Eins og ég hef áður sagt frá hefi ég einstakt dálæti á störfum mannanafnanefndar og þeirri dásamlegu rökhyggju sem liggur að baki ákvörðunum hennar og lögum um mannanöfn.

Sérstaklega finnst mér vel til fundið að taka fyrir nýsköpun í nafngiftum og nöfn sem ekki falla vel að beygingakerfinu. Stúlkunafnið Apríl hefur t.d. enn ekki verið tekið á skrá. Það er náttúrulega engin ástæða til þess að fólk sé að flagga einhverri útlensku þegar vort ástkæra, ylhýra býður upp á endalausa möguleika á nýsköpun með skemmtilegum samsetningum sem verða jafnvel ennþá skemmtilegri í beygingu. Nöfn á borð við Eilífur Friður og Bjartur Dagur eru náttúrulega orðin klassísk og hver vildi ekki fá tækifæri til að nýta sér nafngiftir á borð við Lind Ýr eða senda afmæliskort til Egils Daða?

Eftir nafngiftarpælingar kunningjakonu minnar fór ég að skoða nýjustu uppfærslu á skrá yfir íslensk mannanöfn í von um að finna góð og rammíslensk nöfn á tilvonandi barnabörn.

Nokkur dæmi um drengjanöfn sem mannanafnefnd gæti ekki hafnað

Mér til umtalsverðrar armæðu hefur hið fagra karlmannsnafn Analíus verið tekið út af skrá yfir leyfð mannanöfn. Ég fæ því ekki þá ósk mína uppfyllta að fá lítinn ömmustrák með því nafni. Ég er hinsvegar búin að taka saman lista yfir önnur nöfn sem koma til greina og eru öll fullkomlega lögleg. Eftir gaumgæfilega athugun komst ég að þeirri niðurstöðu að best fari á því að synir Hauks fái nöfnin Engilbjartur Geisli og Annar Angi. Synir Darra eiga að heita Ljúfur Bambi og Ástríkur Engill. Það skulu allavega ekki verða neinir Guðjónar í minni ætt. Að öðru leyti má ólétta liðið nýta sér listann yfir þessi skemmtilegu íslensku nöfn.


Eilífur Friður -(klassiskt nafn -þyrfti að vera einn slíkur í hverri fjölskyldu)
Erlendur Lýður -(hver lamdi þig Bambi minn? -Erlendur Lýður)
Fránn Örn -(merkingin er eitt en pælið í allri skemmtuninni sem má hafa af því að reyna að fá útlending til að bera þetta fram)
Fjalar Brestir
Fylkir Sigurliði
Guðleikur Ás -(allir áhugaleikar ættu að gefa þessu nafni gaum)
Helgi Dagur
Hreinn Hljómur
Kaldi Karl
Líni Sigfastur -(ég legg til að sagnbeyging verði viðhöfð)
Ljótur Hængur
Ljótur Hreimur
Svali Blær
Sýrus Ubbi

Egill Daði -(sérlega skemmtilegt í eignarfalli)
Hilaríus Brandur Ari – (óvenju fyndið í þolfalli)
Leifur Arnar -(ætti helst að notast eingöngu í þolfalli)

Borgar Gamalíel Muni?
Gyrðir Sigríkur Vopni. -(oftast skrifað Gyrðir Sig. Vopni)

Dufgus Þrúðmar
Elínmundur Ljósálfur
Fabrisíus Leiðólfur
Guðmon Engiljón
Hárlaugur Dýri
Hildiglúmur Sólimann
Sigurmon Ráðgeir
Sjafnar Skeggi

Og hér koma svo falleg telpnanöfn

Mér til mikillar gleði sá ég að nafnið Analía er á skrá. Ég fæ sumsé barnabarn með þessu nafni eftir allt saman þótt ég viðurkenni að það hefði verið ennþá betra á dreng, t.d. Analíus Rasmus (Habakúk er því miður heldur ekki á skrá).

En hvað um það ég er búin að panta nafnið Analía á dóttur Darra. Hún verður áreiðanlega algjört rassgat. Því miður eru nöfnin Botnía og Sódóma ekki á skrá svo ég verð líklega að sætta mig við Analía Klementína í staðinn. Yngri dóttir hans á svo að heita Mist Eik. Dætur Hauks eiga að heita Lind Ýr og Ósk Ýr Saga. Hlaðgerður kæmi líka sterklega til greina.

Hér eru svo fleiri skemmtileg telpnanöfn og endilega bætið í safnið. Það eru alltaf að fæðast ný börn og um að gera að reyna að vera svolítið frumlegur svo við sitjum ekki uppi með þrautleiðinlega símaskrá sem enginn nennir að lesa.

Björt Mey
Blíða Friðsemd
Dagbjört Nótt
Dimmblá Stjarna
Hugljúf Snót
Helga Lind
Svanhvít Dúfa

Auður Árna
Skuld Snorra
Von Sölva

Engla Líf
Gógó Líf
Högna Ilmur
Odda Tala

Anna Andrá (skemmtilegt í þolfalli)
Bíbí Kría
Braga Brá
Dúa Björg? (skyldi hún búa á jarðskjálftasvæði?)
Efemía Grét
Esja Fjalldís
Finna Dóra
Fríða Rós
Grét Sumarlína?
Gróa Björg
Jóngerð Brák
Síta Njóla (Síta er ekki til með ý en þetta hljómar vissulega vel)
Vanda Sigurmunda Ögn (Oftast Ritað Vanda Sig. Ögn)

Lúvísa Teitný (ætli Níðvísa fengist samþykkt? Eða Klámvísa?)
Mjalldís Bína
Gissunn Pálhanna
Gíslrún Draumey
Guðmey Evlalía
Gullbrá Hind
Pálfríður Gestný
Randíður Sigurgeira
Símonía Margunnur

Þetta eru bara nokkrar tillögur. Ef einhver kunningja minna eignast tvíbura, strák og stelpu, viljiði þá plíííís láta þau heita Bíbí og Bamba.

Opnumynd: Pexels, Pixabay

———-
Þessi pistill var áður birtur í nokkrum hlutum í september 2005. Í dag er nafnið Apríl komið á skrá yfir leyfð nöfn. Rökin eru væntanlega þau að mannanafnanefnd sé búin að heyra það nógu oft til að finnast það ekki lengur ankannalegt.