Umræðan um mál Egils Einarssonar hefur verið áhugaverð, m.a. fyrir þær sakir að hún afhjúpar í senn kröfuna um öfuga sönnunarbyrði í kynferðisbrotamálum, langrækni, heift og hefnigirni og mikinn vilja til þess að ætla nafntoguðu fólki allan þann skíthælshátt sem hugsast getur. Skynsamt fólk sem venjulega sér hlutina frá fleiri en einu sjónarhorni hefur, í hollustu sinni við þolendur kynferðisbrota, fallið í þá gryfju að gera ekki einu sinni ráð fyrir þeim möguleika að maðurinn sé saklaus.

Ríkissaksóknari metur málið svo að enginn grundvöllur sé fyrir ákæru og því var málinu vísað frá. Það finnst mörgum ákaflega óréttlátt ákvörðun og vilja að hugsanlegir nauðgarar  verði ákærðir án sönnunargagna tækra vísbendinga um sekt.  Stúlkan sagði að Egill og Guðríður hefðu nauðgað sér og sá framburður ætti að mati þeirra sem tóku undir kröfu Drífu Snædal um opinbera ákæru (greinin bar fyrst þann titil sem sést enn í vefslóðarglugganum) að duga til þess að málið fari fyrir dómstóla. Næsta skref er væntanlega að krefjast þess að menn verði sakfelldir án sönnunargagna og reyndar er greinilegt að sumum finnst að framburður stúlkunnar ætti að duga til þess að fá Egil dæmdan fyrir nauðgun (Guðríður er afar sjaldan nefnd í þessum umræðum) enda þótt þeir viti ekkert um framburð hennar nema það sem haft var eftir vinkonu hennar í ákaflega óvandaðri umfjöllun Ingibjargar Daggar í DV í des. sl.

Sú afstaða að Egill sé óumdeilanlega nauðgari skín allsstaðar í gegnum umræðuna. Fyrir nokkrum mánuðum benti miðaldra meðaljón á að daður við öfuga sönnunarbyrði væri greinanlegt í umræðunni og var hann umsvifalaust úthrópaður sem kvenhatari fyrir vikið. Litlu breytir þótt málið hafi verið fellt niður. Í umræðum um yfirlýsingu Egils um rök ríkissaksóknara sá ég t.d. háðsk ummæli á Snjáldrinu;  „…hjartað mitt fer samt aðallega til þeirra nauðgara sem hafa verið dæmdir fyrir brot sín! Þvílík óheppni“  Þetta komment þótti hin mesta snilld og augljóslega fleiri sem þrátt fyrir úrskurð hins karllæga ríkissaksóknara (hér má sjá hvernig saksóknaraembætti skiptast milli kynja) sjá enga ástæðu til að efast um sekt Egils. Á öðrum stað sá ég því haldið fram að Egill hefði ekki lýst yfir sakleysi sínu í yfirlýsingunni í Fréttatímanum, heldur aðeins sagt að engar sannanir lægju fyrir. Ég skoðaði yfirlýsinguna og taldi fimm staði þar sem hann ítrekar sakleysi sitt. Umræddur lesandi hefur því greinilega verið með kynjagleraugun á nefinu þegar hann las.

Allir ljúga?

Líklega hefur Egill vonað að rök ríkissaksóknara fyrir frávísuninni myndu hreinsa hann af áburðinum en ekki stendur á svari; Egill getur náttúrulega verið að ljúga því að ríkissaksóknari taki fram að gögn málsins séu hinum kærðu í hag og að stúlkan sem ber þau sökum sé sjálfri sér ósamkvæm. Já og lögmaðurinn lýgur með honum, allavega hef ég séð nokkra hengja sig  í það orðalag að frávísunin merki þá að „kannski“ hafi engin nauðgun átt sér stað. Þetta túlka sanntrúaðir á þann veg að lögmaðurinn efist um sakleysi skjólstæðings síns. Hefði Brynjar fullyrt að engin nauðgun hefði átt sér stað væri hann að setja sig á töluvert háan hest því þegar allt kemur til alls hefur konan heldur ekki verið sakfelld fyrir rangar sakargiftir en það er alveg sama hvernig hlutirnir eru orðaðir; Egill SKAL vera nauðgari og Brynjar þar með nauðgaravinur.

Jújú, það er auðvitað alltaf möguleiki að Egill Einarsson sé svo víðáttuvitlaus að freistast til þess að hafa rangt eftir ríkissaksóknara. Að hann hafi birt yfirlýsingu án samráðs við lögmann sinn eða þá að lögmaðurinn sé líka nógu vitlaus til að ráðleggja honum að ljúga opinberlega um skrifleg gögn.

Það er einnig hugsanlegt að málsgögnin styðji ekki framburð Egils og unnustu hans heldur sé starfsmaður ríkissaksóknara, Hulda Elsa Björgvinsdóttir, nauðgaravinur eða í skársta falli karllægur fulltrúi feðraveldisins, haldin styðjandi kvenleika og karlsleikjuhætti og vilji endilega tryggja „rétt“ nauðgara til að nauðga sem flestum konum. Ekki kæmi það á óvart í samfélagi sem er „gegnsýrt af hamslausu kvenhatri“ eins og einn feministinn orðaði það á dögunum.

Og ef Egill er nú ekki að ljúga og ekki Hulda Elsa heldur þá er í það minnsta hugsanlegt að leigubílstjórinn sé meðvirkur nauðgaravinur sem vill ekki trúa neinu óhreinu upp á Gillzeneggerinn. Það er hugsanlegt að læknar á Neyðarmóttöku séu nauðgaravinir sem gefa rangan framburð í von um að gulldrengurinn fái að halda áfram að nauðga konum óáreittur, þetta fólk hefur náttúrulega atvinnu af því að taka á móti fórnarlömbum kynferðisbrotamanna.

Það er hugsanlegt já en afskaplega ótrúlegt. Líklegast er að hlutirnir séu nákvæmlega eins og þeir líta út fyrir að vera, þ.e.a.s. að parið hafi verið kært á grundvelli upplifunar en ekki staðreynda. En skítt með frávísun, skítt með sönnunargögn, skítt með staðreyndir. Það er „upplifun fórnarlambsins“ sem skiptir máli, ekki það sem raunverulega gerðist.

Er þetta virkilega skoðun þeirra sem hrópa húrra fyrir hverjum þeim sem aftekur þann möguleika að maðurinn sé saklaus? Ekki held ég að trúin á „upplifun“ sem mælikvarða á sönnunargildi kynferðisbrots gangi svo langt. Ég held að flest þetta fólk sem nú heldur á lofti þeirri kenningu að Egill Einarsson ljúgi til um úrskurð ríkissaksóknara, langi bara alveg ofboðslega mikið til að sjá honum refsað með margra ára fangelsisdómi. Ekki af því að hann hafi nauðgað stúlku, heldur af því að hann var dónalegur við feminista.