökkva eilítið við og leggja við hlustir og undrast það sem í raun og veru er haldið þarna fram, vegna þess að það er svo yfirgengilegt að engu skáldi, snillingi, listamanni, spekingi -né Baggalúti- fyrr né síðar gæti slíkt til hugar komið. Enda var það Guð sjálfur sem „fattaði upp á því“ eins og unglingarnir segja. Þetta segir Karl upp í opið geðið á listamönnum, listunnendum og öðru fólki sem hefur a.m.k. lágmarks skilning á hugtakinu list.

Er biskupinn ekki með réttu ráði? Dettur nokkrum heilvita manni í hug að halda því fram að í heimi sem hefur getið af sér Lísu í Undralandi, Stubbana og Star Trek, sé saga af meyfæðingu og englakór of yfirgengileg í fráleitni sinni, til að koma nokkrum listamanni í hug?

Vissulega er saga jólaguðspjallsins fráleit. Það eina sem er yfirgengilegt við hana er þó þrákelkni manna til að halda henni fram sem sannleika. Það er út af fyrir sig guðdómlegur brandari að á okkar upplýstu tímum skuli lítill karl, sem gegnir hárri stöðu, reyna að telja almenningi trú um að slíkt ævintýri eigi sér a) stoð í raunveruleikanum, b) guðdómlega uppsprettu.

Mér finnst séra Karl Sigurbjörnsson einhver hlægilegasti brandari sem gengið hefur erinda Gvuðs á Íslandi.

 

Share to Facebook

1 thought on “Biskupinn er brandari Gvuðs

 1. ————–

  Maðurinn er, hefur alltaf verið og mun alltaf vera vanviti.

  En það er eins í kirkjunni og hinu leikhúsinu, það skiptir máli undan hverjum þú ert 😉

  Posted by: lindablinda | 27.12.2006 | 17:32:45

  —————-

  uss, hver heldurðu að taki mark á svona rugli?

  þetta er bara tuð í Karlinum

  Posted by: baun | 27.12.2006 | 19:45:18

  ——————-

  Kallinn virðist ekki hafa lesið mikið nema einhverjar illa skrifaðar halelújabækur fyrst hann kemst að þessari forheimskandi niðurstöðu.

  Posted by: Jón Stefánsson | 28.12.2006 | 16:28:27

Lokað er á athugasemdir.