Þau lyf sem oftast er talað um sem „nauðgunarlyf“ eru flunitrazepamlyf (þeirra þekktast er rohypnol) og GHB; ólöglegt deyfilyf sem hefur notið nokkurra vinsælda meðal vöðvaræktarfólks, sem brennsluhvati. Miklum sögum fer af umfangi lyfjabyrlunar og lyfjanauðgana í Bandaríkjunum, Evrópu og Ástralíu. Rannsóknir staðfesta alls ekki þá hugmynd að þetta vandamál sé útbreitt.

Hér er samantekt um það sem virðast vera staðreyndir málsins.

1. Lyfjabyrlun virðist vera mjög sjaldgæf

Það er ekki umdeilt að glæpamenn hafa laumað nauðgunarlyfjum í drykki kvenna og komið þannig fram vilja sínum. Ekkert bendir þó til þess að lyfjanauðganir eða tilraunir til lyfjanauðgana séu algengar nokkursstaðar í veröldinni.

Rannsóknir gefa vísbendingu um að byrlun nauðgunarlyfja sé mjög sjaldgæf. Rohypnol og GHB greinast aðeins í 0-2% þeirra sem telja sig hafa orðið fyrir lyfjabyrlun. Róandi lyf, svosem valíum og librium hafa fundist í um 8% tilvika en inni í þeirri tölu eru lyf sem meintir brotaþolar tóku sjálfir, ýmist að læknisráði eða eigin frumkvæði. Mikið áfengi greinist hinsvegar oft í þvagi og blóði þeirra sem telja að sér hafi verið byrlað nauðgunarlyf. Ég hef, þrátt fyrir mikla leit, ekki fundið neina rannsókn sem staðfestir að lyf, sem meintur brotaþoli kannast ekki við að hafa tekið, finnist í meira en 10% þeirra sem telja að sér hafi verið byrlað nauðgunarlyf.

Bæði í Wales og Ástralíu hafa rannsóknir leitt í ljós að í yfirgnæfandi meirihluta þeirra fáu tilvika þar sem nauðgunarlyf greinast, kemur síðar í ljós að gerandinn hafði engin áform um að nauðga fórnarlambinu, heldur var um að ræða ósmekklegan hrekk ungra manna með vondan húmor. Þetta kemur m.a. fram í bæklingum sem ég vísa á hér að neðan. Í Ástralíubæklingnum kemur fram að þessháttar „grín“ skýri 2/3 hluta tilvika. Þessi yfirvöld gera enganveginn lítið úr hættunni, þau hvetja fólk til að fara varlega og tilkynna grun um notkun þessara lyfja en benda um leið á að lyfjabyrlun sé sjaldan skýringin á annarlegu ástandi.

2.  Vanlíðan og minnisglöp eftir djamm er oftar merki um ölvun en lyfjabyrlun

Konur sem telja að sér hafi verið byrlað nauðgunarlyf lýsa oft einkennum sem stemma við áhrif óhóflegrar áfengisneyslu. Flunitrazepamlyf geta haft svipuð áhrif og ofneysla áfengis ef þeirra er neytt í miklu magni og/eða blandað saman við áfengi. Því er erfitt að fullyrða aðeins út frá einkennunum hvort áhrifin stafa af nauðgunarlyfi eða áfengi.

Sömu einkenni geta einnig átt við ýmsa sjúkdóma, t.d. væga matareitrun, ælupest og mígreni.

Margir þættir geta valdið óvenjumiklum ölvunaráhrifum. Þreyta, svengd, streita, lasleiki og lyf geta t.d. magnað áhrifin og komið fólki sem hefur drukkið lítið verulega á óvart. Rétt er að hafa í huga að ungar konur sem hafa áhyggjur af því að fitna eiga það til að borða lítið áður en þær fara út að skemmta sér  þar sem þær reikna með að drekka orkuríka drykki um kvöldið.

