Hvernig þætti þér að búa í ríki þar sem stjórnvöld gætu að eigin geðþótta sett umgengnis- og hegðunarreglur heima hjá þér? Ekki reglur sem gilda fyrir alla þegna samfélagsins heldur sérsniðnar reglur fyrir þitt heimili. Reglur á borð við:

  • Ekki má reykja innandyra, ekki heldur þótt þú sért einn í heimili og einn heima.
  • Þú mátt ekki mála nema með leyfi frá yfirvöldum.
  • Þú mátt ekki eiga gæludýr af neinu tagi, ekki heldur þótt það sé leyfilegt í sveitarfélaginu og nágrannar þínir samþykki það.
  • Ef þú átt kærasta má hann ekki flytja inn til þín.
  • Þú mátt ekki halda partý.
  • Þú mátt ekki leyfa fólki að gista heima hjá þér lengur en þrjár nætur í röð.
  • Tiltekinn maður á vegum sveitarfélagsins hefur lykil að heimili þínu og má koma þangað til að líta eftir því að allt sé í lagi.

Sannleikurinn er sá að á Íslandi býr fjöldi manns við slík inngrip í einkalíf sitt. Það eru bara ekki yfirvöld sem eru andandi ofan í hálsmál borgarans heldur leigusalinn. Vonandi er sjaldgæft að leigusalar setji öll þau skilyrði sem hér eru talin en ég veit dæmi um þetta allt. Bann við reykingum, gæludýrum og partýhaldi er algengt.

Annar aðilinn er í yfirburðaaðstöðu til að setja skilyrði
Lítil takmörk virðast vera fyrir því hvaða skilyrði leigusalar geta leyft sér að setja. Oft eru íbúðir auglýstar til leigu með skilyrðum á borð við „aðeins konur koma til greina“ eða „aðeins Íslendingar koma til greina.“ Sumir leigusalar vilja komast hjá skattgreiðslum og krefjast þess því að greidd sé hærri leiga en gefin er upp í samningi, sem þýðir að leigjandinn fær engar húsaleigubætur. Fyrir kemur að enginn skriflegur samningur er í boði og þar með hefur leigjandinn engin tök á að framfylgja rétti sínum ef til ágreinings kemur. Stundum er um það samið að leigusali þurfi ekki að sinna því viðhaldi sem gert er ráð fyrir í húsaleigulögum eða að leigjandinn sætti sig við að ástand húsnæðisins standist ekki þær kröfur sem húsaleigulög kveða á um.  Dæmi eru um að leigusalar breyti samningi að eigin geðþótta löngu eftir að leigjandinn er fluttur inn. Ég þekki dæmi þess að rafmagn og hiti átti að vera innifalið í leiguverði en þegar leigusalinn sá að reikningurinn var hærri en hann hafði búist við, hætti hann bara við. Ég þekki einnig dæmi þar sem leigusalinn hringdi í leigjandann til að yfirheyra hann um hvað hafi verið „í gangi“ í hvert sinn sem hann frétti af því að leigjandinn hefði fengið gesti.

Eðlilegar kröfur?
Það er í raun skiljanlegt að leigusalar setji leigjandanum ýmis skilyrði, því á íslenskum leigumarkaði er sáralítið um alvöru leiguhúsnæði. Oft er fólk að leigja út heimili sín vegna tímabundinnar búsetu erlendis eða í öðrum landshluta. Lögin veita húseiganda sem er óheppinn með leigjendur mjög takmarkan rétt til að gæta eigna sinna og leigusalinn á því á hættu að sitja uppi með mikið tjón. Stór leigufélög eiga væntanlega auðveldara með að tryggja sig gegn tjóni. Þegar framboð á leiguhúsnæði er lítið er ekki við öðru að búast en að leigusalar geri ítrustu kröfur til að fyrirbyggja skemmdir á húsnæði, erjur við nágranna og önnur óþægindi.

Leigjendur hafa almennt skilning á þessu og og gera ekki athugasemdir við skilyrði eins og engin gæludýr og ekki mála íbúðina. En leigusalinn er í yfirburðastöðu og ef skilyrðin eru ósanngjörn getur leigjandinn lítið við því sagt. Þótt sum skilyrðin séu beinlínis ólögleg, á leigutakinn ekki annars kost en að samþykkja þau, því það er ekkert skárra í boði. Ef afskipti leigusala ganga svo óeðlilega langt, verður leigjandinn að velja um að sætta sig við þau eða eiga á hættu að missa húsnæðið með þriggja mánaða fyrirvara því hann getur ekki fengið langtímasamning.

Okur og öryggisleysi
Verðlagið á leiguhúsnæði er kapítuli út af fyrir sig. Miðsvæðis í Reykjavík eru herbergi auglýst á 6-9 þúsund kr á fermetrann. Það er hagkvæmara að leigja íbúð ef tveir eða þrír taka sig saman en algengt er að leigusalar vilji aðeins leigja pari, eða kannski í besta falli vinkonum, tveir einhleypir karlar koma ekki til greina. Meirihluti leigjenda eru tekjulágir, annars myndu þeir kaupa, og leigan er of há til að hægt sé að leggja fyrir. Fátæklingurinn á því ekki greiða útleið af leigumarkaðnum.

Auk þess að þurfa að búa við afskipti annars fólks af heimilislífi sínu, er leigjandinn aldrei öruggur. Það er einskær heppni að fá íbúð, ég tala nú ekki um herbergi, til lengri tíma en árs í senn og ef langtímaleiga er í boði má reikna með að fyrirframgreiðsla og/eða trygging sé efnalitlu fólki ofviða. Ein afleiðingin af því óöryggi sem leigjendur búa við er svo aukakostnaður af tíðum flutningum, það er nefnilega dýrt að vera alltaf að flytja.

Eðlilegur leigumarkaður er píratamál
Hingað til hafa hin undursamlegu markaðslögmál ekki gagnast leigjendum neitt og ekkert bendir til að viðunanlegur leigumarkaður muni þróast án ríkisafskipta. Það væri í anda þeirrar félagshyggju sem einkennir málflutning pírata að ríkið beitti sér fyrir stofnun húsnæðisfélaga. Aukið framboð á leiguhúsnæði þar sem reglum er fylgt er eina ásættanlega lausnin fyrir þá sem ekki geta keypt íbúðarhúsnæði.

Leigjendur búa ekki aðeins við fátækt og öryggisleysi, heldur einnig skerta friðhelgi einkalífs. Það væri í anda grunnstefnu pírata að koma á leigumarkaði þar sem skilyrði fyrir búsetu eru skýr og samræmd. Markaði þar sem leigjandinn nýtur raunverulegrar verndar og réttinda, í stað þess að þurfa að líta á leigusalann sem húsbónda. Að heilbrigðismálum frátöldum eru húsnæðismál mikilvægasta velferðarmálið á Íslandi í dag. Enginn hinna hefðbundnu stjórnmálaflokka hefur gert tilraun til þess að koma á eðlilegum leigumarkaði. Píratar hafa enn ekki lokið stefnumótun í húsnæðismálum en ég vona sannarlega að þeir ætli að vinna að töluvert betri lausnum en þeirri að leyfa fólki að kaupa íbúð fyrir sparifé sitt. Flestir þeirra sem árum saman hafa greitt okurverð á leigumarkaði eiga nefnilega enga sjóði.