Ætlar Elfa Ýr Gylfadóttir að ritskoða gagnrýni á Evrópusambandið?

Í framhaldi af umfjöllun um takmarkanir á tjáningarfrelsi í Evrópu

Í því flóði misskilnings, áróðurs og vafasamra upplýsinga sem alltaf fylgja krísum er þörf á áreiðanlegum fjölmiðlum. Eitthvað virðast íslensk yfirvöld efast um getu eða vilja fjölmiðla til þess að miðla réttum upplýsingum sem varða kórónufaraldurinn, því nú á, í nafni þjóðaröryggis, að koma á koppinn vinnuhópi sem á að „… kortleggja birtingarmyndir og umfang upplýsingaóreiðu í tengslum við COVID-19 hér á landi og gera tillögur um aðgerðir til þess að sporna gegn henni.“

Samsetning hópsins er nokkurrar athygli verð. Maður hefði kannski búist við að slík nefnd yrði skipuð blaðamönnum og fulltrúum vísindasamfélagsins og heilbrigðisgeirans en ég sé ekki í hendi mér hvernig samsetningin er hugsuð. Ég býst ekki við að það sé meðvituð ákvörðun að hafa í hópnum fulltrúa Morgunblaðsins, blaðamann sem er svo rótgróinn á Mogganum að hún yrði sennilega skilgreind sem naglfast fylgifé ef blaðið yrði selt. Ég býst heldur ekki við að hugmyndin hafi beinlínis verið sú að Vinstri græn ættu pólitískan fulltrúa í vinnuhópnum, þótt einn nefndarmanna sé starfsmaður flokksins. En þetta er nú samt útkoman.

Hvernig skilgreinir vinnuhópurinn falsfréttir?

Þegar ég heyri orðið „falsfréttir“ detta mér helst í hug staðhæfingar sem eru óumdeilanlega rangar. Allskyns snákaolíufréttir hafa flætt yfir og það er full ástæða til þess að heilbrigðisyfirvöld vari fólk við ráðum eins og klórdrykkju og bendi á fullyrðingar sem eru til þess fallnar að veita falskt öryggi eins og þær að tilteknar fæðutegundir verji mann gegn smiti. Mér þætti fengur að upplýsingasíðu í anda Snopes, til þess að fletta ofan af slíku bulli og mér þætti í góðu lagi að ríkið legði til fé til þess að halda slíkum upplýsingavef úti, á meðan þessi ósköp dynja yfir. En hér virðist eitthvað annað og alvarlegra vera í bígerð.

Elfa Ýr Gylfadóttir, framkvæmdastjóri fjölmiðlanefndar, á sæti í vinnuhópnum. Eitt af því sem Ríkisútvarpið hefur eftir henni um þann fréttaflutning sem nú á að leiðrétta er þetta:

Í öðru lagi eru dæmigerðar falsfréttir sem hafi það að markmiði að sá fræum [svo] efans og ýta undir tortryggni bæði gagnvart stjórnvöldum einstakra ríkja,  gagnvart heilbrigðisyfirvöldum og til að grafa undan Evrópusambandinu með fullyrðingum um að samvinna Evrópuríkja sé ekki að virka, þau standi ekki saman.

Bíddu aðeins! Ætlar ríkisvaldið að fara að sporna gegn því að fluttar séu fréttir sem geta vakið vantraust á stjórnvöldum og Evrópusambandinu?

Og til þess að skýra nánar hvað um ræðir er orðrétt haft eftir henni í sömu frétt:

Það er búið að gera mikið úr fréttum um að bæði kínversk og rússnesk stjórnvöld hafi komið og aðstoðað t.d. ítölsk heilbrigðisyfirvöld með bæði lækningatækjum og heilbrigðistarfsfólk o.s.frv. en á sama tíma er ekki jafni sýnilegt á samfélagsmiðlum og í fréttum að það eru mörg hundruð bæði frakkar og ítalir sem að liggja inn á þýskum sjúkrahúsum. Og það er verið að deila búnaði og lækningatækjum til þeirra landa þar sem staðan er verst. Þannig að þetta er þema að vera að sá þessari tortryggni að Evrópa standi ekki saman í þessu.

Fréttir af skorti á samstöðu Evrópuríkja voru nú ekki meira fals en svo að Evrópusambandið hefur beðið Ítali innilegrar afsökunar á seinum viðbrögðum. Það er líka staðreynd að Rússland og Kína hafa komið öðrum ríkjum til hjálpar. Íslendingar hafa t.d. fengið lækningabúnað frá Kína.

Á upplýsingafundi þann 11. apríl sl. lýsti Landlæknir yfir áhyggjum af flutningi falsfrétta. Hún lét í ljósi ánægju sína með íslenska fjölmiðla en dylgjaði jafnframt um einhverja ótilgreinda miðla með því að ráðleggja almenningi að „leita til fjölmiðla sem þegar hafa sýnt í verki að þeir eru traustsins verðir“.

Ekki sagði Landlæknir orð um það hvaða miðlar það væru sem hefðu sannað trúverðugleika sinn en það verður kannski eitt af verkefnum vinnuhópsins að greina hafrana frá sauðunum?

Share to Facebook