Af kvenhatri Salmanns Tamimi

Salmann Tamimi opnar á sér þverrifuna, verður það á að nefna son sinn sérstaklega en ekki dætur, sem miðað við hans uppruna ætti svosem ekki að koma neinum á óvart.

Á snjáldrinu verður allt vitlaust. Einhverja rámar í viðtal þar sem Salmann mælir með duglegri eiginkvennabarsmíð, helst með priki. Aðra minnir að þetta hafi nú kannski ekki alveg verið svona gróft. Ég sá þetta viðtal ekki sjálf en á endanum sendi ágætur maður mér útprent af því og kann ég honum bestu þakkir.

Það sem Salmann raunverulega sagði

Salmann: Ekki var mamma mín undirgefin pabba mínum. Ég veit ekki hvernig er hægt að gera konu undirgefna manninum nema með því að brjóta á réttindum hennar. Ef brotið er á réttindum hennar þarf auðvitað að berjast gegn því og stoppa það. En það er ekkert í Íslam sem segir að það. Íslam segir að við séum jafningjar ég og þú erum jafnir. Í hjónabandinu, við erum að búa til fjölskyldu sem á að vera umlukin af ást, umhyggju og kærleik.

Þóra Tómasdóttir: Er ekkert í Íslam og Kóraninum sem gefur karlmönnum heimild til að lemja konurnar sínar til hlýðni?

Salmann: Það er ekkert, meira að segja það er til íslensk þýðing. Það er eitt vers sem segir að það megi refsa konunni eftir vissan tíma og hann er að tala við múslíma og múslími skilur hvað hann er að tala um.

Þóra: Hvað er hann að tala um?

Salmann: Ef það er eitthvað vandamál milli ykkar þá ræðið þið það fyrst og ef það gengur ekki þá hættið þið að sofa saman í smá tíma svo ef það gengur ekki að sættast þá erum við raunverulega að refsa konunum með einhvern hátt.

Þóra: Telurðu að það sé rétt?

Salmann: Tel ég að það sé rétt? Það mundi aldrei koma til þessa hjá trúuðum múslímum að það kæmist á það stig. Það mundi aldrei koma til þess hjá trúuðum múslímum að það þyrfti að refsa. Af því það er í raun og veru – ef ég er kominn á það stig að þurfa að refsa konunni minni, þá er ástin búin. Það er hægt að skilja í Íslam. Konan getur farið …

Þóra: En hefur þá í raun og veru samt sem áður, karlmaðurinn heimild til þess að refsa konunni?

Salmann: Hann hefur ekki heimild til að refsa einum né neinum. Hann er ef til vill að refsa með því að gefa henni ekki vasapeninga.

Þóra: En er það í lagi?

Salmann: Nei, það er ekki í lagi?

Þóra: Nei?

Salmann: En ég er að segja það að hjá trúuðum múslímum kemur aldrei á það stig. Í raun og veru er hann að ræða um að tala saman, ekki sofa saman í sama rúmi, í sama herbergi, þangað til allir eru búnir að kæla sig og vera í góðum málum. Og þannig leysist málið þegar búið er að ræða það oftast nær. Því þetta er eins og ég segi, við erum að ræða um fjölskyldubönd, umhyggju og kærleik og við erum að ala upp góða þjóðfélagsþegna fyrir samfélagið.

Þóra: En er þá, að þínu mati ekki ástæða til þess að endurskoða stöðu konunnar innan Íslam?

Salmann: Já, innan hvers lands, ekki innan Íslams.

Þóra: Ekki innan Islams?

Salmann: Nei, Það er ekkert. Þetta er orð Guðs. Og ég mana hvern sem er til þess að sýna fram á það að konan sé ekki jöfn karlmanninum (í Íslam).

Þóra: Og telurðu að það fyrirfinnist ekki.

Salmann: „Það fyrirfinnst ekki.”

Nákvæmlega sama ferlið og hjá kristnum

Svo sem sjá má á viðtalinu hefur Salmann álíka undarlegar hugmyndir um Islam og flestir kristnir menn um Kristindóminn. Sama sjálfsblekkingin, sama hugmyndin um að trúarritin merki eitthvað allt annað en orðin segja (af því að þau samræmast ekki þeim siðferðishugmyndum sem viðkomandi hefur tileinkað sér.) Hugmyndin um að þeir sem sannarlega virða gvuðinn sinn lendi bara ekkert í þeirri óþægilegu aðstöðu að þurfa að gera eitthvað upp við sína eigin samvisku.

