Ég þorði varla að gera mér vonir um að fá tækifæri til að sjá leiksýninguna Með fulla vasa af grjóti  en var svo heppin að fá boð á frumsýningu.

Ég sá fyrstu uppfærsluna árið 2000 og fannst sýningin frábær þá. Ekki er síðra að sjá hana aftur 17 árum síðar. Afbragðs leikur og alveg mögnuð upplifun að sjá þessa tvo stórkostlegu leikara skipta fyrivaralaust um karaktera, oft án þess einu sinni að nota búninga eða aðra leikmuni til hjálpar. Á vef Þjóðleikhússins eru taldar upp 15 persónur en í raun eru þær 17 því tvær þeirra koma einnig fram sem börn og eru að sjálfsögðu leiknar á allt annan hátt en fullorðnu afbrigðin.

Ég heyrði þá skoðun í gær að það væri lítið spunnið í handritið, listin fælist nær eingöngu í túlkun leikaranna. Ég get sannarlega tekið undir þá skoðun að uppsetningin og leikurinn gæðir verkið alveg sérstöku lífi en mér finnst sagan sem slík líka góð. Þetta er tragikómidía með pólitískum undirtón sem hefði mátt vera sterkari. Lítið samfélag á Írlandi tekur þátt í gerð Hollywoodmyndar. Þorpsbúar leika ómerkileg aukahlutverk í myndinni og eru alveg slefandi af hrifningu af fræga fólkinu til að byrja með. Aðalpersónurnar eru tvær, þorpsbúinn Jake og aðkomumaðurinn Charlie. Þeir eru báðir aukaleikarar í myndinni og báða dreymir um að verða frægir. Charlie hefur skrifað kvikmyndahandrit sem enginn sýnir áhuga og Jake gælir við fjarlægan draum um að fá stórt hlutverk í kvikmynd. Sean, ungan óreglumann, dreymir um að fá að vera með í myndinni en hann fær ekki einu sinni hlutverk sem statisti. Jake og Charlie velta því fyrir sér hvort hæfileikarnir einir dugi til þess að slá í gegn eða hvort nauðsynlegt sé að þekkja einhvern í kvikmyndaheiminum til þess að koma sér á framfæri.

Fljótlega fer Jake að svíða virðingarleysið sem aukaleikurunum er sýnt og skeytingarleysi kvikmyndaiðnaðarins um þarfir samfélagsins þegar hinn ungi Sean fyrirfer sér, verður til þess að fleiri taka í sama streng. Fræga fólkið sem í fyrstu var sveipað dýrðarljóma reynist tillitslaust forréttindapakk sem hefur engan áhuga á því samfélagi sem verið að nota sem efnivið í kvikmynd. Sagan sem verið er að mynda er yfirborðskennd saga af leiguliðum sem eru að missa jarðir sínar en endurheimta þær fyrir tilstilli hetjunnar sem er í fyrstu kotbóndi sem á að bera út af landi sínu en eignast síðar prinsessuna og ríkið. Þessi rómantíska ímynd er víðs fjarri þeim veruleika sem blasir við fólkinu; ekki síst drengum sem fyrirfer sér en hann á sér enga framtíðarvon getur í raun hvorki farið burt né verið um kyrrt á heimaslóðum sínum.

Sá hörmulegi atburður sem sjálfsvíg unga mannsins er, verður til þess að hugmyndir vakna um að breyta kvikmyndinni í sögu um líf aukaleikaranna, einkum þess látna, sem fékk ekki einu sinni að vera með. Leikstjórinn afskrifar þá hugmynd með öllu en þeim félögum Jake og Charlie finnst ekki ástæða til að taka mark á honum og sökkva þeir sér í draumóra. Áhorfandinn veit að kvikmynd um líf írskrar alþýðu yrði sennilega dýpri en Hollywood-klisjan með hamingjuríkum endi en hann veit einnig að þeir hafa ekkert til að bera sem gerir það líklegt að þeim muni nokkurntíma takast að gera kvikmynd. Samskipti þeirra við Hollywood-fólkið greiða ekkert fyrir þeim enda á sá áhugi sem fræga fólkið sýnir þeim  ekkert skylt við vináttu eða umhyggju.

Það skiptir máli að verkið er skrifað með það fyrir augum að tveir leikarar leiki allar persónurnar. Skiptingin úr einum karakter í annan er kómísk en undirstikar einnig þá hugmynd að öll séum við nú gerð úr sama efninu, það sé lífsafstaða okkar og viðbrögð sem gera okkur einstök fremur en kyn, aldur og félagsleg staða. Munurinn á leikstjóranum og draumóramanninum sem langar að koma handritinu sínu á framfæri, liggur fyrst og fremst í félagslegri stöðu, fasi og framkomu, hvorugur er áhugaverður listamaður þótt öðrum hafi tekist að selja framleiðslu sína. Aðalleikkonan sem brýtur niður það litla sjálfstraust sem ungi óreglumaðurinn á eftir er leikin af sama leikara og þeim sem leikur besta vin hans. Gamli maðurinn sem neitar að láta reka sig af sinni eigin jörð bara af því að hann er fullur á tökustað, er sá sami og drengurinn sem stútaði sér eftir að vera rekinn út af þorpskránni. Sá gamli, sem heldur að hann sé ómissandi og geti því rifið kjaft, er sá sami og tilgerðarlega stúlkan sem fær að aðstoða við leikstjórn og daðrar við þann sem er henni ofar í virðingarstiganum og étur allt upp eftir honum.

Þótt sagan sem slík sé alveg ágæt er það þessi samruni persóna sem gerir verkið eftirminnilegt og leikur þeirra Hilmis Snæs og Stefán Karls er framúrskarandi. Ég naut þess virkilega að sjá sýninguna árið 2000 en skemmti mér jafnvel enn betur nú.