Bakkafylli dagsins

muslimarÉg hef ekkert tjáð mig um skopmyndamálið fyrr en nú. Hef bara ekkert um það að segja sem aðrir mér ritfærari og vinsælli hafa ekki þegar sagt. Þessvegna finnst mér svolítið dapurlegt til þess að vita að fólk sem ég taldi fremur skynsamt virðist ennþá, eftir alla þessa umræðu líta á málið sem talandi dæmi um húmorsleysi og trúarofstæki múslima.

Málið er bara ekki svo einfalt. Þetta er ekkert í fyrsta sinn sem menn beina gríni sínu að Múhammeð og ef þetta snerist ekki um neitt annað en húmor og trú, hefði Arabaheimurinn fyrir löngu sagt Vesturlöndum stríð á hendur vegna vanvirðu við spámanninn og menningu þeirra.

Óánægja múslima stafar af langvarandi undirokun og menningarhroka vestrænna ríkja, sem hafa svipt fjölda manns heimilium sínum, atvinnu og heilsu og í mörgum tilvikum lífinu. Skopmyndamálið er bara kornið sem fyllir mælinn. Málið snýst hvorki um húmor né ritskoðun, heldur um örvæntingarfulla tilraun lifandi fólks til að halda í einhverjar leifar af sjálfsvirðingu.

Viðbrögð múslima endurspegla kröfu þeirra um að mannréttindi þeirra séu virt. Sennilega finnst þeim sem eiga um sárt að binda eftir framgöngu Bandaríkjamanna og vina þeirra t.d. í Írak, ekkert sérstaklega fyndið að fulltrúar þeirra sem hafa lagt líf þeirra í rúst og drepið fjölskyldur þeirra, dragi upp af þeim mynd sem heimskum og hlægilegum morðvörgum.

Og nei, það er ekki hægt að lækna það með því að leyfa þeim bara að gera grín að Jesúsi.

Share to Facebook