Hatrið í garð feminista hefur ekki farið fram hjá neinum sem fylgist með umræðunni. Fúkyrðaflaumur og ofbeldisórar virka að vísu ekki vel til þess að breyta skoðunum neins en þetta virkar hinsvegar prýðisvel til þess að draga athyglina frá því sem þessar konur segja og að því hatursfulla skítkasti sem þær sitja undir. Sem er nú varla markmið þeirra viskubrunna sem beita fyrst og fremst persónuníði í málflutningi sínum.

En hver er ástæðan fyrir þessari óbeit? Oft hafa feministar skýrt þetta með því að körlum, einkum valdakörlum, standi ógn af kvenhyggjukonum af því að þær séu að breyta samfélaginu. Þetta stenst ekki skoðun. Í fyrsta lagi eru kvenhyggjusinnar ekki að breyta neinu sem skiptir máli. Feministar eru ekki að brjóta upp valdakerfið (ranglega kallað „feðraveldið“) heldur að reyna að yfirtaka það. Fleiri konur í valdastétt gætu vissulega ógnað völdum nokkurra karla, en það eru ekki valdakarlar sem lýsa órum sínum um að missa hnefann í andlit Hildar Lilliendahl eða nauðga Sóleyju Tómasdóttur, heldur valdalausir vesalingar. Auk þess stafar valdakörlum meiri ógn af öðrum valdakörlum en af kvenhyggjukonum en þeir gera samt ekki út fávita til að senda körlum hótunarbréf. Eða ef svo er þá halda hatursþolar úr hópi valdakarla þeim bréfum leyndum.

Vissulega er til fólk sem óttast feminista. Ég er t.d. dauðhrædd við þetta fólk. Ekki sem persónur, heldur hef ég áhyggjur af áhrifum hreyfingarinnar innan réttarkerfisins og því að við fáum þennan ófögnuð inn í grunnskólana í formi kynjafræðslu.  Mér finnst þó fáránlegt að reyna að díla við þetta vandamál með því að beina andúð á vondri hugmyndafræði að einstaklingum eða reyna að þagga niður í kvenhyggjufólki, þvert á móti vil ég að þau opinberi skoðanir sínar sem víðast svo almenningur átti sig á því hvað er að gerast.

Skýringarnar sem eftir standa

Það er tilgangslaust að spyrja þolandann hversvegna aðrir leggi fæð á hann. Það er hinsvegar reynandi að spyrja hatursmennina sjálfa. Þegar búið er að skafa burt skítkastið og ofbeldisórana standa skýringarnar eftir. Skýringar sem réttlæta ekki með neinu móti þessa framkomu en varpa kannski ljósi á það hversvegna feministar eru hataðir. Flestir gefa þær skýringar að feministar séu öfgafullir, óbærilega leiðinlegir og hati karla.

Sóley Tómasdóttir auglýsti hvað eftir annað eftir dæmum um öfgar feminista á umræðukerfi DV um helgina.  Nú tel ég öfgar ekki vera vandamál í sjálfu sér. Öfgar eru bara það sem víkur frá norminu og það getur vel verið jákvætt. Öll mannréttindamál hafa í fyrstu verið talin til öfga. Ég kýs fremur að tala um ofstæki. Í almennri umræði hefur það sömu merkingu og öfgar svo ég býst við að hatursmennirnir myndu fallast á að nota það.

Ofstæki feminsta felst fyrst og fremst í því að ganga út frá hugmyndum sem ekki eru í neinu samræmi við þann veruleika sem flestir lifa í en þar er miðlæg sú hugmynd að karlar reyni alltaf að kúga konur. Ég hef margsinnis bent á dæmi um ofstopafulla nálgun, (auk dæma um tvískinnung, ýkjur og rangfærslur) en þau virðast gleymast jafnóðum. Því er upprifjunar þörf. Hér eru nokkur dæmi um ofstæki feminista:

Orð fólks sem ekki gengst inn á hugmyndafræði kvenhyggjunnar lögð út á versta hugsanlega veg

