Íkorninn sem safnar forða til vetrarins

Þegar ég var fimmtán ára gengu allar stelpur með stutta, ljósa trefla og í gallabuxum. Nema ég. Ég klæddist víðum buxum, sítrónugulum, vínrauðum eða skærblágrænum og gróf upp ógnarlangan, svartan trefil með rauðum dúskum, sem móðir mín hafði notað á sínum sokkabandsárum.  Þann trefil bar ég við öll hugsanleg tækifæri, ekki bara af því að mér fannst hann flottur – þetta var ekki síður einhverskonar yfirlýsing. Ég veit ekki almennilega hverju ég var að mómæla en ég taldi sjálfri mér trú um að ég væri að ögra einhverju eða einhverjum með eilítið sérviskulegum klæðaburði.  En þessi útgangur var það byltingarkenndasta í fari mínu. Ég var að vísu skeptísk á tilvist almættisins og hefði viljað meira valfrelsi í námi en það hvarflaði ekki að mér fyrr en mörgum árum síðar að það væri eitthvað athugavert við ríkið og aðrar stofnanir þess eða að þau viðmið og gildi sem ég ólst upp við þörfnuðust endurskoðunar.

Ég hafði engar áhyggjur af því þegar Óttarr Proppé settist á þing. Mér datt heldur ekki í hug að hann myndi gera neitt áhugavert. Ég ranghvolfdi augunum undir íkornaræðunni og sagði sem svo að hvað sem öllum rössum liði væri Óttarr sennilega álíka byltingarsinnaður og ég var á sextánda ári nema mínar brækur voru þó allavega skærgular. „Það róttækasta sem Óttarr mun gera sem þingmaður er að fá sér ólívugræn jakkaföt í staðinn fyrir sinnnepsgul,“ sagði ég, „en það er bara fínt, vonandi er hann jafn latur og ég held að hann sé því hann gerir þá engan óskunda heldur.“ Mér skjátlaðist hrapalega, hann fékk sér að vísu ólívugræn jakkaföt en það er ekki hægt að saka hann um að hafa ekki gert neitt róttækt. Sú stjórnmálastefna sem hann hefur framfylgt í reynd gæti sem best kallast róttæk meðvirkni.

Þrátt fyrir að vera atkvæðalítill í venjulegum skilningi þess orðs er Óttarr, með þeim fáu atkvæðum sem hann hefur greitt síðan ríkisstjórn Bjarndýrsins tók við völdum, orðinn einn af áhrifamestu stjórnmálamönnum Íslandssögunnar. Hann hefur að vísu ekki gert neitt gagn ennþá en hann gerði þessa andstyggilegu ríkisstjórn mögulega, hann virðist ekki ætla að standa gegn einkavæðingu heilbrigðiskerfisins og hann er ekki einu sinni nógu mikil gufa til þess að neita að taka afstöðu í Landsréttarmálinu, heldur tók hann virkan þátt í þeirri ósvinnu sem samþykkt var á Alþingi í fyrradag.

Ég var nokkuð viss um að Óttarr myndi ekki gera neitt gagn en það hvarflaði aldrei að mér að hann yrði beinlínis hættulegur sem þingmaður. Og það eru fleiri en ég sem hrista höfuðið og spyrja: „Hver er eiginlega stefna Bjartrar framtíðar? Veit Óttarr ekkert hvað hann er að gera? Hvað gengur manninum til?“

Síðustu daga hefur hugsanlegt svar hljómað í huga mér aftur og aftur og einu sinni enn: „Við fyrstu sýn virðist íkorninn hlaupa stefnulaust fram og til baka eins og vitstola einfeldningur en það er ekki heldur svo einfalt. Íkorninn hefur skýr markmið, hann er að safna forða fyrir veturinn og öll hans taugaveiklunarlega iðja þjónar því markmiði.“

Svo mælti Óttarr Proppé í margfrægri íkornaræðu sinni en hvernig í ósköpunum hann ætlar að nýta þann forða sem hann hefur safnað með frammistöðu sinni hingað til, það er mér hulin ráðgáta.