Enn að hugsa um Ingó

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Ég held að þetta sé eina myndin sem er til af okkur Ingó saman.
Hulla systir tók hana í stúdíóinu þegar við vorum að vinna að bókinni.

 

Ég syrgi Ingó. Ég tek dauðanum yfirleitt vel en í þetta sinn líður mér verr en ég átti von á.

Ingó reiddist ekki oft en einu sinni varð hann samt þokkalega brjálaður. Og hafði góða ástæðu til. Vissi samt ekki hvað hann ætti að gera við alla þessa reiði svo hann spurði mig. Og ég sem hef mikla reynslu af því að vera reið og gera eitthvað í því gat að sjálfsögðu gefið honum góð ráð. Það var hvorki í fyrsta né síðasta sinn. Ingó spurði mig oft ráða og dáðist að ráðsnilld minni en aldrei nokkurntíma fór hann nú samt eftir þeim ráðum sem ég gaf honum.

„Í þessu tilviki er ekki skynsamlegt að verða brjálaður“ sagði ég. „Reiðiviðbrögð virka bara á fólk sem hefur samvisku. Þegar þú æsir þig við fólk sem kann ekki að skammast sín þá sér það ekki sína eigin skömm heldur bara æsinginn í þér. Sýndu þeim frekar fyrirlitningu. Ískalda fyrirlitningu.“

En Ingó gat ekki fyrirlitið neinn. Af því að hann trúði því aldrei í alvöru að fólk gæti verið beinlínis slæmt. Kjagandi mongólítar sagði hann kannski, en hann trúði ekki á varmenni. Hann hafði líka vit á að nota ekki orðin kjagandi mongólíti í návist þeirra sem hefðu farið á límingunum við að heyra það orðalag. Hann ögraði engum beinlínis sjálfur þótt honum þætti skemmtilegt að hjálpa öðrum til að ögra.

Deila færslunni

Share to Facebook