Frambjóðendur til stjórnlagaþings eru 523. Karlar eru 364, konur 159.

Er feðraveldið að hindra konur í því að bjóða sig fram eða er hugsanlegt að hlutfallslega færri konur en karlar hafi áhuga á stjórnmálum?

Ég spurði um þetta á FB og fékk m.a. það svar að konur eigi erfitt með að trana sér fram og vilji ekki persónulega athygli. Það þýði alls ekki að þær hafi minni áhuga en karlar.

En ef skýringin er sú að konur taki ekki þátt í pólitík af því að þær séu feimnar eða vilji af öðrum ástæðum ekki persónulega athygli, af hverju er þá ekki allt fullt af naflausum pólitískum greinum þegar er svona rosalega auðvelt að birta nafnlaus skrif?

Önnur skýring sem ég fékk var sú að konur hefðu síður tíma til pólitískrar þátttöku en karlar því það væri svo mikið álag á þeim vegna heimilisstarfa. Þetta gengur heldur ekki upp. Karlar vinna að jafnaði töluvert lengri vinnuviku en konur. Sennilega fer meiri tími í umönnun barna og heimilisstörf hjá konum en hingað til hef ég ekkert séð sem bendir til þess að pólitísk þáttaka standi í beinu sambandi við frítíma. Það eru t.d. ekki bótaþegar sem eru mest áberandi í grasrótarstarfi og stjórnmálaumræðu.

Konur hafa að jafnaði minni áhuga á bílum en karlar. Þær hafa að jafnaði minni áhuga á hópíþróttum en karlar. Ekki vegna þess að þær verði fyrir meiri árásásum heldur af því að það er smá mismunur á menningu kynjanna og hugsanlega hefur hormónastarfsemi karla áhrif á áhuga þeirra á krafti, hraða og samkeppni. Er hugsanlegt að áhugi á pólitík, jafnvel einstökum málaflokkum sé líka missterkur hjá kynjunum?

Hver sem skýringin er þá sýnist mér nokkuð augljóst að hlutfallslega færri konur en karlar hafa áhuga á pólitík. Ég held að skýringin sé að hluta til sú að konur séu aðeins minna valdsæknar en karlar og mér finnst það ekki vera vandamál. Ég held að konur yrðu áhugasamari um samfélagsmál ef þær sæju fram á að geta haft áhrif án þess að standa í valdabaráttu.

Hættum þessvegna að reyna að þvinga fram breytt kynjahlutföll með kynjakvótum og fléttulistum. Breytum eðli stjórnmála. Hættum þessari valdabaráttu og notum aðrar aðferðir til að velja fólk í valda og áhrifastöður. Þá lagast kynjahlutföllin af sjálfu sér.