Aldagamlar lækningaaðferðir

skottuHvernig stendur á því að um leið og við eltum ólar við allar tækninýjungar á markaðnum, ríkir mikil hrifing á aldagömlum lækningaaðferðum? Talsmenn náttúrulækninga halda því gjarnan á lofti að aðferðirnar séu fornar, rétt eins og það tryggi gæðin. Mér finnst þetta mjög flippað því hrifning á fortíðinni tengist yfirleitt söguskilningi og listhneigð en ekki gagnsemi í nútímanum. Við hrífumst af gömlum dómkirkjum og skinnhandritum vegna þess að þau bera vott um afrek þess tíma. Við varðveitum sögu siglinganna og skólanna af því að við viljum vita hvaðan við komum. Þó dettur engum heilvita manni í hug að markaðsetja byggingafyrirtæki eða skipafélag út á „aldagamlar aðferðir“ en þegar heilsa fólks er annarsvegar er eins og sumir trúi bara ekki á úreldingu.

Ég er alls ekki að gagnrýna þá sem reyna að forðast kemísk lyf og læknisaðgerðir. Ég er viss um að það er oft skynsamlegt að prófa að borða meira af gulrótum og minna af kokteilsósu áður en maður drífur sig í skurðaðgerð, drekka jurtaseyði áður en maður prófar hormónalyf og fara í nudd í stað þess að gleypa vöðvaslakandi lyf. Ég er hinsvegar hissa á því hvað er hægt að selja fólki mikð af vafasömum lækningum með orðunum „aldagamlar lækningaaðferðir“. Getur einhver útskýrt fyrir mér hvers vegna fólk er til í að nota úreltar aðferðir gagnvart heilsu sinni þegar sama fólk myndi frekar setja sig í skuldir til að eignast fullkomnasta gsm síma á markaðnum en að láta sér detta í hug að taka upp blað og penna og skrifa sendibréf?

 

 

Share to Facebook

One thought on “Aldagamlar lækningaaðferðir

  1. ———————

    mikið til í þessu, það er ekki allt gott sem sagt er gamalt og gilt…

    minnir mig á sögu af hól við einhvern skóla í borginni sem verktakar neituðu að grafa í sundur af því að ýta bilaði þegar þeir hófu verkið. þá var þessi þúst túlkuð sem álfhóll. börn voru í stórhættu út af þessu, því þau renndu sér þarna á sleða og lentu út á götu.

    þegar málið var skoðað ofaní kjölinn, kom í ljós að þetta var uppgröftur eftir fyrri lóðaframkvæmdir, og varla hefðbundin álfabyggð..(nema þeir kjósi nýbyggingar?)

    Posted by: baun | 4.02.2007 | 13:01:37

    ————————————————

    Þetta er rétt eins og hefðarrökin fyrir stuðningi við trúarbrögð. Guð forði að við rjúfum hefðir!

    Ég ætla líka að benda á þetta næst þegar þessar kellingar fara aftur að kvarta yfir því að þær fái minna borgað en karlmenn. Það er bara löng hefð fyrir því að hafa þetta þannig og við viljum ekki raska aldagamalli menningu!

    Posted by: Kalli | 4.02.2007 | 18:06:09

    ————————————————

    Væri ekki líka tilvalið að notast við aldagamlar uppeldisaðferðir?

    Posted by: Eva | 4.02.2007 | 21:07:02

    ————————————————

    jamm, hýðingar til dæmis upplagðar.

    Posted by: hildigunnur | 4.02.2007 | 22:37:11

    ————————————————

    Við erum á góðri leið hérna. Næst þurfum við að taka fyrir öll þessi helvítis hórdómsbrot og gleymum ekki að við höfum enn Drekkingarhyl.

    Posted by: Kalli | 4.02.2007 | 23:35:29

    ————————————————

    Aldagamalt réttarkerfi hlýtur að vera álíka sniðugt og aldagamlar lækningaaðferðir. Sjálfsagt eitthvað nothæft úr hvorutveggja.

    Posted by: Eva | 5.02.2007 | 8:15:38

Lokað er á athugasemdir.