Sonur minn Byltingamaðurinn

Þessar hugleiðingar birti ég á blogginu mínu 12. september 2003

Sonur minn Byltingamaðurinn ætlar að verða Che Guevara þegar hann er orðinn stór. Honum eru nú sprottin 5 skegghár og fátt þykir honum skemmtilegra en mótmælagöngur. Hann er harmi sleginn yfir neysluhyggju móður sinnar sem telur sig þurfa að eiga fleiri en 4 matardiska fyrir 3ja manna hemili og álítur að sófagarmur á fertugsaldri sé ónýtur, bara af því að botninn er dottinn úr honum. Slík viðhorf þykja syni mínum Byltingamanninum bera vott um spillingu.

Í hans huga eru eingyðistrúarbrögð aðferð myrkraverkamanna veraldarinnar til að kúga og heilaþvo einfeldinga og halda almenningi í fátækt og fáfræði. Og það er sennilega heilmikið til í því hjá honum þótt framsetning þessara hugmynda sé ungæðisleg á köflum. Samt sem áður eru fá kvæði sem hrífa hann jafn mikið og Lilja, og þegar hann syngur:

fyrirlátið mér faðirinn sæti
fyrirlátið mér eg vil gráta

veit maður ekki almennilega hvort það er fullkomleiki skáldskaparins eða trúarþörfin sem veldur því að andrúmsloftið í kringum hann verður þykkt af angurværð.

Byltingin ólgar í æðum hans. Hugarheimur hans hefur svosem ýmsa afkima en á stóra sviðinu fer fram heilagt stríð gegn óhamingju veraldarinnar sem hann skrifar ýmist á alheimsstjórn Bush Bandaríkjaforseta, almenna neysluhyggju Vesturlandabúa eða útsendara Landsvirkjunar sem hvísla í hjörtum mannanna. Síðustu vikurnar hefur hann samt sem áður stöku sinnum nefnt Kárahnjúkavirkjun á nafn án þess að froðufella af heilagri reiði og hann ræðir æ sjaldnar áætlanir sínar um að sprengja stífluna í loft upp og ráða forkólfa Landsvirkjunar af dögum.

Áhugi hans á skógrækt hefur ekki dvínað og Garðyrkjuskólinn er ennþá inni í myndinni en af og til nefnir hann samt möguleikann á því að fara í Háskólann. Kannski finnst honum líklegra að þar finni hann félaga sem eru til í að liggja með honum í hláturkrampa yfir einhverju spaugilegu atviki úr fornsögunum og rölta með einhverri mótmælagöngunni þegar verðrið er skaplegt.

Þegar strákarnir mínir voru litlir sat ég við rúmin þeirra þegar þeir voru sofnaðir, bara til að horfa á þá sofa. Ég geri það auðvitað ekki lengur. En nú kemur fyrir að ég vakna upp úr miðnætti með son minn Byltingamanninn á rúmstokknum þvi þegar maður er ungur, liggur manni stundum svo mikið á hjarta að það þolir alls ekki að bíða til morguns. (Þess vegna skapaði guð einhleypar konur, til þess að ungir menn hefðu rúmstokk til að setjast á þegar þeim verður mikið niðri fyrir um miðjar nætur.)

Eina nóttina vaknar maður svo við léttan koss á gagnaugað og hvísl í eyra:
– Mér þykir töluvert vænt um þig mamma litla, og áður en maður nær að spyrja um erindið er hann farinn.

Þá vissi ég að hann var orðinn fullorðinn og það er ekki eins sorglegt og ég hélt. Í rauninni er það hreint ekkert sorglegt því börnin hætta ekki að þarfnast manns þótt byltingarólgan í blóði þeirra hjaðni.

Og nú veit ég að þegar ég verð gömul, mun hann aftur setjast á rúmstokkinn hjá mér.

Bara til að horfa á mig sofa.