Ummæli vikunnar

Helsta hitamál vikunnar var vopnaburður lögreglu á fjölskylduskemmtunum. Skoðanir stjórnmálamanna og ríkislögreglustjóra  hafa varla farið fram hjá neinum en mig langar að vekja athygli á eftirfarandi ummælum sem birtust á Facebook í vikunni.

Birna Gunnarsdóttir
Hvernig virkar þetta aftur? Þegar ég sé vopnaða löggu á ég þá að vera róleg og þykjast ekki muna að Breivik var dulbúinn sem lögreglumaður? En vera hrædd þegar ég sé brúnt fólk?

 

Svavar Knútur Krisinsson
Múslimahatarar hamra oft á þeirri lygi að yfir 30% múslima þyki dráp á saklausu fólki réttlætanleg, svo framarlega sem það sé ekki múslimar.

Við skulum samþykkja þessa ógeðslegu lygi í fimm sekúndur, bara til að íhuga þessa staðreynd:
Vestræn stjórnvöld drepa margfalt fleiri saklausa borgara í hverri viku með drónaárásum og sprengiherferðum heldur en íslamskir hryðjuverkamenn ná að drepa á ári á vesturlöndum.

Hryðjuverkarmennirnir starfa ekki í umboði almennings í sínum heimalöndum, heldur þvert á það. Drónaárásir og önnur ríkisstudd hryðjuverk eru hins vegar í fullu umboði almennings, samþykktar af meirihluta íbúa landa eins og Bandaríkjanna, þar sem ríkisstjórnir starfa í ríkulegu og yfirlýstu umboði kristinna gilda. Svona ef menn ætla að fara í typpamælingakeppni á hver er besti terroristinn, sem mér er þvert um geð, þar sem mér finnst öll hryðjuverk glötuð. Það gerir terrorisma samt ekkert betri að hann sé í umboði lýðræðislega kjörinnar ríkisstjórnar. Það gerir hann eiginlega verri. Það gerir kjósendur viðkomandi lands samseka í honum, en ekki bara nokkra drullusokka.

En að sjálfsögðu er svona hugarleikfimi fáránleg, þar sem tölur um að 30% múslima samþykki hryðjuverk eru dregnar upp úr hinni eilífu heimildaskrá sem er rassgatið á viðkomandi.

 

Helga Völundar Draumland
Þetta er alvöru klám! Ofbeldisklám þar sem hörmungar í heiminum eru notaðar til að fá tækifæri til að bera vopn ofan í fjölskylduhátíð.

 

Lára Hanna Einarsdóttir

Skelfilegasta setningarbrotið í kvöldfréttunum var: „Ríkislögreglustjóri hefur ákveðið…“. Samkvæmt orðum hans í þessari frétt byggir hann ákvörðun sína á útlendingahræðslu, rasisma og fasisma og ýtir þannig undir þau ógeðfelldu öfl í samfélaginu sem vilja loka landinu og breyta því í fasískt lögregluríki.

Þessi uppstrílaði hrokagikkur, sem enginn hefur kosið til valda, á ekkert með að breyta grunngildum íslensks samfélags fyrirvaralaust, án umræðu eða undangenginnar aðkomu kjörinna stjórnvalda og tillits til vilja almennings í landinu.

Hvar eru mótmæli alþingismanna? Hvar er andstaða þeirra og fordæming? Hrópa þeir ekki nógu hátt?

 

 

 

Sigurður G Tómasson

Held að það sé rétt að aflýsa hátíðahöldum 17. júní vegna hættu á slysaskotum.

 

Einar Andskoti
Hver skyldi verða hræddastur ef allir mættu vopnaðir á 17 júní?

 

Svandís Nína Jónsdóttir
Já. Mér finnst það bara mjög, mjög óþægilegt. Ég myndi missa gleðina í hvert sinn sem ég sæi vopnuðum sérsveitarmanni bregða fyrir og hugsa sem svo: já, það má ekki gleyma því að ég gæti sprungið í tætlur á hverri stundu. Best að gúffa í sig kandíflosið í einum grænum og drífa sig heim í öryggið í Hafnarfirði. Enn verra þætti mér þó að vera með litlu barni sem myndi hlaupa til eins sérsveitarmannsins og tala við hann. Mun sá hinn sami banda barninu frá sér (eins og í USA) eða beygja sig niður og hlæja með því? Og hvað þá? Ef ég er raunverulega í hættu þá mun enginn sérsveitarmaður undir sólinni fá mig til að valhoppa um strætin og skemmta mér.

 

Aðalsteinn Guðlaugur Aðalsteinsson
Að búa til hættuástand eða nýta sér raunverulegt hættuástand til þess að ýta lýðræðinu til hliðar og ná pólitískum markmiðum sínum, er sérgrein fámennishópa sem ætla sér að auka vald sitt.

 

Margar færslur til viðbótar um þetta efni eru þess virði að hafa þær eftir en ég kann ekki við að birta aðrar færslur en þær sem eru öllum opnar. Ég læt öðrum eftir að dreifa málflutningi þeirra sem eru hallir undir fasisma eða hafa fallið fyrir þeim stofnanarasisma sem endurspeglast í málflutningi Haraldar Johannessen.