Vinur minn varð eitt sinn fyrir óþægilegri reynslu. Hann hitti konu á netinu og þau ákváðu að hittast og eiga skyndikynni. Þau hittust á veitingastað, hún lýsti fyrir honum draumi sínum um að vera tekin með valdi. Hann sagðist ekki vera neinn nauðgari, flýtti sér burt sem hraðast og hefur varla þorað að vera einn með kvenmanni síðan.

Ég held að það hafi verið mjög skynsamleg ákvörðun hjá honum að pilla sig burt. Gæti komið sterkum manni, og jafnvel karlmanni sem er hreint ekkert sterkur, í slæm vandræði að leika slíkan leik við bláókunnuga manneskju.

Hitt er svo annað mál að konan var EKKI að biðja um að láta nauðga sér. Hún var að lýsa leik þar sem nauðung er sviðsett. Leik sem á jafn mikið skylt við ofbeldi eins og nauðgun sem er leikin fyrir framan kvikmyndavél eftir handriti með fullu samþykki leikaranna. Munurinn er sá að hún vonaðist ekki til að fá Óskarinn fyrir leikinn heldur einhverskonar spennukikk.

Nauðgun á ekkert skylt við drottnunarleiki. Nauðgun er í eðli sínu það að eiga kynmök við aðra manneskju gegn vilja hennar, það er því ekki hægt að nauðga konu (eða karli ef því er að skipta) með samþykki hennar.

Til er fólk sem hefur nautn af því að vera slegið, bundið og keflað. Það eru til dæmi um fólk sem vill láta skíta á sig og singa nálum undir neglurnar á sér. Jafnvel fólk sem vill láta höggva af sér útlim. Sumt af þessu fólki er svarthært. Þ.a.l. hlýtur svarthært fólk að vilja láta beita sig ofbeldi. Eða hvað?

Ég get alveg skilið að það þurfi að útskýra muninn á alvöru ofbeldi og drottnunaleikjum fyrir grunnskólakrökkum. Ég get skilið að það þurfi að útskýra þetta fyrir fólki með Asperger heilkenni eða þroskahömlun. En að það þurfi virkilega að útskýra það fyrir fullorðnum mönnum með greindarvísitölu yfir frostmarki, að þótt til séu konur sem hafa áhuga á drottnunarleikjum þá gefi það körlum ekki leyfi til að nauðga feministum, það finnst mér með ólíkindum.

Hér með tilkynnist: Ef þú fréttir af svarthærðum einstakling sem einhverntíma hefur lýst fyrir einhverjum, draumi um að vera bundinn og keflaður, þá merkir það ekki að þú megir koma viðkomandi að óvörum og binda hann og kefla. Því síður merkir það að þú megir ráðast á hvaða svarthærða mann sem er og binda hann og kefla. Þú mátt heldur ekki eiga við konu kynferðislega nema hún hafi áður gefið upplýst samþykki fyrir því. Jafnvel þótt einhver önnur kona (eða jafnvel hún sjálf) hafi einhverntíma lýst áhuga á drottnunarleik, þá máttu ekki leika neinn slíkan leik við konu eða karl gegn vilja viðkomandi. Ekki heldur þótt hún sé yfirlýstur feministi.

Og ef þú ert ekki viss, farðu þá að dæmi vinar míns og pillaðu þig á brott hið snarasta.