  • Þráinn Bertelson flokkaður sem kvenhatari fyrir að flokka dónabréfaskrif JBH sem dómgreindarbrest fremur en kynferðisglæp.
  • Jakob Bjarnar flokkaður sem kvenhatari fyrir að segja að kvennakjaftæði og kynjakvótarugl sé úldið.
  • Theodór Gunnarsson flokkaður sem kvenhatari fyrir að mælast til þess að menn stilltu sig um að taka Egil Einarsson af lífi í fjölmiðlum áður en dómur væri fallinn í máli hans.
  • Ofangreindir menn flokkaðir þannig með mönnum sem lýsa yfir vilja sínum til að drepa konur og ánægju sinni með hópnauðganir og önnur ofbeldisverk, í þessu albúmi.
  • Heimir Már Pétursson flokkaður sem nauðgaravinur fyrir að komast svo bjánalega að orði að Dominique Strauss Kahn hefði „áður lent í vandræðum vegna samskipta sinna við konur“ þegar hann var kærður fyrir nauðgun.
  • Davíð Þór Jónsson sagður hafa „brenglað viðhorf til kynlífs og kvenna“ af því að hann var ekki sammála feministum um aðferðir til að takast á við hörmungar tengdar kynlífsiðnaði.
  • Guðrúnu Bergmann gerð upp sú skoðun að konur eigi að hafa kynmök gegn vilja sínum, af því að hún gaf þetta ráð til að halda neistanum í sambandinu; „segðu frekar já en nei þegar þú ert ekki alveg viss um hvort þú sért tilbúin/n til að bregðast við löngun hins aðilans í kynmök – og beindu huganum að því að kveikja eldinn.“
  • Fullyrðingar um að ég sé í herferð gegn þolendum kynferðisofbeldis með því að benda á það geti leitt til dómsmorða að slaka á sönnunarkröfum og skilgreina nauðgun á upplifunarforsendum.

Mannorðsmorð þykja sjálfsögð ef þau þjóna málstaðnum  

Kvenhyggjufólk sér klámdjöfulinn í hverju horni

Hugtök á borð við „nauðgun“, „mansal“ og „kynbundið ofbeldi“ gerð merkingarlaus 

  • Kynlífsþjónusta skilgreind sem „greidd nauðgun.“ (Sjá t.d. ummælaþráðinn hér)
  • Öll kynlífsþjónusta lögð að jöfnu við mansal. Þetta opinberast m.a. í því að „human trafficking“ er þýtt sem „mansal“.
  • Klám skilgreint sem „kynbundið ofbeldi“ og sett í flokk með líkamsársum, nauðgunum og kynlífsþrælkun. Hér sést t.d. hvernig þetta sjúka viðhorf er farið að síast inn í orðræðu alþjóðlegra mannréttindastofnana.
  • Talað um nauðgun „sem eitt skýrasta birtingarform karllægra yfirráða í samfélaginu almennt.“ Þetta kemur t.d. fram í MA ritgerð Guðrúnar Margrétar Guðmundsdóttur „Af hverju nauðga karlar“ en þar kemst hún að þeirri niðurstöðu að karlar nauðgi af því að það sé svo karlmannlegt.

Hugmyndir um umfang kvenhaturs bera keim af vænissýki

  • Ranghugmyndir um „nauðgunarmenningu“; þ.e. sú skoðun að kynferðisofbeldi sé viðurkennd hegðun í vestrænu samfélagi. Hér er dæmi um það hvernig kvenhyggjufólk telur rétt að bregðast við hættunni á nauðgun en í sumum löndum hefur þessum lista verið dreift til karlkyns vegfarenda þar sem það eru jú karlar sem nauðga.
  • Hryllingsglæpur í Delhi og staðalmyndir kynjanna taldar eiga sér sömu skýringu; þ.e. almennt kvenhatur.

Karlhatur skín í gegnum umræðuna

Fórnarlambsvæðing kvenna 

Forréttinda krafist handa konum

Virðingarleysi gegn konum sem hafa önnur lífsviðhorf en kvenhyggjusinnar

Litið á hefðbundnar kynjaímyndir sem kúgunartæki

  • Viðbrögðin við nýju barnaefni sem elur á hefðbundnum kynhlutverkum voru nánast eins og um hatursáróður hefði verið að ræða.
  • Talað um það sem ægilegt vandamál að stúlkur sæki ekki í spurningakeppni framhaldsskólanna (rétt eins og hún sé merkilegri en stelpnamenning.) Á umræðuþræði hér stingur einn feministinn t.d. upp á því að sækja stúlkur inn í kennslustofuna eins og þær séu smákrakkar sem þurfi að skikka til einhvers sem talið er gjörsamlega nauðsynlegt að láta þær gera.

Yfirvaldstilburðir og ritskoðunarórar

Búin til fölsk mynd af vandamálum þar sem engin vandamál eru

Þarf fleiri samantektir?

Þetta eru bara nokkur dæmi en engan veginn tæmandi listi. Ég tók þetta saman bara svo þetta sé til á einum stað næst þegar einhver feministinn skilur ekkert hvað átt er við með öfgum og ofstæki. Ef lesendur vilja bæta einhverju við má gera það á umræðukerfinu eða senda mér tölvupóst og ég bæti þá inn í færsluna ef mér þykja ábendingarnar eiga heima hér. Einnig þætti mér gott að fá svör við því hvort lesendur telja svona samantekt gagnlega og hvort þeir telja þörf á að svipaðri samantekt um tvískinnung feminista.

Að lokum skal tekið fram að ég nenni ekki að svara neinum skætingi um að með því að viðurkenna að ofstæki þrífist í kvenhyggjuhreyfingunni sé ég að styðja viðbjóðslegar hótanir eða ofbeldishúmor.