Árlega fær lögreglan 175 hleranaheimildir. Það merkir ný hlerunarheimild næstum því annan hvern dag. Heimildir hafa gilt í allt að 110 daga. Hversu lengi ætli hleranaheimildir gildi að meðaltali? Hversu margir hlerunardagar eru þetta samanlagt?

Ekkert eftirlit

Enn veit almenningur ekkert hvort eftirlit með hlerunum er yfirhöfuð viðhaft. Ríkissaksóknari getur engu svarað og vísar á einhverja aðra en nú er allavega staðfest að þeir sem sæta hlerunum geta ekki reiknað með að vera látnir vita af því síðar. Lögreglunni tekst sko ekki að hafa uppi á þeim! Halda yfirvöld að almennir borgarar séu kjagandi bjánakeppir? Viljiði plís bjóða upp á aðeins metnaðarfyllri afsökun næst.

Innanríkisráðuneytið ber ábyrgð á ríkissaksóknara. Kannaði innanríkisráðherra hvernig staðið er að eftirliti með hlerunum áður en hann hóf að boða fagnaðarerindi sitt um forvirkar rannsóknarheimilidir? Hafi hann gert það þá hefur hann þagað yfir niðurstöðunni. Það var Bjarni Ben sem sá til þess að draga þetta hneyksli upp á yfirborðið. Maður hefði kannski frekar búist við því að meintir vinstri menn létu sig þessi mál varða.

Vald án ábyrgðar

Á sumum stöðum í Ísrael er herinn með bunka af undirrituðum tálmunarheimildum í bílunum. Þegar hermönnum dettur í hug að loka einhverju svæði, þarf ekkert að hafa samband við yfirmenn, heldur má draga fram dagsetningarstimpil og reka svo bréfið upp í nefið á þeim sem vill komast leiðar sinnar. Þetta mætti kalla forvirkar tálmunarheimilidir.

Þetta fyrirkomulag er viðhaft vegna þess að yfirmenn treysta sínu fólki til að taka ákvarðanir um tálmanir og þetta sparar tíma og umstang. Þetta hljómar kannski ekki eins og mikil breyting því lokunarheimild fæst oftast hvort sem er. Málið er að þegar búið að flytja valdið frá þeim sem ber ábyrgðina og yfir til einhvers sem aldrei mun þurfa að sæta ábyrgð, eru lítil takmörk fyrir því á hversu heimskulegum forsendum mönnum dettur í hug að loka vegum. Menn hika við að hringja í yfirmann og segja „hér er  maður sem fer í taugarnar á mér og mig langar að bögga hann. Geturðu útbúið heimilid til að loka veginum og sent bíl til mín með hana í hvelli?“ Það er hinsvegar auðvelt að stimpla blað og skálda svo upp skýringu eftir á ef þess gerist þörf.

Hver mun bera ábyrgð á forvirkum njósnaheimildum?

Munu forvirkar rannsóknarheimilidir virka á sama hátt? Verður valdið fært frá þeim sem ber ábyrgð til einhvers sem þarf ekki að óttast afleiðingar gjörða sinna?

Rök Ögmundar fyrir því að ekki þurfi að óttast misnotkun á forvirkum njósnaheimildum eru þau að eftirlit muni koma í veg fyrir það. En væri ekki rétt að koma fyrst á eftirliti með þeim heimildum sem þegar eru til staðar?

Ríkissaksóknari veit bara ekkert í sinn haus. Hvað ætlar innanríkisráðuneytið að gera í því? Verður ríkissaksóknari látinn sæta ábyrgð? Ég ætla rétt að vona að íslenskir blaðamenn krefji innanríkisráðherra svara við þeirri spurningu. Ég vona jafnframt að þeir hafi rænu á því að spyrja hvar ábyrgðin muni liggja þegar  forvirkar njósnaheimildir verði misnotaðar og hvernig nákvæmlega menn verði látnir axla þá ábyrgð.