Í dag var ég handtekin. Hef ekki lent í því áður, hvað þá að hanga ein klukkutímum saman í galtómum fangaklefa og hafa ekkert við að vera. Það er samt ekkert svo hræðilegt í stuttan tíma. Eiginlega eins og að vera á spítala nema bara ekki veikur.

Reyndar var ástæðan fyrir fangelsun minni eitthvað óljós. Mér var í fyrsta lagi ekki tilkynnt að ég væri handtekin, bara beðin að setjast inn í lögreglubíl (með nákvæmlega sama orðalagi og þegar ég stoppuð fyrir meintan ölvunarakstur) og mér skötlað í grjótið án frekari skýringa. Þegar ég bað svo um skýringar, 2 tímum eftir þessa óljósu handtöku, var mér sagt að ég væri sökuð um að hafa farið inn á lokað vinnusvæði (sem ég hafði barasta alls ekki gert) og fyrir að óhlýðnast fyrirmælum lögreglu, (sem ég hafði ekki gert heldur.) Sjö tímum síðar, þegar ég var yfirheyrð um glæp minn, höfðu sakargiftir breyst, ég er sumsé sökuð um að leggja ólöglega og óhlýðnast fyrirmælum lögreglu. Dáltið spes handtaka manneskju fyrst og fara svo að pæla í hversvegna en það voru allir ósköp almennilegir í framkomu við mig. (Ekki samt við alla.)

Jamm, það er rétt til getið, ég fór að Hellisheiðarvirkjun í morgun. Tilgangurinn var sá að vekja athygli almennings á áformum um stækkun virkjunarinnar í þágu áliðnaðarins og senda stjórnvöldum þau skilaboð að þessi stækkun verði ekki keyrð í gegn án almennilegrar umræðu meðal þjóðarinnar.

Ég átti spjall við öryggiseftirlitsmann á staðnum Hann var hinn notalegasti en sagði í svona greykrakkakjánaprikintón að við værum algerlega að skjóta okkur í fótinn, þar sem Hellisheiðarvirkjun væri ekki tengd þungaiðnaði á nokkurn hátt. Hann hafnaði því algerlega að markmiðið með stækkuninni væri m.a. það að sjá Century fyrir orku. Hann var svo sannfærandi að þótt ég sé auðvitað alls ekki nógu veruleikafirrt til að trúa því að stækkunin sé öll í þágu venjulegra heimila og smáfyrirtækja, fór ég í alvöru að hugleiða hvort gæti verið að ég hefði ruglað einhverju svona harpalega saman. Ég kíkti í matáætlunina þegar ég kom heim eftir tukthússvistina og nei, ég er nú ekki komin með Alsheimer. Eftirfarandi kafli er úr þessari skýrslu:

1.3 Markmið framkvæmdar
Markmiðið með stækkun Hellisheiðarvirkjunar er að mæta aukinni eftirspurn atvinnuvega eftir raforku.

Undanfarin ár hefur raforkumarkaður á Íslandi vaxið mikið t.a.m. með stækkun álversins í Straumsvík, stækkun járnblendiverksmiðjunnar á Grundartanga og byggingu álvers Norðuráls á Grundartanga. Nú liggur fyrir viljayfirlýsing um stækkun Norðuráls og hlut Orkuveitu Reykjavíkur í rafmagnsframleiðslu vegna hennar. Til að tryggja viðskiptavinum Orkuveitunnar fullnægjandi öryggi og til að anna vaxandi eftirspurn á næstu árum er ljóst að fyrirtækið þarf að auka framleiðslugetu sína á raforku.

Eftir situr spurningin; af hverju var eftirlitsmaðurinn að ljúga að mér? Eða veit hann ekki betur?

Þessu tengt: