Langar að hætta

Ég hef enga ánægju af þessu námi lengur. Ég byrjaði brennandi af áhuga en nú er ég komin með kvíðaeinkenni. Grátköst, svefnröskun og ég er farin að kasta upp aftur en það hefur ekki verið vandamál í fjögur ár. Mig langar að hætta.

Það er ekki það að þetta sé ekki áhugavert. Mér finnst öll réttarsvið sem ég er búin að fá einhverja nasasjón af virkilega spennandi og mér finnst mjög gaman að lesa dóma. En námsmatið krefst þess að maður kunni allt námsefni og alla dómana utanbókar. Um leið og ég er um það bil að ná tökum á einhverju moka þau í okkur 60 dómum í viðbót sem við þurfum að kunna utan að til eiga möguleika á að ná prófi.

Það er engin leið að komast yfir þetta allt nema á hundavaði en það er ekkert annað í boði.

Ég átta mig ekki alveg á því hvort markmiðið með því að láta okkur læra dómasafnið utan að er einhverskonar herþjálfun, að hrekja burt hvern þann sem gengur ekki slefandi af lotningu inn í þennan fílabeinsturn, eða hvort ALLIR kennarar Lagadeildar eru svo illa hugsandi að halda að þetta skili einhverjum árangri. Jújú, sjálfsagt skilar þetta árangri fyrir þá sem eru með greindarvísitölu á hæð við Effelturninn en þeir myndu líka fá 9,5 fyrir öll verkefni og það myndi áreiðanlega gagnast þeim betur. Fyrir þá sem lesa 60 tíma á viku fyrir skitna sjöu, væri tímanum betur varið til annars en utanbókarlærdóms.

Og auðvitað vita það allir, en tilgangur þessarar deildar er ekki sá að útskrifa góða lögfræðinga.

 

 

Deila færslunni

Share to Facebook