Hvað gerist nú í máli Mouhameds?

Þótt Mouhamed Lo eigi ekki lengur á hættu að vera sendur til Noregs er málinu síður en svo lokið. Það sem getur gerst er eftirfarandi:

-Útlendingastofnun getur ákveðið að senda hann til Máritaníu. Það er mjög ólíklegt að sú verði niðurstaðan. Íslendingar hafa hingað til látið aðrar þjóðir um að taka ábyrgð á slíkum voðaverkum.

-Líklegt er að hann fái bráðabirgðadvalarleyfi endurnýjað á nokkurra mánaða fresti og málið verði látið velkjast í kerfinu árum saman. Maður í þeirri stöðu getur ekki haft lögheimili á Íslandi og nýtur ekki heilbrigðisþjónustu.

-Hann gæti fengið dvalarleyfi af mannúðarástæðum. Slíkt dvalarleyfi er hugsað til þess að hægt sé að veita fólki skjól án þess að það hafi búið við persónulegar ofsóknir, t.d. ef ástæða flóttans er örbirgð eða stríðsástand. Reyndin er sú að fólk sem hefur sætt persónulegum ofsóknum og á því tilkall til stöðu flóttamanns, fær gjarnan dvalarleyfi af mannúðarástæðum. Sá sem fær dvalarleyfi af mannúðarástæðum nýtur ekki sama réttar og ríkisborgarar. Hann er ekki sjúkratryggður fyrsta hálfa árið og á ekki rétt á neinni aðstoð við að koma undir sig fótunum, hvorki fjárhagsaðstoð né hjálp við að finna húsnæði. (Rauði krossinn hjálpar oft fólki í þessari aðstöðu en ríkið ber enga ábyrgð.)  Hann fær heldur ekki atvinnuleyfi nema í gegnum atvinnurekandann, þarf semsagt fyrst að fá vinnu og það eru bara ekkert allir atvinnurekendur til í að ráða mann sem ekki er kominn með leyfi. Það sem skiptir samt margt flóttafólk mestu máli er að með dvalarleyfi af mannúðarástæðum fær fólk ekki viðurkenningu á því það hafi haft raunverulega ástæðu til að flýja. Það er kannski erfitt fyrir möppudýr að skilja af hverju það skiptir máli.

-Lendingin gæti líka orðið sú sem hann óskar sér, að staða hans sem flóttamanns verði viðurkennd og hann fái tækifæri til að búa við það sem flest okkar álíta sjálfssagt: að njóta sömu réttinda og tækifæra og samferðamenn hans.

Mouhamed á sér stóra drauma. Ekki drauma um að verða ríkur, frægur eða voldugur. Ekki drauma um að klífa hæstu fjöll eða steypa ríkisstjórninni.  Mouhamed langar að verða læs á latneskt letur. Hann langar að eiga sitt eigið heimili. Hann langar að vinna fyrir peningum svo hann þurfi ekki endalaust að vera í hlutverki þiggjandans og geti stjórnað lífi sínu sjálfur. Mest af ölu langar hann að hitta systur sína og til þess þarf hann að eignast vegabréf.

Mouhamed þarf að fá hæli á Íslandi. Ekki bráðabirgðadvalarleyfi heldur réttindi sem fullgildur borgari. Hann hefur verið á flótta í þrjú ár og er þegar búinn að bíða í óvissu á Íslandi í  18 mánuði. Ég skora á alla sem láta sig mannréttindamál varða að senda póst á Útlendingastofnun utl@utl.is og krefjast þess að Mouhamed verði veitt hæli á Íslandi hið snarasta.