Samkvæmt þessu viðtali hefur Salmann enganveginn jákvætt viðhorf til eiginkvennarefsinga. Það væri hinsvegar of stórt skref fyrir hann að gagnrýna Islam. Þess í stað býr hann sér til sína eigin útgáfu af Islam. Útgáfu þar sem fólk slítur samvistum ef því líður ekki vel saman, fremur en að takast á við vandann með ofbeldi.

Þetta er rökrétt, svona hafa kristnir menn líka farið að en í stað þess að fagna því að múslímar finni sér sömu leiðir fram hjá ógeðfelldustu þáttum trúar sinnar og kristnir (að endurtúlka samkvæmt eigin samvisku) geta Islamophóbískir Íslendingar velt sér upp úr því að hann sé að „fegra Kóraninn“, rétt eins og það hafi aldrei hent kristling að fegra Biblíuna.

Að auki þykir viðeigandi að hengja mann sem er kominn þó þetta langt frá bókstafstrúnni, fyrir að nefna þá staðreynd að í ríkjum múslíma stjórna karlar fjármálunum og geta refsað konum sínum með því að neita þeim um peninga. Jafnvel þótt hann taki fram að það sé ekki í lagi, skal samt hamast á honum fyrir það.

Ég held að Íslendingar ættu að sjá sóma sinn í að fagna því þegar múslímar taka fúslega upp vestræn viðhorf í stað þess að grípa hvert einasta tækifæri sem gefst til að tortryggja þá. Þessi fjandskapur er nefnilega öruggasta leiðin til að hindra það að fólk með ólíkan menningarbakgrunn tileinki sér nýjan hugsunarhátt.

Mynd: Pixabay

Share to Facebook

1 thought on “Af kvenhatri Salmanns Tamimi

 1. ———————————-

  Ég þekki ekki samhengið sem þessi pistill er sprottinn úr en ég er samt sammála því að það ber auðvitað að virða það þegar menn viðra hugmyndir hófsamar hugmyndir, þótt þeir séu trúaðir. Hófsamir múslimar eru ekkert sérstaklega ólíkir hófsömum kristnum. Báðir hópar boða umburðarlyndi og náungakærleik og á sama tíma algert gagnrýnisleysi á eigin trúarbrögð. Á sama hátt er lítill munur á öfgakristnum og öfgamúslimum.

  Það þykir ekki málefnalegt að saka hófsaman, kristinn einstakling um að vera víst öfgafullur hómófóbískur kvenhatari út af einhverju sem stendur í biblíunni, og út af því að þannig kristnir eru víst til í heiminum. Það ætti því ekki að teljast málefnalegt að gera slíkt hið sama þegar um múslima er að ræða.

  Posted by: Hildur E | 12.09.2011 | 16:57:33

  ———————————-

  Í kristnum fræðum stendur nú líka ýmislegt sem menn taka blessunarlega ekki bókstaflega, eins og þú veist vel, Eva. Auga fyrir auga og tönn fyrir tönn boðskapur Gamla testamentisins er nú ekki sérlega kærleiksríkur boðskapur (en mætti vissulega greina þar jafnréttishugsun með réttu hugarfari). Ég er sammála Hildi E. að það er lítill munur á öfgakristnum og öfgamúslimum og líklega myndi þriðju gráðu yfirheyrsla yfir velkristnum manni um hvað stendur um eiginkonur og börn í GT vera nokkuð á sama veg. Mér þykir Salman sleppa nokkuð vel frá þriðju gráðu yfirheyrslu Þóru 😉

  Posted by: Harpa Hreinsdóttir | 12.09.2011 | 23:32:06

  ———————————-

  Eva,hvernig getur þú sagt að Salman sé ekki bókstafstrúarmaður gerir þú þér grein fyrir því að þú ert jafnvel að móðga hann með svona slangri, í þættinum Harmageddon hvaðst hann einmitt vera bókstafstrúarmaður, hann er Imam hér og á að vera fyrirmynd fyrir þann hóp sem hann leiðir, það er hér annar hópur sem búinn er að fá hálærðan mann í Islömskum fræðum, nærðu samhenginu ef ég segi tveir menn ein MOSKA ,

  Posted by: Guðrún Skúladóttir | 13.09.2011 | 2:14:15

  ———————————-

  Það væri þá ekki í fyrsta sinn sem ég móðga trúmann Guðrún, það er allt í lagi, þeir hafa tilhneigingu til að lifa sannleikann af.

