Ég hef tekið eftir því undanfarið að nokkrir moggabloggarar sjá ástæðu til að hnýta í það fyrirkomulag feministahreyfingarinnar að vera með sérstakan karlahóp, fyrir náttúrulega utan stöðugar persónulegar árásir á Sóleyju Tómasdóttur og fleiri duglegar konur.

Ég hef aldrei unnið með feministahreyfingunni sjálf, finnst sumt af því sem þær eru að gera frábært, sumt tilgangslaust og sumum viðhorfum er ég algerlega ósammála.

Mér finnst alveg sjálfsagt að halda uppi málefnalegri umræðu og gagnrýna skoðanir feminista eins og allra annarra og það hef ég sannarlega gert sjálf. Feministar hafa þó að sjálfsögðu fullt leyfi til að hafa skoðanir sem mér þykja asnalegar og ég sé ekki að mér eða nokkrum öðrum sem ekki tilheyrir hreyfingunni, komi það nokkuð við hvernig þetta fólk kýs að vinna eða hafi rétt til að segja því hverju það ætti að berjast fyrir. Það er dæmigert fyrir passíva nöldurseggi að reyna stöðugt að segja öðrum fyrir verkum en leggja ekkert á vogarskálarnar sjálfir. Þið fávitar sem leyfið ykkur að úthúða feministum fyrir að berjast gegn klámi og kynbundnum launamun í stað þess að berjast fyrir t.d. mannréttindum kvenna í Afríku (það má sjá hundruð slíkra athugasemda t.d. á vefbók Sóleyjar Tómasdóttur og Katrínar Önnu Guðmundsdóttur); drullið ykkur sjálf til Afríku og gerið eitthvað í málinu ef þið hafið svona miklar áhyggjur af ástandinu þar.

Bleikt og blátt á fæðingardeildum; mér finnst spurningin áhugaverð en sé ekki ástæðu til að sóa tíma þingsins í umræður af þessu tagi. Ég efast reyndar um að litir ungbarnaklæða skipti miklu máli. Í fyrsta lagi vegna þess að langflestir sem hafa áhrif á mótun barna í frumbernsku vita hvors kyns barnið er og hegða sér eftir þeirri vitneskju, óháð því hvernig barnið er klætt. Í öðru lagi þá voru börn af báðum kynjum klædd í hvítt á fæðingardeildum áður fyrr og ég get nú ekki séð að kynjaímyndir hafi verið neitt veikari fyrir vikið.

Óheft flæði útlendinga inn í landið skapar fleiri vandamál en það leysir. Það er einfaldlega staðreynd að Pólverjar hafa vanist öðru viðhorfi til ölvunaraksturs en við. Það er staðreynd að hugmyndir strangtrúaðra araba um heiður ættarinnar stangast á við okkar hugmyndir um mannréttindi. Það er staðreynd þeir sem hafa búið við langvarandi fátækt og kúgun skilgreina ofbeldi og jafnvel aðra glæpi á annan hátt en við. Við getum farið þrjár leiðir:

  1. Sett okkur stefnu um það hvernig við ætlum að taka á móti fólki með ólíkan menningarbakgrunn, hvernig við ætlum að kynna því skyldur þess og réttindi, hvaða viðhorfum við ætlum að sýna skilning og umburðarlyndi og hverskonar hegðun verður ekki liðin á Íslandi.
  2. Reynt að hindra komu útlendinga til landsins og/eða hrekja þá héðan með því að sýna þeim skítaframkomu.
  3. Afneitað vandanum og beðið eftir því að ástandið lagist af sjálfu sér.

Góðar stundir.

——————————-

Á þeim tíma sem þessi pistill var skrifaður gerði ég mér enga grein fyrir því hversu illa Íslendingar komu fram við flóttamenn. Í dag er ég á því að það sé ekki hægt að bregðast við mannréttindabrotum nema með óheftu flæði fólks á milli landa.