Sumarfrí eru eiginlega alveg ágæt. Ég sit í eldhúsinu á Hámundarstöðum í Hrísey og les bók sem kom út í íslenskri þýðingu 1956, Kvenleg fegurð, eða á frummálinu Frau Ohne Alter. Höfundurinn er rússnesk-þýsk leikkona; Olga Tschechowa en bókin er þýdd og staðfærð af frú Ástu Johnsen og prýdd myndum af íslenskum fegurðardrottningum, auk mynda úr þýsku bókinni.

Bókinni er ætlað að kenna konum sem komnar eru af léttasta skeiði að viðhalda fegurð sinni. Í henni er að finna ýmis fegrunarráð svosem förðunartrix og léttar líkamsæfingar en einnig er töluvert fjallað um líkamsstarfsemi og sálarlíf kvenna á hinum skelfilega breytingaaldri.

Bókin er myndskreytt, bæði með ljósmyndum og teikningum en ekki kemur fram
hver teiknarinn er og ljósmyndara er heldur ekki getið.

Sahara-auðnin og hin eðlislæga hégómagirnd

Lífeðlisfræðilegum einkennum breytingaskeiðsins er þannig lýst:

Þessi ókyrrð á vakajafnvæginu orsakar ný einkenni, sem oft eru næsta ofsaleg, einkum hitakóf af sálrænum áhrifum um daga, svitaköst um nætur, og að auki ákaft svefnleysi, kuldaköst og matarlöngun, svo að um hreint ofsahungur er að ræða, suðu fyrir eyrum, grátköst og greinilegan skort á sálarjafnvægi. Þegar svo er ástatt fyrir konunni, þarfnast hún ekki síður umhyggju, blíðu og umburðarlyndis en Sahara-auðnin vatns.

Að vísu hefur konan engu að kvíða þar sem breytingaskeiðið er aðeins hluti af eðlilegri hringrás náttúrunnar. Um eða upp úr 45 ára aldri hefst síðsumar og haust æviskeiðsins og konan hefur ennþá fullt starfsþrek og getur notið kynlífs en samkvæmt höfundi bókarinnar töldu margar konur að kynlíf væri bara úr sögunni við tíðahvörf. Konan á því að líta þetta tímabil ævi sinnar (sem annars er lýst sem hinum mesta hryllingi) björtum augum og njóta þess að vera komin til nokkurs þroska. Engu að síður mun þetta skeið, auk líkamlegra hrellinga, einkennast af mikilli hugarangist því:

Kona á breytingaaldri hefur fyrirfram tilhneigingu til að finnast, að hún sé grátt leikin vegna fordildar kveneðlisins. Ef kona þrætir fyrir að hún sé hégómleg, þá afneitar hún kyni sínu. Fyrstu landkönnuðirnir, sem brutust gegnum ókönnuð héruð Afríku, höfðu meðferðis, allskonar góða og nytsama hluti, sem þeir ætluðu að gefa hinum svörtu, villtu íbúum til að kaupa vinfengi þeirra. En það eina sem konur blámanna höfðu verulegan áhuga fyrir, var lítill spegill, aðeins sex aura virði. Hann var dásamlegasti hlutur sem þær höfðu séð, og þær voru fúsar til að gefa þrjú sláturdýr fyrir slíka gersemi.

Hégómagirnd, nafn þitt er kona, Það á einnig við í hinni góðu merkingu, því að hin eðlilega hégómagirnd á að vera eitt af öruggustu ráðunum til að berjast gegn of mikilli matarlöngun, er gerir sérstaklega vart við sig á breytingaárunum.

Í framhaldi af þessu er svo fjallað um tilhneigingu kvenna á þessu hræðilega skeiði, til þess að öfunda yngri konur, sem njóta karlhylli. Helsta ráðið gegn öfundsýki og vanmetakennd er auðvitað að halda sér vel.

Hér er orðatiltækið „haldið sér vel“ notað af ásettu ráði, því ef sagt væri „vel við haldið“, þá væri það því líkast að talað væri um bifreið. […] – það er mjög  mikilvægt að þær haldi sér vel og komi vel fyrir, en glæsilegasta útlit nýtist ekki til fulls, ef þess er ekki einnig gætt að halda sér vel hið innra – þá fyrst er konunni óhætt.

Lítið fer þó fyrir umfjöllun um það hvernig konan eigi að sinna hinu innra viðhaldi, svona fyrir utan það að vinna stöðugt að fegurð sinni og framkomu.

Hér er fjallað um tískufyrirbæri sem mun hafa verið á undanhaldi 1956

Men Only …

Það skemmtilegasta við bókina er þó önnur bók sem ekki virðist tengjast angist breytingarskeiðsins og kvenlegri fegurð að ráði. Í upphafskafla Kvenlegrar fegurðar er vitnað í bókina Men Only …,  eftir ónafngreinda konu, sem sögð er „hyggin, reynd og dáð“. Kaflinn sem vitnað er í fjallar um duttlungakenndar kröfur karlsins til konunnar. Hann er aldrei ánægður; hún er ýmist of upptekin af útliti sínu eða ekki nógu vel til fara, ef hún drekkur jafn mikið og hann ásakar hann hana um eyðslusemi en ef hún gerir það ekki er hún dauðyfli, o.s.frv. Um þetta segir höfundur Kvenlegrar fegurðar:

Kona sem getur skrifað þannig, hefur sannarlega drepið á ýmislegt af eðli mannsins með hinum hárbeitta penna sínum, en hún hefur einnig tvímælalaust verið með flís úr töfraspeglinum í auganu og það er ekki gott fyrir heilbrigða þróun hinnar innri fegurðar, svo mikið er víst.