  Þú þarft að túlka Kórninn býsna frjálslega til að sjá jafnrétti kynjanna í honum. Vitnisburður tveggja kvenna fyrir dómi er á við vitnisburð eins karls, (í okkar samfélagi hefur löggan þessa stöðu karlmannsins) konur eru í meirihluta þeirra sem gista Helvíti af því að þær eru svo vanþákklátar eiginmönnum sínum og orðljótar, körlum er beinlínis sagt að eef konan hlýði ekki eigi hann fyrst að neita að sofa hjá henni og svo berja hana. Það er engin þýðingarvilla, það er talað um að hann eigi að hýða hana með trjágrein.

  Ef Salman Tamimi trúir því að karlar hafi enga heimild til að refsa konum sínum, eins og hann segir, þá er hann ekki bókstafstrúarmaður. Ekki frekar en sá sem segist trúa hverju orði í Biblíunni en myndi nú samt ekki draga son sinn að borgarhliðunum til að láta grýta hann fyrir að rífa kjaft. Nú er það dæmi og einnig dæmið sem Harpa nefnir úr gamla testamentinu en við getum líka tekið mörg dæmi úr nýja testamentinu sem flestir kristnir menn hafna, þótt þeir segist vera kristnir. Mig minnir að það hafi verið Geir Waage sem útskýrði andúð kristindómsins á „karlhórum“ (þ.e. samkynhneigðum) þannig að þarna væri átt við barnaníðinga. Það er út í hött, jafn mikið út í hött og sú fullyrðing Salmans að Kóraninn boði jafnrétti kynjanna en Salman og Geir eru að gera nákvæmlega sama hlutinn; laga trúarbrögðin að því sem æðra er og fegurra, þ.e. samvisku sinni.

  Posted by: Eva | 13.09.2011 | 8:08:00

  ———————————-

  Nei, ég næ ekki samhenginu ef þú segir tveir menn, ein moska. Það eru miklu fleiri en tveir muslimir á Íslandi þannig að þar er ekki um tvo menn að ræða. En þú getur kannski skýrt þetta samhengi nánar?

  Posted by: Eva | 13.09.2011 | 8:10:32

  ———————————-

  „tveir menn, ein moska.“ Tveir hópar, ein moska er það sem meint er.

  al-Tamimi ættbálkurinn og al-Askari ættbálkurinn.

  Posted by: Rétthugsun | 13.09.2011 | 11:38:59

  ———————————-

  Tveir hópar, ein moska og hvað?

  Posted by: Eva | 13.09.2011 | 12:02:22

  ———————————-

  Síðan fer þetta í ættbálkardeilur. Enda eru þeir hvort sem er komnir í hár saman. Eru byrjaðir að ásaka hvor annan um villu-og öfgatrú. Þeir geta ekki sameinast um einn Allah.

  Posted by: Rétthugsun | 13.09.2011 | 13:09:39

  ———————————-

  Þeir eru þá í rétta landinug því þetta hljómar bara alveg eins og ættbálkapólitíkin á Íslandi. Eitt alþingi, margir flokkar sem ásaka hver annan um öfgar og landráð. Þjóðkirkja þar sem flokkadrættirnir krauma undir niðri og koma reglulega upp á yfirborðið. Háskólasamfélag sem fer ekki varhluta af klíkuskap og spillingu. Fínt að fá þessa tvo i hópinn maður. Eða allavega viðeigandi.

  Posted by: Eva | 13.09.2011 | 13:42:02

  ———————————-

  Veit einhver hvernær rétthugsun varð íslenska?Afhverju getur þú ekki verið sértækari í nafnavali fyrst þú vilt uppnefna þig sjálfur.

  Hvað þýðir rétthugsun, ertu ekki bara bull í gegn?

  Posted by: Sverrir Agnarsson | 13.09.2011 | 23:53:41

Lokað er á athugasemdir.