Ætlast menn virkilega til þess að ósmekkleg pólitík geti af sér smekklegan húmor?

Vændi verður víst seint talið fínt. Skírlífi var fundið upp til þess að tryggja ríkum körlum og voldugum einkaaðgang að konum og sú hugmynd að kona sem á kynferðislegt samneyti við marga menn sé skítug og óheiðarleg virðist ódrepandi þrátt fyrir breytta afstöðu til eignarhalds karla á konum. Verstar eru þó þær druslur sem hafa tekjur af lauslæti sínu. Það þykir mun verra að græða á kynferðislegu aðdráttarafli en félagslegri stöðu sinni, fjölskyldutengslum, pólitískum tengslum o.s.frv. enda hafa karlar í gegnum tíðina notað þær aðferðir sér til framdráttar.

Pólitískt vændi hefur alltaf þrifist á Íslandi og ekki síst í Framsóknarflokknum. Lengst af var Framsóknarflokkurinn maddama. Trygg eiginkona íhaldsins, maddama sem gaf sig út fyrir að vera frjáls og sjálfstæð en gapti upp í húsbóndann í hundslegri aðdáun og lapti upp eftir honum spekina. Hún hafði ekki gifst af einskærri ást, heldur af því að hún vildi fyrir alla muni verða maddama og það þýddi að hún varð að liggja undir Sjallanum. Og eymingja Framsóknarmaddaman sem hefur aldrei kunnað neitt annað en að vera maddama, nú er hún eiginmannslaus og hvað gerir hún þá? Jú, hún fer út á götuhorn til að húkka. Það er bara rökrétt og ekkert við öðru að búast í þessu fáræðissamfélagi.

Framsóknarflokkurinn á nefnilega mun meira skylt við mellu en Islam við hryðjuverkamenn. Auk þess eru mellur ekkert ómerkilegra fólk en pólitíkusar og ef einhver ætti að móðgast við skopmyndateiknara Morgunblaðsins, þá eru það mellurnar, fyrir að líkja þeim við þennan hugsjónalausa hentistefnuflokk. Hórur geta nefnilega vel verið hugsjónafólk. Framsóknarmaður getur það hinsvegar ekki.

Svo greyin mín hættið þessu væli. Þessi húmor afhjúpar nefnilega óþægilegan sannleika og það er það sem pólitískur húmor á að gera.

Opnumynd: Ursula Skjonnemand, Flickr