Algengt er að fólk sem verður ölvaðra en það taldi líklegt, miðað við það áfengismagn sem það innbyrti, vanmeti drykkju sína, gleymi jafnvel nokkrum drykkjum eða taki ekki eftir því að gestgjafinn fyllir glös gesta um leið og fer að lækka í þeim. Það er t.d. algengt í ölvunarakstursmálum að áfengismælingar sýni meira áfengismagn en ökumaður taldi sig hafa innbyrt. Langoftast greinist mikið áfengi í blóði þeirra sem telja sig hafa orðið fyrir lyfjabyrlun. Stundum mun meira en ætla má út frá þeim fjölda drykkja sem meintur brotaþoli telur sig hafa drukkið.

3  Það er vitleysa að nauðgunarlyf hverfi strax úr líkamanum





Það er mýta að nauðgunarlyf hverfi hratt úr líkamanum. Auðveldast er að greina þau skömmu eftir að þeirra er neytt en flunitrazepamlyf mælast í þvagi í 72 klukkustundir og allt að 5 dögum eftir neyslu. GHB mælist aðeins í þvagi 8-12 tíma eftir neyslu en það greinist í hári mörgum mánuðumeftir að lyfsins er neytt.

4  Lyfjabyrlun er ekki einföld og auðveld nauðgunaraðferð

Lyfjabyrlun er að mörgu leyti „óhentug“ aðferð til að fremja kynferðisbrot. Þótt rohypnol og önnur flunitrazepamlyf séu litlaus og bragðlaus eru þau venjulega í töfluformi eða hylkjum. Það tekur bæði duft og töflur nokkra stund að leysast svo vel upp í vökva að engar leifar sjáist í glasi.

Fáar stúlkur fara einar á djammið og áhrifin af nauðgunarlyfjum eru m.a. þau að þolandinn verður ósjálfbjarga. Nauðgarinn þarf því fyrst að einangra fórnarlambið og síðan styðja það eða bera út. Gera má ráð fyrir að það veki óþægilegar spurningar nærstaddra. Mun auðveldara er að velja fórnarlamb sem er í ástandi til að ganga út á leigubílastöð.

5  Það er rangt að nauðgunarlyf hafi víðast hvar verið tekin úr sölu vegna mikillar misnotkunar

Samkvæmt upplýsingum frá Lyfjastofnun er það misskilningur að flunitrazepamlyf séu bönnuð í flestum löndum. Þau eru víða á markaði m.a. á Norðurlöndum.

Ekkert þeirra flunitrazepamlyfja sem eru á norrænum markaði er með litarefni enda virðist hættan á lyfjanauðgunum hvergi vera stórt áhyggjuefni hjá stjórnvöldum.

6  Áfengi er algengasta nauðgunarlyfið

Vodka er sennilega handhægasta nauðgunarlyf á markaðnum enda mjög erfitt að greina það ef því er bætt út í annan áfengan drykk. Auk þess eru minni líkur á að gerandinn verði sakaður um glæpsamlegt athæfi þar sem líklegt er að margir taki trúanlega þá skýringu að hann hafi aðeins ætlað að sýna herramennsku með því að fylla glas dömunnar.

Flestir ef ekki allir læknar, eiturefnafræðingar og lögreglufulltrúar sem tjá sig um nauðgunarlyf telja að áfengi sé algengasta nauðgunarlyfið og allar rannsóknir sem ég hef séð staðfesta að áfengi er eina efnið sem algengt er að finnist í þvagi eða blóði þolenda.

7  Sögur af lyfjabyrlun sanna ekki neitt

Viðhorfsrannsóknir leiða í ljós að hugmyndir um umfang lyfjabyrlunar eru úr öllum takti við raunveruleikann og heimilidir fólks fyrir því að lyfjabyrlun hafi átt sér stað eru nánast eingöngu skýringar meintra fórnarlamba á annarlegu ástandi sínu. Ástand manneskju er ekki sönnun fyrir neinu öðru en ástandi hennar. Manneskja sem ekki er vön að taka rohypnol eða önnur nauðgunarlyf getur ekki gefið sér að ástand hennar skýrist af því að einhver hafi sett lyf í drykkinn hennar. Þótt margir telji sig þekka tilvik um lyfjanauðgun eða byrlun nauðgunarlyfja segir það ekkert um tíðni slíkra glæpa, ekki frekar en fjöldi þeirra sem telja sig þekkja dæmi um góðan árangur andalækninga segir neitt um raunverulega tíðni árangursríkra andalækninga.

