Þegar ógn steðjar að samfélögum reiðir almenningur sig á leiðtoga.

Við stöndum frammi fyrir því núna að vegna krúnuveikinnar hefur frelsi okkar verið skert og það skynsamlegasta sem við getum gert er að sætta okkur við samkomubann og fyrirmæli um sóttkví á meðan ógnin er fyrir hendi. En gleymum því ekki að um leið og við gefum eftir hluta af frelsi okkar og réttindum er lýðræðinu líka hætta búin.

Þegar möguleikar almennings á því að mótmæla þrengjast og athyglin beinist að vágesti sem ógnar heimsmynd okkar og öryggi er auðvelt að koma í gegn lögum og stjórnvaldsaðgerðum sem annars myndu mæta mótspyrnu. Kórónufárið er kjörlendi fyrir fasísk öfl sem vilja hasla sér völl eða festa völd sín í sessi. Það er þessvegna sem við þurfum að vera gagnrýnin á gjörðir yfirvalda, ekki síst á tímum farsótta og annarra hamfara.

Það þýðir auðvitað ekki að þetta sé rétti tíminn fyrir útifundi á Austurvelli. En við skulum reikna með þeim möguleika að þegar það versta er um garð gengið þá verði full ástæða til að fjölmenna á mótmælasamkomur. Og gleymum því ekki að ef almenningur verður valdhöfum óhóflega þægur geta afleiðingarnar orðið þær að þjóðin glati lýðræði sínu. Þær hörmungar sem heimurinn stendur nú frammi fyrir hefur í för með sér hættu á því að margar þjóðir lendi í lýðræðiskrísu samtímis. Þessvegna þarf almenningur að vera vakandi og veita valdhöfum aðhald og eftirlit.

Það eru ekki nema 3 vikur síðan Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin
lýsti krúnuveikina heimsfaraldur. Um allan heim hafa stjórnvöld gripið til
neyðarráðstafana. Ráðstafana sem skerða frelsi borgaranna en eru nauðsynlegar og sanngjarnar miðað við aðstæður. En nú skulum við halda vöku okkar. Neyðarráðstöfunum er nefnilega ekki alltaf aflétt jafnskjótt og mögulegt er og þegar þrengt er að frelsi og mannréttindum er lýðræðið í hættu. Nú þegar má sjá blikur á lofti.

Blikur á lofti í Ungverjalandi

Í Evrópu hefur Ungverjaland riðið á vaðið með þá fyrirsjáanlegu stefnu að nýta kórónufárið til að þrengja að mannréttindum og lýðræði. Í vikunni veitti ungverska þingið forsetanum ótímabundnar heimildir til að gefa út tilskipanir án aðkomu þingsins.  Í reynd er þetta einræðisvald, vitanlega réttlætt sem neyðarráðstöfun um skamma hríð en þegar vegið er að stjórnarskrá er sjálfu réttarríkinu ógnað. Sem betur fer mælist ákvörðunin ekki vel fyrir hjá stofnunum Evrópusamstarfsins og áhrifafólk bæði í Evrópu og Bandaríkjunum hefur lýst þeirri afstöðu að ákvörðunin samræmist ekki lýðræðissjónarmiðum og alþjóðasáttmálum.

Og Ungverjaland heldur áfram. Nú í morgun birtust fréttir atlögum ungverskra stjórnvalda gagnvart fjölmiðlafrelsinu. Blaðamönnum hefur verið synjað um aðgang að upplýsingum og eitthvað hefur borið á hótunum. Blaðamenn óttast nú um frelsi sitt og ef eitthvað ógnar lýðræðinu eru það takmarkanir á fjölmiðlafrelsi. Tökum eftir því þegar fer að bera á ritskoðunartilburðum hjá öðrum ríkjum.

Hópar sem eru útsettir fyrir mannréttindabrotum

Þegar þrengt er að mannréttindum verða hópar sem voru í erfiðri stöðu fyrir sérstaklega illa úti.  Nú er veiran farin að dreifa sé í flóttamannabúðum í Grikklandi. Tökum eftir því hvernig fólk sem gistir yfirfullar flóttamannabúðir verður meðhöndlað í þessum þrengingum. Gleymum því ekki að stór hluti þeirra sem létu lífið í Helförinni dó úr taugaveiki, lokaðir inni í fangabúðum.

Tökum eftir því hvað verður um farandverkafólk og aðra sem hafa lágar og óstöðugar tekjur. Þessir hópar eiga sérstaklega á hættu að brotið verði gegn mannréttindum þeirra.

