Afríkukjóllinn

Það vill svo heppilega til að við Eynar erum venjulega sammála um það sem skiptir máli. T.d. það að ég geti aldrei átt of marga kjóla. Blessunarlega höfum við líka nokkuð svipaðan smekk hvað varðar klæðaburð en mitt róf er þó öllu breiðara en Eynars. Þótt ég gæti ekki hugsað mér að ganga í topp með einu mynstri, pilsi með öðru og hafa það þriðja á hausnum, allt með sitthvorum grunnlitnum finnst mér gaman að horfa á litadýrðina á götunum Kampala. Sterkir litir fara svo vel við svart hörund og þótt maður sjái ekki margt fólk í fatnaði með afrískum sniðum, er lita- og mynsturgleði áberandi.  Allar túristabúðir eru fullar af mynstruðum efnisströngum í skærum litum og þótt ég beri ekki svona marga liti sjálf finnst mér dálítil synd hversu hátt hlutfall Úganda klæðist vestrænum fatnaði.

Eynar er í aðra röndina minimalisti, vill hafa allt voða einfalt en það á samt að vera dálítið óreglulegt líka. Eynar er ekki hrifinn af skræpóttum fötum, grófum, litríkum mynstrum eða símynstruðum flíkum. Það kom mér því nokkuð á óvart þegar kom í ljós að Eynar taldi sig helst eiga það erindi í bæinn að „kaupa fallegan afrískan kjól handa Evu“. Við Langsokkur horfðumst í augu, bæði dálítið skrýtin á svipinn og eftir langa þögn sagði ég það sem við vorum bæði að hugsa;
„Já en Eynar minn, þér þykja afrískir kjólar alls ekki fallegir.“

Eynar uppástóð að það væri víst til fallegur afrískur kjóll og lýsti honum af nokkurri nákæmni. Hann væri gulur með svörtu eða dökkbrúnu mynstri sem væri samt fallegt, „svona einhvernveginn óreglulegt“. Ég benti Eynari á að gult færi mér alls ekki vel en þótt hann hafi aldrei séð mig í gulu hélt hann fast við að það hlyti að vera einhver misskilningur. Svo heldur hann því fram að blátt fari mér ekki vel en það er hin mesta þvæla. Nú gott og vel, Langsokkur taldi ekki eftir sér að fara með okkur bæði í túristabúðir og á saumastofur.

Eins og mér finnst gaman að ganga í sætum kjólum þá heilluðu skartgripirnir mig satt að segja mun meira en þeir afrísku kjólar sem við skoðuðum. Ég geng sjaldan með skartgripi en það er ekki af því að ég sé ekki hrifin af þeim heldur vegna þess að ég tíni þeim. Ég hef þann leiða ávana að taka skartgripi af mér á undarlegustu stöðum, leggja þá einhversstaðar frá mér og gleyma þeim. Þessvegna á ég ekki mikið af skarti og tími ég ekki að ganga með það sem ég á. Staðan breytist hinsvegar ef maður getur keypt flott glingur á 500 kall og þannig er verðlagið hér. Flottar hálsfestar og eyrnalokkar úr tré, kókoshnetuskel, pappaperlum eða beini á verði sem svarar á bilinu 150-2000 kr íslenskum.

MYND VANTAR

Ég missti nánast stjórn á mér og þótt Eynar segist ekki hrifinn af öllu þessu kraðaki af ólíkum samsetningum, var hann nú samt óskaplega hrifinn af þessari festi sem er úr kókoshnetu og tréperlum.

MYND VANTAR

il_570xN.672986938_1bo3

Þessar perlur eru úr endurunnum tímaritum.

 

 

MYND VANTAR

 

Þetta men fannst Einari „of flókið“ en í hvers sinn sem ég notaði það fann hann nú samt hjá sér þörf til að ræða fegurð mína, með stjörnur í augum.

Eftir mikla leit að fallegum afrískum kjól, sannfærðumst við Langsokkur bæði um að sá kjóll væri hvergi til nema í hugarheimi Eynars Steingrímssonar. Fórum samt inn á afríska saumastofu og viti menn, við Eynar sáum bæði sama kjólinn, sem reyndar er eins vestrænn og hugsast getur. Hann var náttúrulega sniðinn á megaskvísu svo það þurfi aðeins að breyta honum, þrengja yfir brjóst og víkka í mittið. Það tók ekki langa stund, við bara fórum á kaffihús á meðan.

 

MYND VANTAR

Þessi kjóll var þrisvar sinnum dýrari en kjólarnir í túristabúðunum en ætli séu nokkrar líkur á að maður fengi klæðskerasaumaðan kjól fyrir 4300 kall á Íslandi? Auk þess er góð tilfinning að fá flottan kjól og styðja heimaiðnað í leiðinni.

Þegar ég kom til að sækja kjólinn 20 mínútum síðar var kona að strauja hann. Hún var með gamaldags straujárn og úðabrúsa. Það var ekki til neinn gufustraubolti á saumastofunni.

Deila færslunni

Share to Facebook