Darrinn minn

Vorveður í Glasgow, eins og í maí á Íslandi. Lífið fullkomið, væri samt til í að hitta strákana mína. Darrinn minn er 23ja ára í dag. Pysjan mín. Hann litli minn.

Um þetta leyti kvölds fyrir 23 árum var hann rétt kominn í heiminn og horfði tortryggnislega á mig. Svo lítill að ég klæddi hann í dúkkuföt fyrstu vikurnar en samt þurfti hann ekki einu sinni hitakassa. Hann er tortrygginn enn.

Darri hefur aldrei látið plata sig. Hann var dálítið óvær á tímabili og ég reyndi að koma honum upp á snuð. Hann brást reiður við þar til ég setti hunang á það. Þá steinþagnaði hann og horfði hugsandi upp í loftið í hálfa mínútu. Þá hefur bragðið væntanlega verið búið því hann spýtti snuðinu út úr sér með fyrirlitningu. Og þannig var það alltaf. Hann hafði innbyggðan kexradar frá 18 mánaða aldri og samt var aldrei hægt að múta honum. Nema einu sinni þegar hann var 7 ára. Þá tókst mér að múta honum með ólívukrukku (ég gef ekki skrifað ólívur með effi, lensendur verða bara að lifa með því) til að hætta að naga neglurnar á sér. Hann var farinn að naga þær upp í kviku. Eftir að hann var búinn að taka ákvörðun um að hætta, sá ég hann aldrei stinga upp í sig fingri í ógáti. Hann fór heldur ekki fram á neina fyrirframgreiðslu úr ólívukrukkunni. Við höfðum samið um viku og það stóð.

Ég hélt að Darri ætlaði aldrei að læra að ganga. Það var ekkert að honum í fótunum. Hann gat prílað upp á borð og rifið smádót niður af veggjum. Og það gerði hann. En hann gekk ekki þótt hann væri orðinn 16 mánaða og ég væri að kikna undan því að bera hann. Ekki fyrr en einn daginn þegar við vorum að koma úr sundi. Hann sat á bekk á meðan ég var að hjálpa Hauki í fötin og allt í einu var hann staðinn upp, tók fyrsta skrefið og sprangaði af stað eftir bekknum, fullkomlega öruggur eins og hann væri alvanur að ganga á mjóum búningsklefabekk. Hart, flísagólf fyrir neðan og ég Jesúsaði mig og setti hann niður á gólf, vonaði að hann gengi en var tilbúin að grípa hann ef hann dytti aftur. Hann gaut augunum illilega á mig og klifraði þegar í stað upp á bekkinn aftur – og hló. Ég fékk á tilfinninguna að hann hefði kunnað að ganga lengi en leynt því gagngert til að skjóta mér skelk í bringu.

Darri var aldrei fyrirferðarmikill en hann var mjög snöggur og sjálfstæður og þoldi ekki að láta stjórna sér nema í því sem hann sjálfur vildi fá leiðbeiningar við. Einkum fór það í taugarnar á honum ef ferðir hans voru heftar. Eitt kvöldið þegar hann var fjögurra ára og alveg að festa svefninn eftir annasaman dag, hálfopnaði hann augun og sagði í ástúðlegum þreytutón; „þegar þú ert dáin, ætla ég að borða fullan bauk af rúsínum og fara aleinn yfir götu.“

Og þannig er Darri enn. Kemur manni stöðugt á óvart. Kann allt í einu eitthvað sem maður hafði ekki hugmynd um að hann hefði áhuga á. Hann segir ekki mikið en það sem hann segir kemur beint frá hjartanu. Og smýgur inn í hvert það hjarta sem fyrir því verður.

Deila færslunni

Share to Facebook