Óorð

-Finndu nafnorð sem byrjar á ó, sagði Lærlingurinn.
Mér vafðist tunga um tönn. Nóg til af ó-orðum en þau sem komu fyrst upp í hugann voru lýsingar- og atviksorð og oft var ó-ið bara forskeyti. Ósama. Ég reiknaði ekki með að hann ætti við sérnafn. Ósómi, ótti, ógn, ósk, órar… Ég var viss um að hann væri að leita að hlutstæðu orði en flest ó-orð virtust tilfinningaþrungin.
Órangútan? sagði ég hálf vandræðaleg.

Við skimuðum í kringum okkur í eldhúsinu.
-Það hlýtur fjandakornið að vera eitthvað hérna inni sem byrjar á ó, sagði ég.
Ólívur, sagði Lærlingurinn eftir nokkra leit.

Leituðum áfram og við allt þetta Ó! hlýtur Snorri Hjartarson að banka upp á:

Það gisti óður
minn eyðiskóg
er ófætt vor
bjó í kvistum

Ólívur, órangútan, ópal, ónix, -rosalega er þetta allt útlenskulegt.

Áttaði mig allt í einu á því að sá sem er ekki ódámur, hlýtur þá að vera dámur. Hef ekki verið meðvituð um það hingað til en set orðið dámur á lista yfir verðandi eindir í virkum orðaforða mínum.

Meðal fyrstu orða sem ég lærði að lesa var orðið ól. Ari á ól, eða einhvern álíka vísdóm. Ól. Ekki spennandi orð. Þau hljóta að vera fleiri. Fann að lokum ós. Ég hlýt að geta gert betur, það er á mörkum þess að vera hlutstætt.

Ég ákvað að finna minnst 30 ósamsett, hlutstæð, íslensk nafnorð sem byrja á ó og eru ekki sérnöfn, áður en ég liti í orðabók. Annað hvort er ég með meinloku eða þá að þau eru ekki svo mörg.

ól, ós, ónn, 

ómur, ósk, óttubil, -ósnertanleg fyrirbæri

óskasteinn, óðjurt, órói -ó-ið kemur frá óhlutstæðu orði

órangútan, ólívur, ónix, ópal, ópíum, ópera, -óíslensk

ódámur, ónytjungur, ómynd -forskeytt

Getur verið að Ó sé óhlutstæðara en önnur hljóð?

 

 

1 thought on “Óorð

 1. Tjásur

  ég samdi einu sinni verk við þetta ljóð, það er æði. (ljóðið, sko)

  Posted by: hildigunnur | 12.04.2007 | 17:12:53

  ———————————————

  ónáttúra, Óspakseyri, Ófelía, órar, ógeð, ógleði, ónærgætni, óp…

  er heldur ekki búin að kíkja í orðabók, þetta er skemmtilegt:)

  Posted by: baun | 12.04.2007 | 19:19:19

  ———————————————

  Sorrý Baun, ekkert þessara orða uppfyllir skilyrðin, tvö sérnöfn og restin er óhlutstæð.

  Posted by: Eva | 12.04.2007 | 19:56:20

  ———————————————

  ó! ég var nú bara að finna orð sem byrja á ó.

  Posted by: baun | 12.04.2007 | 22:02:53

  ———————————————

  Orðið ógeðisgaur er eitt af mínum uppáhalds orðum. Það eru gaurarnir sem xxxx xxx aftan frá með augunum áður en þeir bjóða góðan daginn. Veit þetta uppfyllir ekki öll skilyrðin þín en ég vildi gjarnan fá þetta viðurkennt sem almennilegt íslenskt nafnorð.

  Posted by: Bogga | 12.04.2007 | 23:18:14

  ———————————————

  ómagi

  Posted by: baun | 13.04.2007 | 9:07:54

  ———————————————

  Ó-magi. Forskeytt.

  Posted by: Eva | 13.04.2007 | 10:48:36

  ———————————————

  hvernig er þetta orð hugsað, veistu það?

  Posted by: baun | 13.04.2007 | 10:54:00

  ———————————————

  óskabrunnur (hálfhlutstætt að minnsta kosti), ómar=land (ekki sjór) ómar=frískt hold (ómarið)

  … mátti til með að spinna smá óskapnað 🙂

  Posted by: Hugskot | 13.04.2007 | 11:14:18

  ———————————————

  ó-magi merkir að magi hans er öðrum til óþurftar og byrði, sbr. ómegð.

  ósk er óhlutstætt og óskabrunnur gengur því ekki.

  ómar er forskeytt

  Posted by: Eva | 13.04.2007 | 13:15:38

  ———————————————

  Varðandi dáminn:

  Hver dregur dám af sínum sessunaut

  Eina notkunin sem ég man eftir

  🙂

  Posted by: Ódámur | 14.04.2007 | 0:08:13

  ———————————————

  „Nú dámar mér ekki“ hlýtur að merkja það sama og nú „ódámar mér“

  Posted by: Eva | 14.04.2007 | 8:59:38

Lokað er á athugasemdir.