Telur Sveinbjörg að Rússneska réttrúnaðarkirkjan sé ekki kirkja?

forget-to-mention-morons_o_863318Sveinbjörg Birna Sveinbjörnsdóttir, oddviti lista Framsóknar og flugvallarvina sagði í beinni útsendingu í Ríkisútvarpinu núna áðan að það hefði ekki verið stefna Framsóknarflokksins að koma í veg fyrir moskubyggingu í Reykjavík, heldur hefði hugmyndin komið upp eftir að borgarbúar hefðu lýst andstöðu sinni við moskuna.

Þetta samræmist ekki því sem Guðrún Bryndís Karlsdóttir sagði frá í grein sinni á Kvennablaðinu þann 28. síðastliðinn en þar greindi hún frá því að eftir að hún sjálf hefði tekið 2. sæti á framboðslista Framsóknar,  hefði henni verið tjáð að eitt af verkefnum þeirra sem kæmust í borgarstjórn væri að koma í veg fyrir að moska risi í Reykjavík.

Sveinbjörg Birna sagði einnig að málið snerist ekki um mosku heldur um það hvort borgin gæfi trúfélögum lóðir, hún vildi því setja lóðir til annarra trúfélaga en kirkna í atkvæðagreiðslu enda næði lagaákvæði um lóðaúthlutanir eingöngu til kirkna.

Nú hefur Sveinbjörg einnig látið hafa eftir sér að hún vilji láta kjósa um úthlutun til Rússnesku réttrúnaðarkirkjunnar. Þetta vekur eðlilega spurningu um það hvort oddvitinn skilgreini rússnesku réttrúnaðarkirkjuna sem eitthvað annað en kirkju eða hvort henni finnist í lagi að brjóta lög þegar Rússneska réttrúnaðarkirkjan eigi í hlut. Öllu sennilegri verður að teljast sú skýring að þetta sé aum tilraun til þess að hvítþvo sig af augljósum rasisma.