Oh þessar túristur

Ég heyri svo oft sögur af konum sem eru afgreiddar með því að spyrja hvort þær séu á túr. Ég hef aldrei svo ég muni orðið fyrir þessu sjálf. Ég væri til í að borga mun hærri upphæð en sem svarar bindum og töppum til að losna við þetta helvíti.

Ég heyri konur tala um að þær verði fyrir dónaskap, aulahúmor og því að ekki sé tekið mark á þeim vegna kynferðis þeirra. Ég verð hinsvegar mjög sjaldan fyrir þessu sjálf (og þá helst þannig að það þyki krúttlegt að lítil kona rífi kjaft, sem fer vissulega í taugarnar á mér) og ég velti því fyrir mér hvort sé eitthvert gap milli upplifunar og raunveruleika.

Ég heyri karla líka tala um að það sé útilokað að vita hvað konur vilji og þeir þori varla að sýna svona séntilmennsku eins og að opna dyr fyrir konu eða borga reikninginn á veitingastað. Ég þekki hinsvegar enga konu sem tæki því illa, svo mér dettur helst í hug að þeir hafi meiri áhyggjur af þessu en efni standa til eða séu jafnvel að nota sjálfstæðisbaráttu kvenna sem afsökun til að vera durtar.

Ég efast um að þeir sem ég umgengst séu öðru fólki siðaðri. Ég virðist verða fyrir minni dónaskap en þær konur sem tjá sig um kynjaátök opinberlega. Hugsanlega er skýringin sú að ég held upp á gamla, góða húsráðið; að verða bara stjörnuvitlaus ef mér ofbýður. Önnur skýring gæti verið sú að margar konur mikli fyrir sér svona skítapillur og telji sig heyra þetta og annað eins oftar en raun er á.