Umræðan um hetju ársins

Hildur Lilliendahl var valin „hetja ársins“ hjá DV. Sú niðurstaða endurspeglar ekki álit lesenda DV heldur náðist hún með herferð aðdáenda sem hafa „lækað“ mörghundruð sinnum, fengið atvinnumenn til að „læka“ eða annarskonar svindli.

Netheimar loga og ég hef séð marga tjá sig um það hvað hún hafi fengið mikið ógeð yfir sig á kommentakerfinu.

Ég sá tvö ógeðskomment í morgun og tilkynnti annað en leit svo aftur á þetta í kvöld. Ég nennti ekki að lesa nema 340 komment. Fimm þeirra voru ekkert annað en persónuníð en annað sem ég sá er algerlega innan markanna. Nokkrum finnst þetta annað hvort hlægilegt eða segjast hafa ælt. Flestir eru hneykslaðir á því hvaða merking er lögð í orðið „hetja“ eða þá að þeim finnst grunsamlegt að ein manneskja hafi fengið mörg þúsund læk á hálftíma.

Það þarf ekki að koma neinum á óvart að þessi niðurstaða veki hörð viðbrögð. Sumir nota umræðukerfin til að tjá hamslausa andúð með öllum þeim ósmekklegheitum sem þeim koma í hug. Sumum sárnar að þeir sem þeir telja verðugri skuli ekki hafa hreppt heiðurinn. Aðrir eru bara ósáttir við það hvernig orðið „hetja“ er notað. Og svo eru þeir sem telja að skýringin á þessu sé sú að vinir Hildar hafi legið á læk takkanum síðasta hálftímann og taka geðillskuna yfir því út á Hildi en ekki DV.

Hvaða komment eru það sem þykja svona niðrandi? Erum við að tala um innan við 2% ummæla eða finnst fólki það svona hneykslanlegt að lýsa vanþóknun sinni á þessari niðurstöðu?