Lokakafli bókarinnar ber fyrirsögnina Aðeins fyrir konur, og er konunni uppálagt að sýna engum karlmanni þann kafla. Ekki fylgja þó leiðbeiningar um það hvernig banna megi karli að kynna sér þann kafla sérstaklega. Hinsvegar er kennt einfalt trix til þess að landa karlmanni, galdurinn er sá að gera hann hóflega afbrýðisaman. Konan má þó ekki undir neinum kringumstæðum hafa frumkvæði í ástamálum – frekar en öðru:

Í afstöðu sinni til karlmannsins verður konan sýknt og heilagt að gæta þess að vera hin undirgefna vera. Það skiptir í raun engu máli hvort þér eruð það eða ekki. Jafnvel hin hyggna kona þorir ekki að sýna yfirburði sína nema á tvennum vígstöðvum – fegurðarinnar og matargerðarinnar.

Ekki er annað að sjá en að þetta sé sagt í alvöru og því kemur nokkuð á óvart að  bókin endar á fremur kaldhæðnislegri tilvitnun í ónafngreinda „reynda konu“:

„Karlmaðurinn er alls ekki venjuleg manneskja, eins ég þér og ég – hann er hetja, hálfguð, og andi hans er sennilega svo stórfenglegur, að við komumst hvergi nærri honum. Þér skuluð alls ekki hætta yður út í rökræður við hann, því að þótt hann viti ekki „nákvæmlega“ um alla hluti veit hann þó meira en þér og ég.“

Þótt það komi ekki fram vaknar óneitanlega grunur um að þessi tilvitnun sé úr hinni sömu bók og vísað var til í inngangskaflanum, Men Only ...

Það er áhugavert að höfundur sem álítur hégómleikann helsta einkenni konunnar og fegurð hennar hina æðstu dyggð, skuli jafnframt vera slefandi af hrifningu yfir feminískum rithöfundi. Maður gæti skilið það ef hún teldi aðeins að konan gæti nýtt sér yndisþokka sinn til þess að ná undirtökum í valdabaráttu við karla en sú skýring virðist ósennileg í ljósi þess að fremur miðaldalegar hátternisreglur eru settar fram, án þess að örli á háði. Konan á að tala lágt og sýna hógværð og góðvild í öllum aðstæðum Hún á umfram allt að vera kurteis en um leið á hún að vera of sjálfsörugg til þess að láta á því bera hvað hún er ánægð með útlit sitt. Háttvísin á að ná til allra sviða tilverunnar:

[Kurteis kona] leyfir engum, ekki einu sinni unnusta sínum eða eiginmanni, að auðsýna sér ástaratlot, í annarra viðurvit. Gætnin er sönnun þess, að hún hefur hlotið gott uppeldi, og það eykur tign hennar. Og ef hún stígur dans, vefst hún ekki utan um dansfélaga sinn eins og vafningsviður, er reynir af örvilnunarskelfingu að ná taki sínu.

Svefn ku vera mikilvægur á breytingaskeiðinu og er konum sem eiga við svefnleysi að stríða ráðlagt að setja pund af kamillutei í vatnsfötu láta standa í sólarhring og setja svo blönduna í baðvatnið. Þetta á að lækna langvarandi svefnleysi en allajafna á matskeið af hunangi eða eitt epli fyrir svefninn að nægja.

Það er engu líkara en að höfundur hafi skrifað bókina í þeirri einlægu trú að konum fari best að vera undirlægjur karla  en kynnst feminískum höfundi rétt áður en bókin kom út og ekki getað stillt sig um að skella tilvitnunum í inngangskafla og niðurlag. Nýuppgötvaður kvenfrelsisáhugi ristir þó ekki nógu djúpt til þess að hún geti höfundar Men Only … (nema þýðandinn hafi ekki talið vert að hafa nafnið með.)

Nú langar alveg óskaplega mikið að vita hver sú „hyggna, reynda og dáða kona“ er sem skrifaði Men Only … Hún virðist öllu meira hressandi en Olga Tschechowa og gæti hugsanlega hafa slegið tóninn fyrir Valerie Solanas þótt þau brot sem birt eru í bókinni komist ekkert nálægt því botnlausa karlhatri sem einkennir SCUM. Nema það sé Ásta Johnsen sem hefur lesið Men Only … og viljað koma boðskapnum að? Frúin mun hafa bætt nokkrum köflum inn í þýðinguna án þess að auðkenna þá sérstaklega.

Ef einhver lesenda getur leitt mig í sannleika um höfund bókarinnar Men Only … eru ábendingar vel þegnar.