Þú snýrð bara út úr

Vond umræða einkennist af kappræðutækni sem miðar að því að þagga niður í andstæðingnum með óheiðarlegum aðferðum.

Þeir sem ekki hafa vitsmuni til að halda uppi tækri rökræðu eða skortir manndóm til að viðurkenna að þeir þurfi að endurskoða hugmyndir sínar, snúa gjarnan út úr orðum andstæðingsins og beita ýmsum rökvillum til að forðast því að takast á við upphaflegu forsendurnar. Þegar andstæðingurinn afhjúpar veikleikana í rökfærslunni er gripið til ráða á borð við persónulegar árásir, að draga eitthvað óviðkomandi inn í umræðuna eða að kæfa hana í gögnum sem varpa litlu ljósi á málið eða koma því jafnvel ekki við. Eitt trixið (ég veit ekki hvort er til fræðiorð yfir það en þigg upplýsingar) er að svara málefnalegum rökum með frasanum „þú snýrð bara út úr“ enda þótt ekki sé um neinn útúrsnúning að ræða. Þegar beðið er um skýringar á því í hverju útúrsnúingurinn felist er því ýmist ekki svarað eða þá að svarið er út í hött.

Útúrsnúningur felur það í sér að andmælandanum eru gerðar upp skoðanir. Orð hans er mistúlkuð (með vilja) eða tekin úr samhengi. Einnig er vinsælt að pikka út eitthvert smáatriði og gera það að aðalatriði. Ein tegund útúrsnúnings felst í því að halda því fram að viðkomandi sé að bera saman eitthvað allt annað en liggur í orðum hans. Það er ekki útúrsnúningur að

Það er yfirleitt auðvelt að afhjúpa þá sem beita útúrsnúningum bara með því að spyrja hvar sagði ég það? eða hvernig lestu það út úr orðum mínum? Það er dálítið snúnara að eiga við þá sem saka mann um útúrsnúning þegar maður hefur ekki snúið út úr einu eða neinu. Yfirleitt er þó hægt að afhjúpa þann sem beitir þessu bragði með því að biðja hann að staðfesta að maður hafi skilið upphaflegu forsenduna rétt.