Um daginn fékk María Lilja Þrastardóttir dálítið klikkaða hugmynd. Hélt semsé að til væru konur sem hefðu áhuga á fleiru en naglalakki og karlmönnum og datt í hug að búa til sjónvarpsþátt um önnur áhugamál kvenna. Sjónvarpsstjóri Skjás eins benti henni á að áhorf skipti miklu máli. Eða með öðrum orðum að sjónvarpsþættir sem fjalla ekki um útlit og samskipti kynjanna, séu ólíklegir til að vekja áhuga kvenna.

Þetta eru svipuð svör og J.K. Rowling fékk hjá fyrstu 8 bókaútgáfunum sem afþökkuðu Harry Potter. Bókin var talin of þung og flókin til að börn myndu lesa hana.

Þessum sömu útgefendum til undrunar kom á daginn að börn eru ekki fífl. Flest þeirra geta alveg lesið texta sem er ekki hannaður fyrir heimskingja og það sem meira er, þau njóta þess og biðja um meira.

Kannski á einhver íslenskur fjölmiðill eftir að veðja á hina brjálæðislegu hugmynd Maríu Lilju, semsagt þá að konur séu ekki fávitar. Það hlýtur þó að þurfa mikla áhættusækni til þess og kannski ekki von á að menn fari út í þessháttar tilraunastafsemi í miðri kreppu.