Það er áhugavert að dómari í fullu starfi skuli árum saman komast yfir aukavinnu sem krefst slíkrar yfirlegu að hún sé metin til forstjóralauna. Hann er dugnaðarforkur hann Davíð Þór Björgvinsson og áreiðanlega vel að sér, svo vonandi þurfum við ekki að óttast að öll þessi aukavinna hafi komið niður á aðalstarfinu hans sem dómara við Landsrétt.

Þurfa dómarar aukatekjur?

Það er áreiðanlega mjög sjaldgæft að dómarar hafi tugi milljóna í aukatekjur á þriggja ára tímabili en það er mjög algengt að dómarar sinni aukastörfum. Þeir taka sæti í gerðardómum, sitja í allskonar nefndum, veita fyrirtækjum og stjórnvöldum ráðgjöf og annast uppfræðslu laganema (sem er reyndar skandall út af fyrir sig).

Af hverju þurfa dómarar að vinna svona mikla aukavinnu? Þeir eru með launahæsta fólki landsins, vinna oft töluverða yfirvinnu, hafa góðar tryggingar og engin stétt býr við meira starfsöryggi. Þeir eru æviráðnir og nánast ósnertanlegir, ekki hægt að losna við þá úr starfi nema þeir verði gjaldþrota, fái fangelsisdóm eða verði af heilsufarsástæðum ófærir um að sinna starfinu. Og það gerist ekkert þannig að ráðherra segi dómara bara að taka pokann sinn – ef hann segir ekki af sér sjálfur þá þarf dómsmál til að leysa hann frá störfum.

Völd dómara

Ég er ekki að setja út á laun og starfsöryggi dómara. Dómarar bera mikla ábyrgð og þurfa oft að taka ákvarðanir sem falla ekki í kramið hjá valdamiklu fólki. Dóma á að kveða upp án utanaðkomandi áhrifa. Dómari á eingöngu að styðjast við gildar réttarheimildir og sína eigin samvisku. Það væri ekki hægt að ætlast til þess af fólki sem á afkomu sína undir öðrum.

En dómarar hafa að sama skapi gífurleg völd. Þeir ráða oft útslitum um örlög fólks og fyrirtækja og geta haft veruleg áhrif á það hvernig stjórnvöld og stofnanir vinna. Og þótt dómstólar hafi ekki lagasetningarvald í sama skilningi og Alþingi, þá eru það þeir sem túlka stjórnarskrána og setja þar með löggjafanum skorður. Auk þess ræðst gildandi réttur í landinu að verulegu leyti af því hvernig dómstólar túlka lög og beita þeim. Það eru t.d. dómarar sem ráða því hversu alvarlegt brot þarf til þess að refsirammi sé fullnýttur. Það eru oft dómarar sem á endanum leggja mat á það hversu háar slysabætur fólk fær. Það eru þeir sem skera úr um hvort birta má fjölmiðlaumfjöllun sem kemur illa við fyrirtæki. Allir úrskurðir dómara skipta máli fyrir þá sem eiga í hlut hverju sinni en auk þess verða úrlausnir þeirra að fordæmum, einkum á æðri dómstigum, og hafa þannig áhrif mörgum árum síðar.

Ábyrgð dómara

Allt eru þetta verkefni sem krefjast vandvirkni. Sum þeirra útheimta líka gífurlegra vinnu. Það er ekki alltaf svo gott að dómari fái til meðferðar einfalt umferðarlagabrot þar sem sönnunargögn eru ótvíræð og vinnan felst ekki bara í því að hlusta á röflið í lögmönnum og dæma svo eftir því hver er mest sannfærandi. Eða það á allavega ekki að vera þannig.

Dómari þarf venjulega að lesa meira en málflutningsræður til að geta tekið upplýsta afstöðu. Málskjöl hlaupa oft á þúsundum blaðsíðna og í stórum og flóknum málum geta margar hillufyllir af möppum legið að baki málsókn. Og þótt dómarinn „kunni lögin“ þá getur hann þurft að afla sér þekkingar á öðrum sviðum til þess að skilja málið til fulls. Hann getur líka þurft að lesa sér til um ný lög og nýja þjóðréttarsamninga og kynna sér dómaframkvæmd alþjóðlegra dómstóla og annarra ríkja.

Fá dómarar lengri sólarhring en aðrir?

Hvernig í fjáranum hefur fólk sem er í fullri vinnu, sem oft krefst mikillar yfirlegu, tíma til þess að vera í aukavinnu úti um allar trissur? Ein af ástæðunum fyrir því að stofnun Landsréttar þótti nauðsynleg var einmitt sú að það var of mikið álag á Hæstarétti. Fram kom að hæstaréttardómarar væru að dæma 300 mál árlega. Hver og einn. Og við skulum athuga að jafnframt voru þeir að sinna allskyns aukavinnu. Það eru nú meiri ofurmennin sem komast yfir annað eins. Skyldi nokkur þeirra sem lutu endanlegum dómi Hæstaréttar árið 2015 þurfa að hafa áhyggur af því að dómararnir hafi ekki verið búnir að lúslesa allt sem máli skipti og ræða við samvisku sína í rólegheitum áður en örlög hans voru ákveðin?

Eitthvað á þetta nú að hafa lagast með tilkomu Landsréttar. En skyldi nokkur þeirra sem hefur átt örlög sín undir Davíð Þór Björgvinssyni á undanförunum árum velta því fyrir sér nú, hvort Davíð og aðrir dómarar sem úthlutuðu réttlætinu hafi áreiðanlega verið úthvíldir og í góðu jafnvægi þegar þeir lögðust yfir málsgögnin?

Myndin er skjáskot af vef RÚV