Múrinn

Þennan texta skrifaði ég við lag eftir Begga bróður minn. Sem hefur ekki verið gefið út og líklega ekki verið flutt opinberlega.

Ramman saman reistum við
þennan rauða múrsteinsvegg.
Á þeim múr var ekkert hlið
af sér stóð hann storm og hregg.

Milli okkar múrinn stóð
þessi mörgu ár sem runnu í tímans lind.
Ég skrifaði á hann skrýtin ljóð
þú skreyttir hann með undarlegri mynd.

Einhvern daginn sproti spratt
út úr sprungu veggnum í.
Og glufur tóku að gliðna  hratt
þegar glóði vorsól hlý.

Við höfum aldrei um það spurt
hvort ættum kannski að vinna því í mót.
Nú vex í múrnum vafningsjurt
og úr veggnum hrynur stöðugt meira grjót.