Í miðju kórónuárinu hefur ungverska þingið nú tekið sér tíma til að afnema réttindi transfólks til kynræns sjálfræðis.  Ætli sé nokkur hætta á því að í fleiri ríkjum séu valdamenn með óra af þessu tagi? Jú, viti menn; í Idaho fylki í Bandaríkjunum er búið að banna þátttöku transstúlkna í stúlknaíþróttum og nú getur íþróttafólk sem grunað er um að vera transstúlkur eða intersex (fætt með líkamseinkenni sem skera ekki úr um líffræðilegt kyn) reiknað með að þurfa að gangast undir kynfæraskoðun.

Enn einn útsettur hópur er fangar. Aðeins tveimur vikum eftir að veiran fór á flug í Bretlandi voru fangelsisyfirvöld ríkisins farin að setja fanga sem eru með einkenni sem ríma við krúnusýkingu en hafa ekki verið skimaðir í klefa með föngum með staðfest smit.

Þeir sem standa vörð um mannréttindi og lýðræði verða svo sérstakt skotmark í öllum krísum. Áður var minnst á hótanir gegn blaðamönnum í Ungverjalandi. Í Tyrklandi er verið að sleppa föngum lausum vegna ástandsins en samviskufangar, svo sem blaðamenn og aðgerðasinnar sem berjast fyrir mannréttindum, eru ekki meðal þeirra sem kemur til greina að sleppa. Í Tyrkneskum fangelsum er pólitískum föngum nú ógnað með kórónusmiti í agaskyni.

Verum vakandi fyrir bráðabirgðaráðstöfunum

Það væri of langt mál að gera hér grein fyrir öllum varúðarljósum sem kviknað hafa síðasta mánuðinn en ég bendi þó á nauðsyn þess að vera á verði þegar við sjáum varúðarráðstafanir sem eðlilegt er að gildi til bráðabirgða. Til dæmis þegar viðburðum sem skipta máli fyrir lýðræðið er frestað til þess að draga úr smithættu. Nú hefur forsetakosningum hefur verið frestað íBólivíu og í Chile ræða menn um að fresta þjóðaratkvæðagreiðslu um nýja stjórnarskrá.

Tökum líka eftir því tilburðum valdamanna til að tryggja sér forréttindi, því spilling þrífst því betur sem ástand lýðræðis og mannréttinda er lakara. Í Ísrael átti Netanyahu að svara fyrir spillingarmál fyrir dómi þann 17. maí en réttarhöldum hefur verið frestað til 24. maí.

Bráðabirgðaðgerðir af þessu tagi eru eðlilegar í þessum aðstæðum en fylgjumst vel með því hvað gerist þegar það versta er gengið yfir, því neyðarráðstafanir eiga það til að dragast á langinn. Í Tyrklandi voru t.d. í gildi „neyðarlög“ í 15 ár samfleytt; lög sem gáfu stjórnvöldum ríkar heimildir til húsleita og frelsissviptinga án dómsúrskurðar. Og þau voru nýtt til hins ýtrasta.

Þegar verndarinn er siðblindur

Ímyndaðu þér að þú vaknir með óargardýr við útidyrnar. Í næsta húsi býr stórhættulegur sýkópati en nú bankar hann upp á bakdyramegin með riffil og býðst til að verja þig. Ætlarðu að byrja á því að afvopna hann og reyna svo að losna við dýrið eftir að það hefur drepið alla fjölskylduna? Nei, auðvitað byrjarðu á því að leyfa honum að skjóta skepnuna. En þú veist líka að þú gætir þurft að verjast bjargvætti þínum eftir á.

Ríkisvald getur auðveldlega orðið handbendi siðblindra kúgara. Það er þessvegna sem við setjum þeim sem fara með slíkt vald reglur með stjórnarskrám og mannréttindasáttmálum. Í neyðarástandi er hætta á að við slökum á því taumhaldi og veitum leiðtogum, kjörnum eða ókjörnum óhófleg völd. Við skulum ekki ímynda okkur, eitt andartak, að réttarríki, mannréttindi og lýðræði séu svo kyrfilega í sessi fest í okkar heimshluta að það sé ekki hægt að svipta okkur þeim. Og ef kúgunartilburðir verða áberandi á mörgum stöðum í senn, við aðstæður þar sem almenningur getur illa brugðist við því, er hættan meiri en ella.

Svo höldum vöku okkar. Sættum okkur við tímabundna frelsisskerðingu
sjálfum okkar og ástvinum okkar til verndar. En gerum það ekki í blindu trausti til yfirvalda, heldur með því hugarfari að ef lýðræðið verður frá okkur tekið, þá þurfi vinnufæran mannskap til að endurheimta það.