Að útrýma fátækt

Það er dálítið klaufalega að orði komist hjá forystumönnum flokksins míns þegar þeir segjast vilja útrýma fátækt á Íslandi. Allavega ættu menn að gera grein fyrir því hvað þeir eiga við með orðinu fátækt áður en þeir taka til við að útrýma fyrirbærinu. Fátækt er nefnilega eitt þeirra orða sem hafa enga merkingu nema í félagslegu samhengi. Bentu á fátækan Íslending og spurðu stéttlausan Indverja hvort hann sé fátækur. Sennilega yrði svarið nei. Samt sem áður þjáist þessi sami Íslendingur fyrir fátækt sína, eða kannski öllu heldur fyrir óréttlætið sem fylgir því að vera lágtekjumaður í samfélagi ríkra.

Örbirgð, í þeirri merkingu að skorta lífsviðurværi, heilsugæslu og skjól gegn veðri og vindum er upprætanleg og ætti ekki að viðgangast. Það er vel hægt að tryggja öllum jarðarbúum hreint vatn og næringu. Það væri líka hægðarleikur að bjóða öllum börnum veraldar upp á grunnmenntun án þess að nokkur líði skort ef einhver áhugi væri fyrir því. Það getur vel verið að við lendum fyrr eða síðar í vanda með að skilgreina örbirgð en það ættu allir að geta verið sammála um að hungurdauði og hörgulsjúkdómar séu nokkuð greinilegt merki um óviðunandi lífsskilyrði.

Það er aðeins umdeilanlegra hvernig eigi að skilgreina fátækt í íslensku nútímasamfélagi. Hér þjást fáir af hungri. Líklega er meirihluti Íslendinga forríkir öreigar, þ.e. fólk sem á í raun meiri skuldir en eignir en lifir hátt með því að velta bagganum á undan sér. Hinsvegar eru margir sem líða fyrir það að vera utangarðs vegna fjárhagsstöðu sinnar, jafnvel þótt þeir fái nóg að borða. Sennilega er sársaukafyllra að vera eina barnið í skólanum sem fær ekki að fara með í skíðaferðina í samfélagi þar sem flestir eru mjög ríkir, en að lifa á oblátum og baunum í samfélagi þar sem allir vinir þínir búa við sömu kjör og það er bara engin skíðaferð í boði.

Það sem ógnar íslenskum fátæklingum mest eru ekki þeirra eigin kjör, heldur vaxandi misskipting. Eftir því sem bilið breikkar verður til stærri stétt fólks sem upplifir sig sem fátæklinga. Þeir sem líta á sig sem fátæklinga koma sér ómeðvitað upp fátæklingakvillum sem auka á vanda þeirra. Fátækt í nútíma samfélagi hefur í för með sér gremju, öfundsýki, skuldasöfnun, óholla lifnaðarhætti, litla sjáfsvirðingu, fíknsjúkdóma og önnur geðræn vandamál og allt eykur þetta á óhamingjuna og kvíðann. Fátækt er vítahringur.

Það er útilokað að útrýma fátækt. Það er hinsvegar ekki útilokað að draga úr misskiptingu auðs. Til eru einfaldar og skilvirkar leiðir til að hægja á vexti ormsins á gullinu. Við gætum t.d. hætt þessu stórhættulega prósentubulli og samið þess í stað um krónutöluhækkun á laun. Ef 10.000 króna hækkun dugar þeim sem hefur tekjur upp á 100.000 á mánuði, þá dugar hún líka þeim sem er með milljón. Við getum líka hækkað skatta á fjármagnstekjur og lækkað tekjuskatt þeirra sem vinna fyrir laununum sínum.

 

Share to Facebook

One thought on “Að útrýma fátækt

  1. —————————-

    Mér finnst þessi umræða um fátækt fara dáldið út og suður. Ég held að byrjunarreiturinn sé eitt sem Stefán Ólafsson nefndi eitt sinn í umræðunni en það er hvort að félagsleg aðstoð sé fátækrahjálp eða borgarleg réttindi. Erum við ennþá með „sveitaómaga“ hugsunarháttinn eða teljum við að öllum beri lífvænleg lífskjör óháð öllu öðru. Það fyrra beinir okkur í tekjutengingar á öllum mögulegum hlutum meðan það seinna afnemur allar tekjutengingar t.d þannig að fólk með milljón á mánuði fengi alla tannlæknisþjónustu niðurgreidda alveg eins þeir sem eru með 100 þús. á mánuði. Hvor ætti það að vera?

    Posted by: GVV | 11.04.2007 | 21:15:43

    —————————————————-

    geturðu ekki stofnað stjórnmálaflokk, Nornaflokkinn?

    þú getur reitt þig á mitt atkvæði.

    Posted by: Halli | 11.04.2007 | 22:26:08

    —————————————————-

    Að sjálfsögðu eiga það að vera borgaraleg réttindi að fá aðstoð þegar maður þarf á henni að halda. Það er ekkert lítilmótlegt að þurfa á aðstoð að halda. Það er hinsvegar lítilmótlegt að biðja um aðstoð sem maður þarf ekki.

    Posted by: Eva | 12.04.2007 | 7:03:46

    —————————————————-

    þessar prósentuhækkanir eru náttúrlega svo mikið rugl, ég næ ekki hvers vegna þær eru alltaf inni.

    Geta bara ómögulega gert annað en auka launamuninn, svo langt sem ég sé.

    Posted by: hildigunnur | 12.04.2007 | 11:36:04

Lokað er á athugasemdir.