Yfirlýsing vegna fánabrennu

Kallað hefur verið eftir skýringum á því tiltæki að brenna tyrkneska fánann framan við Utanríkisráðuneytið síðasta miðvikudag.

Í fyrsta lagi er ástæða að vekja athygli á því að í íslenskum lögum eru ákvæði sem gera það refsivert að móðga þjóðhöfðingja og vanvirða þjóðfána. Í öðru lagi er ástæða til að beina sjónum að pólitískum og viðskiptalegum tengslum Íslands og Tyrklands. Í þriðja lagi bera tyrknesk yfirvöld ábyrgð á hvarfi eða dauða Hauks Hilmarssonar og yfirvöld hafa ekki beitt neinum pólitískum þrýstingi til þess að komast að afdrifum hans heldur koma þau fram eins og tyrknesk stjórnvöld séu einhverskonar samherjar okkar í leitinni að honum.

 

Daginn eftir að einhver hættulegasti fasisti veraldar fékk alræðisvald í heimaríki sínu, undirritaði Íslenska ríkið viðskiptasamning við hið sama ríki. Um er að ræða ríki sem ber ábyrgð á stríðsglæpum og margháttuðum mannréttindabrotum allt frá pyntingum til þeirra mannréttindabrota sem felast í því að leyna afdrifum Hauks Hilmarssonar fyrir fjölskyldu hans. Þetta er því tilvalinn timi til þess að láta reyna á þessi móðgunarlög, sem ganga augljóslega í berhögg við tjáningarfrelsisákvæði stjórnarskráinnar og Mannréttindasáttmála Evrópu.