Þarf að taka mark á kjósendum?

Theresa May bað um skilaboð um afstöðu kjósenda til Brexit. Hún fékk skýr skilaboð en ekki þau sem hún bjóst við þegar hún boðaði til kosninga. Hún ætlar ekki að stíga til hliðar þrátt fyrir það, vilji kjósenda skiptir ekki máli nema þegar það hentar henni.

Theresa May situr áfram en dvínandi vinsældir hennar eru engu að síður fagnaðarefni, ekki bara vegna skilaboðanna um Brexit, heldur ekki síður vegna ógeðfelldra skoðana hennar og þá á ég ekki síst við stefnu hennar í innflytjendamálum. Ég átti allt eins von á því að hún myndi græða á óttanum og útlendingaandúðinni sem alltaf tekur kipp í kjölfar hryðjuverka en það gerðist ekki. Það segir okkur að þrátt fyrir eðlilegan ótta við voðaverk eru blessunarlega fáir Bretar tilbúnir til þess að fórna mannréttindum fyrir stríð gegn hryðjuverkum.

Það er annars athyglisvert hversu algengt það er að þeir sem eiga allt sitt undir vilja kjósenda taki ekki mark á kjósendum. Nýlegt dæmi frá Íslandi eru ummæli oddvita Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík um niðurstöðu fylgiskönnunar flokkanna. Könnunin kom ekki nógu vel út fyrir Sjálfsstæðisflokkinn en ekki stóð á skýringum hjá Halldóri: Kjósendur vita bara ekki hvaða flokkar stjórna borginni. 

Ég er ekkert frá því að það geti verið rétt að kjósendur séu upp til hópa vitleysingar. Og lýðræðið er ekkert frábært, það er bara það illskársta sem við þekkjum. En það er tvískinnungur að syngja lýðræðinu lof og tala um vilja kjósenda þegar hann fellur manni í geð en hundsa vilja kjósenda og/eða afgreiða skilaboð þeirra sem merki um fáfræði þegar kosningar eða skoðanakannanir fara á annan veg en maður óskaði.  Engin manneskja kemst í gegnum lífið án þess að gera sig seka um hræsni og sjálfshygli. Það er óraunhæf krafa að þeir sem oft tjá sig á opinberum vettvangi séu ævinlega sjálfum sér samkvæmir. En það er hægt að ætlast til þess af stjórnmálamönnum að þeir leggi sig sérstaklega fram um að forðast tvískinnung í viðbrögðum sínum við niðurstöðum kosninga. Theresa May gerði það ekki. Vonandi verður það henni að falli.