Þann 29. október 2016 voru Alþingiskosningar haldnar á Íslandi. Á meðan landsmenn stóðu í kjörklefunum ákvað Kjararáð að hækka laun alþingismanna um næstum 45%. Þetta var þriðja launahækkunin sem þessi hópur fékk á 12 mánaða tímabili. Ráðherrar voru ekki skildir útundan og urðu heildarlaun þeirra um 2 milljónir á mánuði eftir hækkunina.

Svo háar „leiðréttingar“ eru fáheyrðar og mæltust illa fyrir hjá stéttum sem þurfa að semja um kaup sitt og kjör. Láglaunafólk, öryrkjar og ellilífeyrisþegar fundu takmarkaða gleði í þeirri tilhugsun að það kæmi þeim sem þeir höfðu kosið til forystu vel að fá 338.254 kr. launahækkun (ráðherrar fengu reyndar meira). Skorað var á Alþingismenn að afþakka hækkunina og sumir þeirra voru sjálfir stórhneykslaðir á þessari hækkun en þeir sem við höfðum treyst fyrir fjármálum ríkisins, löggjafarvaldi þess og yfirstjórn framkvæmdarvalds í landinu, reyndust ekki hafa valdheimildir til að afþakka launahækkun. Þeir sátu bara uppi með þessa hækkun, varnarlausir með öllu.

„Leiðréttingar“ en ekki hækkanir

Þegar pöpullinn krefst kjarabóta rís alltaf upp hópur vísdómsmanna sem telur auknar launakröfur hið mesta óráð. Launahækkanir muni bara hafa dóminóáhrif á aðrar stéttir og lækka kaupmátt á endanum. Lausnin mun vera sú að halda launahækkunum í skefjum. Þannig á fólk á einhvern dularfullan hátt að hafa það betra. En nú bar nýrra við og þeir hinir sömu réttlættu þessar hækkanir með því hér væri ekki um raunverulega launahækkun að ræða, heldur aðeins leiðréttingu. Lendingin varð ekki sú að þingmenn afþökkuðu hækkunina.

Það var heldur ekki gripið til ráðstafana til að koma í veg fyrir að hneykslið endurtæki sig. Þegar ákveðið var að leggja Kjararáð niður í árslok 2018 töldu einhverjir að þar með yrði tekið fyrir þessa tegund spillingar. Auðvitað var það ekki markmiðið heldur var gengið svo frá að þingmönnum, ráðherrum, dómurum og forseta, er tryggður sami kaupmáttur og forsendur Kjararáðs miðuðu við. Það hefur sína kosti að hafa ekki verkfallsrétt – ef maður er á nógu helvíti góðum launum. Því hefur svo aldrei verið svarað hversvegna er mikilvægara að „leiðrétta“ kjör þessara hópa en skjólstæðinga Tryggingastofnunar, sem gætu ekki einu sinni beitt ólöglegu verkfalli til að knýja fram kjarabætur, hvað þá að verkfallsréttur myndi gagnast þeim.

Þegar neyðarástand skapast

Heimsfaraldur skekur nú stoðir efnahagslífsins og við eigum víst að vera „öll í þessu saman“. Allir þurfa að leggja sitt á vogarskálarnar. Láglaunafólkið í Eflingu stóð í verkföllum þegar ballið byrjaði en hliðraði að sjálfsögðu til. Heilbrigðisstarfsfólk sem er hætt störfum eða hefur horfið til annarra starfa er flest komið í vinnu eða bakvarðasveit ef það er vinnufært á annað borð.

Það hefur víst ekki farið fram hjá nokkrum manni að heilbrigðisstarfsfólk vinnur nú við óvenjulegt álag auk þess að vera í meiri smithættu í vinnunni en nokkur annar hópur. Það vakti skiljanlega reiði þegar hjúkrunarfræðingar lækkuðu í launum, einmitt við þær aðstæður. Sú lækkun var fyrirsjáanleg og hefði ríkið auðvitað geta bruðgðist við fyrr og bjargað andlitinu áður en hneykslið varð. Það hefði líka verið hægt að semja við hjúkrunarfræðinga ef vilji væri til þess. Það gleymist svo í umræðunni að fleiri stéttir heilbrigðisstarfsfólks hafa verið samningslausar mjög lengi, þ.á.m. fólk sem er á miklu lægri launum en hjúkrunarfræðingar.

Þótt ríkisvaldinu takist ómögulega að semja við fólkið sem gegnir lykilhlutverki í þeim hamförum sem nú ganga yfir er þó allavega einn hópur sem ekki þarf að standa í kjarabaráttu jafnframt því aukna álagi sem fylgir heimsfaraldri. Nú hafa þingmenn og ráðherrar enn eina ferðina fengið myndarlegar kjarabætur. Um 100.000 kr. á mánuði – afturvirkt. Sumir meira. Ég reikna með að þessi valdalausi hópur hafi enn ekki fengið valdheimildir til að afsala sér launahækkun. Af einhverjum ástæðum virðist forsetinn samt telja sig komast upp með að afþakka hækkanir.

Nú ríkir neyðarástand í landinu og reyndar í heiminum öllum. Algengt er að í neyðarástandi séu sett neyðarlög. Þeirri aðferð hefur Alþingi oft beitt gegn mikilvægum starfstéttum í kjarabaráttu. Nú legg ég til að Alþingi beiti setji neyðarlög og frysti allar launahækkanir til hálaunaðra ríkisstarfsmanna. Auk þess legg ég til að þegar fárinu lýkur verði öll laun ríkisstarfsmanna bundin við laun þingmanna og verkfallsréttur afnuminn. Þeir sem sinna grunnþjónustu eiga ekki að þurfa að standa í kjarabaráttu á meðan ráðamenn fá mun betri hækkanir, fyrirhafnarlaust.