Í langflestum þeirra tilvika sem lögreglu er tilkynnt um grun um lyfjabyrlun er ekkert annað brot inni í myndinni. Ef við gefum okkur að neikvæð niðurstaða úr lyfjaprófi sé oft röng (en ekkert bendir til þess) virðist byrlarinn þó afar sjaldan gefa sig að konunni eða elta hana, hvað þá að nauðga henni.

Ef lyfjanauðganir væru algengar er líklegt að sömu lyf væru oft notuð til að fremja rán. Þrátt fyrir sögur af mikilli notkun nauðgunarlyfja í Reykjavík fer engum sögum því að gestir skemmtistaða séu rændir eftir lyfjabyrlun.

8   Þótt lyfjanauðganir séu sjaldgæfar er samt rétt að tilkynna grun

Konur sem telja sig hafa orðið fyrir lyfjabyrlun og vinirnir sem koma þeim heim, ættu að tilkynna bæði starfsfólki staðarins og lögreglu það tafarlaust að grunur leiki á að inni á tilteknum skemmtistað sé einhver að dunda sér við að setja lyf í drykki gesta.

Það er ekki við því að búast að kona, sem hefur þó ekki orðið fyrir nauðgun og hefur engan tiltekinn mann grunaðan um að hafa átt við drykkinn sinn og er auk þess sárlasin, vilji eyða nóttinn á neyðarmóttöku. Það er þó auðvelt að taka þvagsýni heima og hafa samband við neyðarmóttöku daginn eftir. Jafnvel þótt gleymist að taka sýni strax um nóttina ætti kona sem telur sig að hafa orðið fyrir lyfjabyrlun að skila inn prufu til rannsóknar því rohypnol mælist í 3 sólarhringa og allt að 5 sólarhringa. Hér gildir samt auðvitað reglan því fyrr því betra.

9  Ábyrgð fjölmiðla

Þegar stúlka telur sig hafa orðið fyrir eiturbyrlun henda fjölmiðlar söguna á lofti og hafa hana eftir, oftast án þess að greina frá því hversu mörg staðfest tilvik eru um slíkt og án þess að spyrja lyfjafræðing, lækni eða lögreglu hversu algengt þetta sé. Þessi vinnubrögð vekja spurningu um hvort meginmarkmiðið sé frekar að upplýsa almenning um glæpi eða að fá sem flesta „smelli“ á fréttina.

Fyrir einu ári kom fram í fréttum að byrlun nauðgunarlyfs hafði aldrei verið staðfest á Íslandi. Það hefði verið ábyrgt af fjölmiðlum að taka það fram þegar þeir dreifðu sögu ungrar konu sem taldi víst að einhver hefði átt við drykkinn hennar. Þegar svo mikilvægur sannleikur fylgir ekki sögunni er hætt við að hún ýti undir mikinn en ástæðulausan ótta. En vonandi bæta þessir fjölmiðar úr því þegar konan birtir niðurstöðurnar úr lyfjaprófinu.

Nokkrar heimilir:

http://en.wikipedia.org/wiki/Date_rape_drug
http://news.ulster.ac.uk/releases/2007/3426.html
http://www.alcoholpolicy.net/2007/02/new_research_on.html
http://www.telegraph.co.uk/news/uknews/crime/6440589/Date-rape-drink-spiking-an-urban-legend.html
http://www.nhs.uk/news/2009/10October/Pages/date-rape-drugs-and-alcohol-myth.aspx
http://www.dailymail.co.uk/news/article-436592/Drug-rape-myth-exposed-study-reveals-binge-drinking-blame.html
http://bjc.oxfordjournals.org/content/49/6/848.full.pdf+html
http://www.returnofkings.com/12072/the-myth-of-date-rape-drink-spiking
Drink Spiking – Myths and Facts – NSW Police Force
Drink Spiking (PDF)
National project on drink spiking – Australian Institute of Criminology
http://research.mentorfoundation.org/research/date-rape-drink-spiking-urban-legend